Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Hlaupaleiðir við Borgarnes

Hér fara á eftir langþráðar og ómissandi upplýsingar um nokkrar hringleiðir í nágrenni Borgarness, sem eru næstum eins og sniðnar fyrir hlaupara.

1. Andakílshringurinn 14,2 km
Lagt er af stað við vegamót Borgarfjarðarbrautar (50) og Mófellsstaðavegar (507) skammt innan við bæinn Innri-Skeljabrekku og hlaupið áleiðis upp í Skorradal, framhjá Hreppslaug og að vegamótum við vesturenda Skorradalsvatns skammt frá Indriðastöðum, beygt til vinstri yfir efri brúna á Andakílsá og skömmu síðar aftur til vinstri neðan við bæinn Grund og hlaupið niður Skorradalsveg (508), framhjá Miðfossum og að vegamótum við Borgarfjarðarbraut skammt frá bænum Ausu. Þar er enn beygt til vinstri eftir Borgarfjarðarbraut, hlaupið yfir neðri brúna á Andakílsá og sem leið liggur á upphafsstaðinn. Mestur hluti leiðarinnar liggur í sæmilega sléttu landi, en þó er brekkan upp hjá Hreppslaug býsna togandi. Malarvegur er fyrstu kílómetrana, þ.e.a.s. upp að Skorradalsvatni, en bundið slitlag eftir það. Umferð er sjaldnast til ama á þessari leið.

2. Hesthálshringurinn minni 20,9 km
Lagt er af stað við vegamót Borgarfjarðarbrautar (50) og Mófellsstaðavegar (507) skammt innan við bæinn Innri-Skeljabrekku og hlaupin sama leið og á Andakílshringnum, allt að vegamótunum neðan við bæinn Grund. Þar er síðan þjóðvegi 520 fylgt yfir Hestháls og niður í mynni Lundarreykjadals. Þar er beygt til vinstri og Uxahryggjavegi (52) fylgt stuttan spöl, niður að vegamótunum við Borgarfjarðarbraut skammt frá bænum Hesti. Þar er enn beygt til vinstri og hlaupið eftir Borgarfjarðarbraut sem leið liggur á upphafsstaðinn. Nokkur hæðarmunur er á leiðinni, einkum á Hesthálsi, sem þó er lægsti fjallvegur Íslands, a.m.k. af þeim sem komast á þar til gerðan lista í Vegahandbókinni, aðeins 120 m yfir sjó þar sem hæst er. Við þetta bætist svo brekkan upp hjá Hreppslaug, sem er býsna togandi. Malarvegur er fyrstu kílómetrana, þ.e.a.s. upp að Skorradalsvatni, og sömuleiðis yfir Hestháls, en bundið slitlag að öðru leyti. Umferð er sjaldnast til ama á þessari leið.

3. Hesthálshringurinn stærri 25,1 km
Lagt er af stað við vegamót Borgarfjarðarbrautar (50) og Mófellsstaðavegar (507) skammt innan við bæinn Innri-Skeljabrekku og hlaupin sama leið og á minni Hesthálshringnum, þar til komið er inn á Borgarfjarðarbraut fyrir neðan bæinn að Hesti. Skömmu síðar er beygt til hægri niður Hvítárvallaveg (510) og hlaupið niður undir Hvítárvelli. Þar er beygt til vinstri og Hvanneyrarvegi (511) fylgt fram hjá Hvanneyri, að vegamótum við Borgarfjarðarbraut skammt frá bænum Ausu. Þar er beygt til hægri og hlaupið eftir Borgarfjarðarbraut á upphafsstaðinn. Nokkur hæðarmunur er á leiðinni, einkum á Hesthálsi, sem þó er lægsti fjallvegur Íslands, a.m.k. af þeim sem komast á þar til gerðan lista í Vegahandbókinni, aðeins 120 m yfir sjó þar sem hæst er. Við þetta bætist svo brekkan upp hjá Hreppslaug, sem er býsna togandi. Malarvegur er fyrstu kílómetrana, þ.e.a.s. upp að Skorradalsvatni, og sömuleiðis yfir Hestháls. Sömuleiðis er möl á Hvítárvallavegi og á Hvanneyrarvegi frá Hvítárvöllum að Hvanneyri. Umferð er sjaldnast til ama á þessari leið.

4. Hvanneyrarhringurinn minni 33,0 km
Lagt er af stað frá vegamótum við Hyrnuna í Borgarnesi og hlaupið norður Vesturlandsveg að bænum Beigalda. Þar er beygt til hægri inn á Ferjubakkaveg (530) og hann hlaupinn á enda. Síðan er aftur beygt til hægri og hlaupið eftir Hvítárvallavegi (510), yfir gömlu Hvítárbrúna, framhjá Hvítárvöllum og áfram eftir Hvanneyrarvegi (511), framhjá Hvanneyri og að vegamótum við Borgarfjarðarbraut skammt frá bænum Ausu. Þar er beygt til hægri og hlaupið eftir Borgarfjarðarbraut allt að vegamótum við Vesturlandsveg við suðurenda Borgarfjarðarbrúarinnar, og þaðan yfir brúna á upphafsstaðinn við Hyrnuna. Engar umtalsverðar brekkur eru á þessari leið, nema þá helst upp af Grjóteyri, skömmu áður en komið er að Borgarfjarðarbrúnni. Mestur hluti leiðarinnar er á bundnu slitlagi, að frátöldum hluta af Ferjubakkaveginum og þaðan að Hvanneyri. Vegna umferðar er best að hlaupa þessa leið snemma morguns, því að umferð á Vesturlandsvegi getur verið bæði býsna mikil og hröð þegar kemur fram á daginn.

5. Háfslækjarhringurinn 17,9 km
Lagt er af stað frá vegamótum Snæfellsnesvegar (54) og Sólbakka, skammt frá hringtorginu neðan við Húsasmiðjuna í Borgarnesi, hlaupið norður Sólbakka og síðan beygt örlítið til vinstri inn á malarveg sem liggur meðfram nýjum iðnaðarlóðum í norðurjaðri byggðarinnar í Borgarnesi. Við bensínstöð Atlantsolíu kemur dálítill hlykkur á leiðina, sem síðan fylgir Vallarási allt að hesthúsahverfi Borgnesinga. Þar er beygt til vinstri og hlaupið upp brekku og síðan til hægri ofan við hesthúsahverfið og sem leið liggur upp í fólkvanginn í Einkunnum. Skömmu áður en komið er upp í skóginn er beygt til hægri inn á lausan malarveg sem hlykkjast vestur yfir Háfslæk, allt vestur á Jarðlangsstaðaveg við Langá. Honum er svo fylgt niður að vegamótunum austan við Langárbrúna, þar sem beygt er til vinstri inn á Snæfellsnesveg. Loks er hlaupið eftir Snæfellsnesvegi að upphafsstaðnum. Engar umtalsverðar brekkur eru á þessari leið, nema helst við bæinn Laufás skammt austan við Langárbrúna. Vegurinn upp að Einkunnum er malarvegur, oftar en ekki fremur laus í sér. Vegurinn frá Einkunnum og vestur að Langá er mjög laus og fremur grófur. Jarðlangsstaðavegur er líka malarborinn og þar getur ryk verið til leiðinda, en umferð er þó oftast lítil. Umferð um Snæfellsnesveg getur verið allþung á annatímum. Þar eru kantar naumir og leiðin ekki örugg til hlaupa þegar umferðin er mest.

6. Grenjamúlahringurinn 37,6 km
Lagt er af stað frá vegamótum Ólafsvíkurvegar (54) og Grímsstaðavegar (535) vestan við brúna á Urriðaá, og hlaupið eftir Ólafsvíkurvegi til norðvesturs, vestur fyrir Álftá og að vegamótum við Hítardalsveg (539). Þar er beygt til hægri og hlaupið eftir Hítardalsvegi inn fyrir bæinn að Mel. Þar er aftur beygt til hægri inn á vegarslóða sem liggur upp undir múlana og áfram til austurs meðfram Grenjamúla, fram hjá Ytri- og Syðri Hraundal og loks niður Grímsstaðaveg að upphafspunkti. Leiðin meðfram múlunum er falleg, en mishæðótt og gróf. Þar eru einnig nokkrir fremur smáir óbrúaðir lækir. Ekkert bundið slitlag er á leiðinni, nema á Snæfellsnesvegi. Þar getur umferð verið til óþæginda fyrir hlaupara á annatímum, en að öðru leyti er leiðin fáfarin.

Læt þessar sex leiðir nægja að sinni. Þrjár til viðbótar eru til skoðunar og verður e.t.v. lýst síðar þegar ég er sjálfur búinn að hlaupa þær og mæla. Ein þeirra er fullvaxinn Hvanneyrarhringur, þar sem Ferjubakkavegurinn er ekki notaður til að stytta sér leið. Önnur er umhverfis Skorradalsvatn, sem er væntanlega frekar krefjandi hlaupaleið. Sú þriðja er frá Borgarnesi, upp að Laxholti, vestur með Álftavatni að Stangarholti og þaðan niður Jarðlangsstaðaveg.

Ég efast ekki um að eftir lestur þessara upplýsinga þyrpist fólk út til að hlaupa þessar skemmtilegu leiðir. Það gera menn þó á eigin ábyrgð. Þá er gott að hafa í huga, að allar þessar leiðir er jafnlangar hvort sem þær eru hlaupnar réttsælis eða rangsælis - og óháð því hvar á hringnum hlaupin hefjast.


Stopult hlaupablogg

Það er orðið langt síðan ég hef bloggað eitthvað um hlaup, enda hafa hlaupin verið stopul. Eiginlega hef ég ekki haft neitt sérstakt markmið í huga frá því í Róm sællar minningar. En nú fer líklega að færast meiri festa í þetta aftur. Ég er jú búinn að skora á elsta barnið mitt í keppni í hálfu maraþoni á Akureyri 21. júní nk. Verð að fara að undirbúa það af fullri alvöru. Annars gæti ég barasta tapað! Síðast vann ég, en þá var barnið líka bara 16 ára. Síðan höfum við báðir elst um 7 ár. Það er ekki endilega báðum í hag. Errm

Þrátt fyrir allt hef ég svo sem hlaupið alveg slatta. Er t.d. kominn 190,5 km það sem af er maí. Þar með er maí meira að segja orðinn 4. lengsti mánuðirinn frá upphafi, með smáfyrirvara um árin 1973-1975 sem ég er ekki alveg búinn að gera upp. Á morgun klára ég það sem vantar á 200 kílómetrana.

Tölur eru afstæðar. Sumum finnst sjálfsagt mikið að hlaupa 200 km á einum mánuði. Það getur líka alveg verið rétt. Það fer bara allt eftir því við hvað er miðað. Gunnlaugur Júlíusson kláraði t.d. 217,7 km á einum sólarhring um síðustu helgi úti á Borgundarhólmi! Mér skilst á Hagstofunni að hann sé í þokkabót töluvert eldri en ég. Reyndar grunar mig að fáir geri sér grein fyrir hvílíkt afrek þetta er hjá Gunnlaugi. Pælið bara aðeins í þessu; fimm maraþon á einu bretti og tæpir 7 km í viðbót!

Mývatnsmaraþonið er á morgun. Ég fór í það í fyrra sem æfingu fyrir Laugaveginn. Það var erfitt, enda frekar hvasst og kalt fyrir norðan þann dag. Núna nennti ég ekki að fara. Hinn hlaupahópurinn í Borgarnesi, les: Ingimundur Grétarsson, sér um að halda uppi merki Borgfirðinga. Hann fór norður í dag og ég bíð spenntur eftir fréttum seinni partinn á morgun.

Áðan talaði ég um markmiðsleysi. Er að vinna í því núna að skilgreina markmið fyrir þetta ár og kannski líka það næsta. Á þessu ári verða alla vega 7 fjallvegir á listanum, auk Akureyrarhlaupsins. Kannski segi ég ykkur bráðum frá því hvaða hugmyndir eru uppi fyrir árið 2009. Markmið eru góð, sérstaklega þegar maður nær þeim. Í því felst nefnilega gleðin! Happy


Búið að bíða nóg eftir EES

Í Bændablaðinu í gær kemur fram að í ársbyrjun 2005 hafi Kolbrún Halldórsdóttir alþingismaður spurt Siv Friðleifsdóttur þáverandi umhverfisráðherra hvers vegna ekki hefðu verið settar reglur hér á landi um erfðabreytt matvæli, þ.á.m. um merkingu slíkra matvæla. Í svari ráðherra kom fram að slíkar reglur hefðu verið teknar upp hjá Evrópusambandinu árið 2004, en ekki væri búið að taka þær inn í EES-samninginn. Þremur árum síðar spurði Kolbrún Einar Kr. Guðfinnsson landbúnaðarráðherra sömu spurningar og fékk sömu svör. Það væri sem sagt enn verið að vinna að upptöku viðkomandi reglugerðar í EES-samninginn, og þess vegna væri ekki búið að taka þetta inn í íslenskt regluverk.

Í tilefni af þessu legg ég til að íslensk stjórnvöld hætti að bíða eftir EES í þessu máli. Ég veit nefnilega ekki til þess að það sé nein skylda! Það er einfaldlega hægt að smíða íslenskar reglur upp úr fjögurra ára gamalli reglugerð Evrópusambandsins. Það má svo aðlaga reglurnar að EES-gjörðinni síðar, ef þetta "síðar" kemur einhvern tímann - og ef svo ólíklega skyldi vilja til að þess gerðist þörf.

Ég legg líka til að íslenskir neytendur láti stjórnvöld vita að þeim sé ekki sama hvað þeir láti ofan í sig - og að þeim finnist óþarfi að búa árum saman við lélegra regluverk en þjóðir Evrópusambandins, bara vegna þess að einhverjir skrifstofumenn í Brussel eða í einhverju öðru evrópsku þorpi standi sig ekki í vinnunni.

Eða er kannski öllum sama?


Hungur og erfðatækni

Í framhaldi af umræðum síðustu daga um kosti og galla erfðabreyttra matvæla, langar mig að benda á athyglisverða frétt á heimasíðu Bændablaðsins í gær. Þar er sagt frá niðurstöðum þriggja ára alþjóðlegs rannsóknarverkefnis um nauðsynlegar breytingar á landbúnaði. Niðurstaða verkefnisins er sú að erfðabreytt ræktun sé ekki leiðin til að styrkja matvælaframleiðslu í heiminum. Rannsóknin, sem hefur yfirskriftina „International Assessment of Agricultural Science and Technology for Development“ (IAASTD), er studd af 400 vísindamönnum, 64 ríkisstjórnum og fjölda stofnana.


Persónulegir kolefniskvótar

Persónulegir kolefniskvótar eru til umræðu í breska þinginu þessa dagana, en ein af nefndum þingsins hefur lagt til að slíkir kvótar verði teknir upp. Hver einasti einstaklingur fengi þá úthlutað tiltekinni losunarheimild, hugsanlega að teknu tilliti til aldurs, búsetu og heilsu. Þingmennirnir segja að vissulega verði slíkt kvótakerfi dýrt í uppsetningu og rekstri, en það sé hins vegar betur til þess fallið en hefðbundinn umhverfisskattur að hafa áhrif á daglega hegðun fólks og virkja það í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Auk þess stuðli kvótakerfi af þessu tagi að vissum jöfnuði, því að þeir sem minnst hafa umleikis muni væntanlega verða aflögufærir og þar með geta selt hluta af kvótanum sínum til þeirra sem eru betur stæðir og berast meira á, með tilheyrandi koltvísýringslosun.

Þingnefndin mun birta skýrslu sína um persónulega kolefniskvóta á næstunni. Þingmennirnir telja hugmyndina vera nokkuð á undan tímanum, en engu að síður eitthvað sem full ástæða væri til að skoða af fullri alvöru.

Hægt er að fræðast meira um þessar hugmyndir breskra þingmanna í fréttum BBC frá síðasta mánudegi. Í framhaldinu er eðlilegt að velta því fyrir sér hversu stór kvóti hvers og eins eigi að vera. Ef fleiri lönd myndu taka upp svona persónulega kolefniskvóta, ætti hann þá t.d. að vera jafn hár alls staðar í fyllingu tímans, hvort sem menn búa á Bretlandi, Íslandi eða Tuvalu? Ef vel viðrar ætla ég að velta mér upp úr þeirri spurningu í nýrri bloggfærslu á næstu dögum. Missið ekki af því. Smile


Erfðabreytt á diskinn minn? Er það í lagi?

Í dag sat ég, ásamt svo sem 100 öðrum, áhugaverðan fyrirlestur Jeffreys Smith um heilsufarsáhrif erfðabreyttra matvæla. Jeffrey þessi er einn kunnasti fyrirlesari heims um áhrif erfðatækninnar á umhverfi og heilsufar, auk þess að hafa skrifað tvær afar vinsælar bækur um þessi mál. Sú fyrri, Seeds of Deception, mun vera söluhæsta bók fyrr og síðar um erfðabreytt matvæli. Þannig er Jeffrey vafalaust í hópi þeirra sem hafa haft mest áhrif á opinbera umræðu um notkun erfðatækni. Hann er hins vegar ekki vísindamaður, heldur fyrst og fremst blaðamaður, sem hefur sett sig gríðarlega vel inn í mál, sem eru hreint ekki auðveld í meðförum fyrir leikmenn.

Í fyrirlestri Jeffreys kom m.a. fram að á markaði væru afurðir úr fjórum tegundum plantna sem breytt hefði verið með genatækni, þ.e.a.s. soja, maís, bómull og canóla (kanadísk repja). Oftast væru gen flutt úr bakteríum í plönturnar. Í Bandaríkjunum er um 91% af öllu soja erfðabreytt, um 73% af maísnum og um 87 af bómullinni. Tilgangurinn með erfðabreytingunum er sem hér segir:

  • Að auka þol plantnanna gegn illgresiseyðum 73%
  • Að láta plönturnar framleiða eigin varnarefni 18%
  • Hvort tveggja                                          8%
  • Annar tilgangur                               Óverulegt

Með þessu móti var ætlunin að auka útflutning matvöru frá Bandaríkjunum, styrkja stöðu Bandaríkjanna á alþjóðlegum matvælamarkaði, auka uppskeru og bæta afkomu bænda. Ekkert af þessu hefur gengið eftir.

Megininntakið í fyrirlestri Jeffreys var að fimm atriði gætu farið úrskeiðis við flutning gena úr einni lífveru til annarrar, og að þrátt fyrir takmarkaðar rannsóknir hefði verið sýnt fram á að allt þetta hefði farið úrskeiðis í tilteknum tilvikum. Þessi 5 atriði eru:

  1. Óvæntar stökkbreytingar geta orðið í erfðaefninu sem nýja genið er flutt í. Slíkar stökkbreytingar verða í 2-4% tilvika.
  2. Próteinið sem innflutta genið framleiðir í nýja erfðaefninu getur verið skaðlegt.
  3. Próteinið sem innflutta genið framleiðir í nýja erfðaefninu getur verið annað en það sem ætlast var til. Þetta getur m.a. stafað af því að genið sé túlkað öðruvísi en í upphaflega erfðaefninu.
  4. Erfðabreytt matvæli geta hugsanlega innihaldið meiri leifar af illgresiseyði, vegna þess að hægt er auka notkunina eftir að sjálf nytjaplantan er orðin ónæm fyrir eitrinu.
  5. Genaflutningur getur átt sér stað úr hinni erfðabreyttu fæðu yfir í þarmabakteríur, sem geta þá hugsanlega farið að framleiða eigin varnarefni.

Margt fleira væri hægt að tína til úr fyrirlestrinum. Þar kom m.a. fram að 53% Bandaríkjamanna myndu ekki leggja sér erfðabreytt matvæli til munns ef þau væru merkt sem slík. Þar í landi eru hins vegar ekki viðhafðar neinar slíkar merkingar, ekki frekar en á Íslandi.

Jeffrey kvað góðu fréttirnar vera þær, að neytendur hefðu síðasta orðið. Það eina sem þyrfti til, væri að neytendur fengju upplýsingar og hefðu val um það hvort þeir innbyrtu erfðabreytta fæðu eður ei. Í Bretlandi urðu þáttaskil hvað þetta varðar 1999 eftir að Dr. Arpad Pusztai var rekinn fyrir að segja frá rannsóknaniðurstöðum sem sýndu mikil skaðleg áhrif erfðabreyttra kartaflna á tilraunarottur. Eftir það snerust neytendur í vaxandi mæli gegn erfðabreyttum matvælum. Jeffrey spáir því að svipuð þáttaskil verði í Bandaríkjunum fyrir árslok 2009.

Það er auðvelt að afgreiða allt það sem Jeffrey Smith hefur að segja, með því að hann sé ekki erfðafræðingur og skorti því vísindalegan bakgrunn. En allar þær áhættur sem hann bendir á eiga sér stoð í rannsóknum. Í þessu sambandi er líka vert að rifja upp varúðarregluna, sem leiðtogar þjóða heims komu sér saman um árið 1992 með samþykkt Ríóyfirlýsingarinnar um umhverfi og þróun. Samkvæmt henni hvílir sönnunarbyrðin á þeim sem vill taka áhættuna, en ekki þeim sem vill forðast hana. Í erfðatækninni hvílir sönnunarbyrðin því á framleiðendum. Það er sem sagt hlutverk framleiðendanna að sýna fram á að vörurnar séu skaðlausar. Efasemdarmennirnir þurfa ekki að sýna fram á að þær séu skaðlegar. Samt er enn skákað í því skjólinu, að skaðsemin hafi ekki verið sönnuð!!!

Málið er einfalt: Fram hafa komið fjölmargar vísbendingar um skaðsemi erfðabreyttra matvæla. Skaðleysi þeirra hefur aldrei verið sannað. Þess vegna ætti ekki undir nokkrum kringumstæðum að leyfa markaðssetningu og sölu slíkra matvæla, ekki frekar en óprófaðra lyfja. Það er í raun alveg gjörsamlega galið að setja á markað nýja gerð matvæla, án þess að fyrir liggi niðurstöður einnar einustu klínískrar rannsóknar á hugsanlegum heilsufarsáhrifum. Hvað eru menn eiginlega að pæla? Og hvað eru íslensk stjórnvöld eiginlega að pæla með því að fylgja ekki fordæmi nágrannalandanna varðandi reglur um merkingu matvæla???????????????????????????????

Það væri auðveldlega hægt að skrifa margfalt meira um þessi mál. Til dæmis væri fróðlegt að rekja niðurstöður þeirra dýratilrauna sem gerðar hafa verið á skaðsemi erfðabreytts fóðurs. Eins mætti minnast á afföll af húsdýrum sem beitt hefur verið á erfðabreytta akra. Loks hefði verið fróðlegt að rekja hvernig verslun með erfðabreytt fræ hefur skapað fyrirtækjarisum á borð við Monstanto einokunaraðstöðu, en leitt fátæka bændur út í enn meiri fátækt og í nokkrum tilvikum dauða. En einhvers staðar verður maður að setja punktinn. Það er jú alltaf hægt að taka upp þráðinn síðar. Þangað til langar mig að benda á dálitla samantekt sem ég skrifaði á bloggsíðuna mína 2. mars 2007 eftir fyrirlestur hjá Dr. Terje Traavik, prófessor í genavistfræði við háskólann í Tromsø.

Mér finnst við hæfi að enda þennan slitrótta pistil á eftirminnilegum orðum Roberts Mann, lífefnafræðings við háskólann í Auckland: "Biology is much more complex than technology". Bendi annars á http://www.responsibletechnology.org.


Húsfluga drepin með haglabyssu

Síðla vetrar varð ég fyrir því óláni að togna í öxl, nánar tiltekið í einhverjum örvöðva undir brún hægra herðablaðsins. Þetta háði mér þó alls ekkert í daglegu amstri, enda umræddur vöðvi greinilega í afar lítilli notkun. Hins vegar var þetta frekar vont til að byrja með. Fyrstu næturnar truflaði verkurinn meira að segja svefn þegar leið að morgni. En þar sem ég er frekar duglegur að sjá til, ákvað ég að sjá til í nokkra daga hvort þetta lagaðist ekki af sjálfu sér. Eitthvað drógst batinn, en fljótlega hætti þetta þó að angra mig um nætur. Alltaf var samt einhver sársauki til staðar, einkum fyrst á morgnana. Þar kom því að lokum að ég pantaði tíma hjá lækni á heilsugæslustöðinni.

Eftir stutt samtal staðfesti heilsugæslulæknirinn þá sjúkdómsgreiningu sem ég hafði þegar gert og vildi skrifa upp á Voltaren Rapid sem er jú bólgueyðandi lyf með verkjastillandi og hitalækkandi verkun. Ég maldaði aðeins í móinn og þóttist telja ólíklegt að bólgueyðandi lyf gæti læknað tognun eitt og sér. Læknirinn benti mér hins vegar á, sem eflaust var rétt, að verkurinn stafaði af blæðingu og bólgu í vöðvanum, þótt lítill væri, og þess vegna myndi Voltaren Rapid flýta fyrir batanum. Þá þakkaði ég fyrir spjallið, sem vissulega hafði verið gagnlegt og upplýsandi, einkum vegna þess að óvissu um sjúkdómsgreininguna hafði að mestu verið eytt. Um leið afþakkaði ég lyfið að sinni og kvaðst ætla að íhuga málið betur áður en lyfseðlaskrif hæfust.

Eftir samtalið við lækninn herti heldur á batanum, þótt engin væru lyfin. Staðfesting hans á sjúkdómsgreiningunni gerði það nefnilega að verkum að ég sneri mér óhræddur að því að teygja og styrkja umræddan vöðva, eða líklega öllu heldur aðliggjandi vöðva. Slíkar aðgerðir hafa jafnan reynst mér vel í tilvikum sem þessu, enda býst ég við að margar tognanir stafi beint og óbeint af misræmi í styrk vöðva á tognunarsvæðinu. Nú eru liðnar 10 vikur frá tognuninni. Ég veit ennþá af henni, en hún er löngu hætt að skipta mig nokkru máli, hvort sem er í svefni eða vöku. Býst við að einkennin verði horfin og gleymd eftir 2-4 vikur til viðbótar.

En hvers vegna afþakkaði ég lyfið? Svarið við því er einfalt. Samkvæmt lauslegum útreikningum mínum var svæðið sem meðhöndla þurfti að hámarki um 8 rúmsentimetrar að stærð, eða um það bil 1/10.000 af líkama mínum. Og þar sem verkurinn hafði hvorki veruleg áhrif á nætursvefn né dagleg störf, þá gat ég með engu móti réttlætt það fyrir sjálfum mér að taka inn lyf, sem óhjákvæmilega hefði einhver alveg óþörf áhrif á hina 9.999/10.000 partana af líkamanum. Ég er samt nokkurn veginn sáttur við lækninn, þó að mér finnist að vísu að hann hefði átt að benda á aðra möguleika til að meðhöndla vandann, þ.e.a.s. staðbundna möguleika, hvort sem var í formi smyrsla, nudds, líkamsæfinga eða annars.

Að ráðast að örlítilli bólgu í örlitlum vöðva sem angrar mann ekki nema örlítið, með inntökulyfjum sem hafa áhrif á allan líkamann, er að mínu mati álíka gáfulegt og að drepa húsflugu með haglabyssu.


Enn um sjálfbærni hvalveiða

Í framhaldi af athugasemd sem ég fékk við síðustu færslu um „sjálfbærar hvalveiðar“, datt mér í hug að setja hérna inn nokkra punkta um það hvernig og hvers vegna hugtökin „sjálfbær þróun“ og „sjálfbærni“ urðu til. Mér finnst þörf á að rifja þetta upp, vegna þess að mér finnast þessi hugtök iðulega misnotuð á þann hátt að tengja þau aðeins við einn af þeim þremur grunnþáttum sem þau byggjast á.

Hin almenna skilgreining á hugtakinu „sjálfbær þróun“ var sett fram í skýrslu Brundtlandnefndarinnar („Our Common Future“) 1987. Samkvæmt henni er sjálfbær þróun „þróun sem gerir okkur kleift að mæta þörfum okkar, án þess að skerða möguleika komandi kynslóða á að mæta þörfum sínum“. Reyndar hefur þetta verið þýtt á örlítið mismunandi vegu yfir á íslensku, en þessi þýðing nær alla vega megininntakinu. Þessi skilgreining var lögð til grundvallar á Heimsráðstefnunni í Ríó 1992. Nýjungin í niðurstöðum Brundtlandnefndarinnar og Ríóráðstefnunnar fólst í því, að þegar rætt var um leiðina inn í framtíðina var ekki aðeins einblínt á umhverfisþáttinn eins og gert hafði verið framundir þann tíma, heldur voru menn sammála um að sjálfbær þróun væri eina leiðin inn í þessa framtíð, og að sjálfbær þróun yrði að byggjast á samþættingu þriggja grunnþátta, nefnilega vistfræðilegra, efnahagslegra og félagslegra þátta.

Hugtökin „sjálfbær þróun“ og „sjálfbærni“ þróuðust á 8. og 9. áratug 20. aldar. Forsöguna má rekja til Stokkhólmsráðstefnunnar 1972, þar sem mönnum varð ljóst að iðnríkin og þróunarlöndin gætu aldrei náð samstöðu um leiðina inn í framtíðina með því að horfa eingöngu á umhverfismál. Það sjónarmið var áberandi um þetta leyti meðal leiðtoga þróunarlandanna, að umhverfismál væru „lúxusvandamál“ ríkra þjóða. Indira Gandhi, forsætisráðherra Indlands, var reyndar eini þjóðhöfðinginn frá þróunarlöndunum sem sá ástæðu til að mæta á Stokkhólmsráðstefnuna. Þar sagði hún meðal annars eftirfarandi, sem varð mörgum minnisstætt: “Poverty is the worst pollution”, eða „Fátækt er versta mengunin“.

Eftir Stokkhólmsráðstefnuna var sem sagt ljóst að til að ná samstöðu um aðgerðir á heimsvísu til að búa í haginn fyrir komandi kynslóðir, yrði að flétta saman vistfræðilegar, efnahagslegar og félagslegar áherslur. Í framhaldi af þessu þróaðist hugtakið „sjálfbærni“, en það var fyrst notað af Alkirkjuráðinu 1974. Þar var reyndar félagslega áherslan í aðalhlutverki. Alþjóðanáttúruverndarsamtökin IUCN kynntu síðan hugtakið „sjálfbær þróun“ árið 1980. Þar var talað um að auka lífsgæði fólks samhliða því sem fjölbreytileika og heilbrigði náttúrunnar væri viðhaldið. Þarna var félagslegi þátturinn ekki mjög fyrirferðarmikill og ekkert rætt um nauðsynlegar breytingar í stjórnmálum og hagkerfum. Sem fyrr segir, var það svo Brundtlandnefndin sem setti fram þá skilgreiningu sem almennt er notuð í dag.

Það er að mínu mati út í hött og algjörlega á skjön við þá hugsun sem hugtökin „sjálfbær þróun“ og „sjálfbærni“ byggjast á, að nota þessi hugtök þegar aðeins er rætt um einn þeirra þriggja grunnþátta sem þar koma við sögu. Þess vegna eru hvorki hvalveiðar né neinar aðrar athafnir manna sjálfbærar, nema menn séu þokkalega sammála um að svo sé bæði í vistfræðilegu, efnahagslegu og félagslegu tilliti.


Sjálfbærar hvalveiðar?

Í dag var tilkynnt að hrefnuveiðar gætu hafist innan skamms. Í tengslum við þetta sá ég eða heyrði einhvers staðar talað um „sjálfbærar veiðar“. Hvað sem mönnum finnst um veiðarnar, legg ég til að sjálfbærnihugtakinu sé haldið utan við málið. Reyndar virðast flestir sammála um að veiðarnar skipti engu máli fyrir hrefnustofninn. En þau líffræðilegu rök duga ekki til að hægt sé að tala um sjálfbærar veiðar. Áður en menn fullyrða eitthvað um sjálfbærni tiltekinnar aðgerðar, þarf nefnilega að huga líka að efnahagslegum og félagslegum hliðum málsins. Ein forsenda þess að hrefnuveiðarnar geti talist sjálfbærar er sú, að þær gefi eitthvað af sér í efnahagslegu tilliti. Það þýðir m.a. að kjötið þurfi að seljast fyrir ásættanlegt verð og að veiðarnar skaði ekki aðra efnahagslega hagsmuni í nútíð eða framtíð. Ef veiðarnar leiða t.d. til minni tekna af erlendum ferðamönnum samanlagt, umfram það sem nemur hag þjóðarbúsins af veiðunum, þá eru veiðarnar ekki sjálfbærar. Félagslega hliðin getur líka orkað tvímælis, m.a. þegar tekið er tillit til þess hversu mjög skoðanir á veiðunum eru skiptar.

Sem sagt: Líffræðileg rök duga ekki til að hægt sé að dæma um sjálfbærni hvalveiða. Efnahagslegu og félagslegu rökin þurfa líka að vera traust. Um það eru mjög skiptar skoðanir. Þess vegna legg ég til að menn láti nægja að segja að veiðarnar skaði ekki hrefnustofninn, en sleppi öllum fullyrðingum um sjálfbærni.

Til glöggvunar ætla ég að vísa í skýringarmynd Wikipediu um sjálfbæra þróun. Skýringarnar eru á ensku. Nenni ekki að þýða þær núna.
Sjálfbær þróun (Wikipedia)


Hógvært og kurteist fólk

Litháar eru líklega hógværasta og kurteisasta fólk sem ég hef hitt. Var þar í stuttri heimsókn um hávetur í kulda og myrkri fyrir nokkrum árum. Tvennt er einkum minnisstætt; annars vegar mikill hlýhugur í garð Íslendinga og hins vegar aðferð heimamanna til að greiða fargjaldið sitt í strætisvagninum. Ég sat í miðjum vagni af minni gerðinni þegar bankað var laust í öxlina á mér. Ég sneri mér við og þá voru mér réttar nokkrar lítur. Þetta var fargjald fyrir einhvern á aftasta bekk. Ég átti síðan að láta aurana ganga áfram til mannsins í sætinu fyrir framan mig - og svo koll af kolli. Þetta virkaði vel, bílstjórinn fékk fargjaldið og skömmu síður kom skiptimynt sömu leið til baka. Sama aðferð var viðhöfð í stóru vögnunum í Vilnius. Fólkið settist aftast í vagninn, þögult og kappklætt, og lét síðan miðann sinn ganga rétta boðleið til þeirra sem næst stóðu tækinu sem gataði miðana. Svo kom miðinn gataður til baka sömu leið. Þögult, hógvært og sjálfsagt.

Ég fagna því að Litháar á Íslandi eru búnir að stofna félag, m.a. til að bæta ímynd Litháa hérlendis. Þessi þjóð á betra skilið en að örfáir misyndismenn komi á hana óorði!


mbl.is Litháar á Íslandi stofna félag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband