Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008
23.8.2008 | 20:26
Endanlegar hlaupatölur
Bara til að hafa þetta alveg á hreinu:
Þorkell 42:47 mín. 35. sæti af 787 körlum 20-39 ára,
64. sæti af 3.025 alls.
Ég 44:04 mín. 6. sæti af 170 körlum 50-59 ára,
85. sæti af 3.025 alls.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
23.8.2008 | 14:46
Markmiðið náðist ekki ;-(
Ég náði ekki því markmiði mínu í 10 km hlaupi Reykjavíkurmaraþonsins að hlaupa á betri tíma en 43:27 mín.
Tíminn minn í morgun var bara 44:04 mín, sem dugði í 84. sæti af 2.929 keppendum samkvæmt bráðabirgðaúrslitum á www.marathon.is. Held ég hafi verið í 6. sæti karla á sextugsaldri. Þetta eru náttúrulega gríðarleg vonbrigði og ljóst að ég verð að taka næstu daga í að fara yfir hvað fór úrskeiðis. Jæja, ég veit það svo sem alveg. Í fyrsta lagi fór ekkert úrskeiðis, ég leyfði mér bara að njóta hlaupsins og leit aldrei á klukkuna fyrr en á síðustu 100 metrunum. Og ég er náttúrulega bara glaður að geta enn hlaupið þessa vegalengd á ekki lengri tíma. Í öðru lagi hef ég einfaldlega ekki hlaupið nógu mikið síðari hluta sumars.
Þorkell frumburður var auðvitað langt á undan mér eins og venjulega. Hann hljóp á 42:47 mín og varð í 63. sæti af þessum sömu 2.929 keppendum. Hann hélt sem sagt uppi heiðri fjölskyldunnar.
Þetta var 15. 10 km keppnishlaupið mitt - og reyndar 5. besti tíminn frá upphafi, þrátt fyrir allt. Besta tímanum náði ég á innanfélagsmóti ÍR á Melavellinum sunnudaginn 6. október 1974, 36:54,8 mín. Eins og ég hef áður sagt hefur gengið illa að toppa það upp á síðkastið. Næstbesti tíminn náðist í Ármannshlaupinu 25. júlí 1996, 41:00 mín. Síðan koma 43:14 mín. í Ármannshlaupinu 29. júlí 2004, 43:42 mín í Brúarhlaupinu á Selfossi 3. september 2005 og svo 44:04 mín í dag.
Margt hefur breyst í hlaupunum síðan árið 1974. Það ár náðu samtals 11 Íslendingar þeim áfanga að hlaupa 10 km í keppni - og höfðu aldrei verið fleiri! (Ég var með 6. besta tímann). Nú gæti ég trúað að þeir væru um 2.000. Fjöldi hlaupara í morgun gefur einhverja vísbendingu, en eins og fram hefur komið voru þeir u.þ.b. 2.929. Þar af voru auðvitað allmargir útlendingar, en á móti kemur að margir Íslendingar hlaupa þessa vegalend annars staðar en í Reykjavíkurmaraþoni. Mér sýnist þannig talan 2.000 hljóta að vera nærri lagi. Þetta finnst mér skemmtileg þróun!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.8.2008 | 09:07
Áheitahlaup á laugardag
Eins og landsmönnum er kunnugt ætla ég að hlaupa 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu á laugardaginn. Ætlaði upphaflega töluvert lengri vegalengd, en æfingamagn sumarsins gefur tæplega tilefni til þess. Því ákvað ég að láta 10 km duga, enda gefur það líka tækifæri til að ljúka ákveðnu verki. Ég þarf nefnilega að hlaupa 10 km á betri tíma en 43:27 mín við fyrstu hentugleika.
Forsaga málsins er sú, að í fyrra hitti ég Pétur Pétursson, vin minn, Strandamann og fyrrum landsliðsmann í þrístökki, á förnum vegi, nánar tiltekið á Djúpvegi skammt frá Hólmavík. Við þetta tækifæri benti hann mér á að hann hefði hlaupið 10 km á 43:27 mín eftir fimmtugt og lét að því liggja að ég hlyti nú að geta gert betur á nýfengnum sextugsaldri. Það er því ljóst að ég verð ekki í rónni fyrr en þessu markmiði er náð.
Reyndar á ég miklu betri tíma en 43:27 mín. Ég hef sko hlaupið 10 km á 36:54,8 mín, en það var þegar ég var 17 ára, og af einhverjum ástæðum hefur mér gengið illa að nálgast þann tíma síðustu árin. Núna er 43:27 raunhæft markmið, sem ég tel mig eiga um 50% möguleika á að ná á laugardaginn.
Hlaupið á laugardag er áheitahlaup. Þeir sem vilja heita á mig eða aðra hlaupara, t.d. Þorkel son minn, sem á vel að merkja best 39:32 mín í 10 km, geta gert það með einföldum hætti með því að fara inn á heimasíðu Reykjavíkurmaraþonsins, smella þar á tengilinn Heita á hlaupara og fylgja þeim leiðbeiningum sem þar birtast. Féð sem við feðgarnir söfnum með þessum hætti rennur til FSMA, félags aðstandenda og einstaklinga með SMA-sjúkdóminn (Spinal Muscular Atrophy) á Íslandi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.8.2008 | 15:56
Útivist til endurhæfingar
Mig langar að vekja athygli á athyglisverðri ritgerð Gunnars Gunnarssonar, sem birt var á Staðardagskrárvefnum í dag. Um er að ræða meistararitgerð Gunnars frá Íþróttaháskóla Noregs, þar sem fjallað er um útivist sem lið í endurhæfingu fólks með hjarta- og æðasjúkdóma. Yfirskrift ritgerðarinnar er "What is the potentitial of Norwegian Outdoor Life Tradition (Friluftsliv) in the Maintenance phase (III phase) of Cardiac Rehabilitation?"
Ég tel að efni ritgerðarinnar eigi mikið erindi við Íslendinga. Held nefnilega að við höfum verið ótrúlega blind fyrir þeim tækifærum sem liggja í útivist til lækninga og heilsueflingar. Íslendingar eiga aðgengilegri og heilbrigðari náttúru en flestar aðrar þjóðir. Náttúran býður okkur þjónustu sína endurgjaldslaust rétt utan við húsdyrnar, en samt reiðum við okkur öðrum þjóðum fremur á lyf sem bót flestra meina, með tilheyrandi kostnaði og hliðarverkunum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.8.2008 | 17:44
Er uppruninn að týnast?
Ég hef orðið var við þennan vanmátt ungs fólks gagnvart norrænum málum. Þetta á meira að segja við um ungt fólk á mínum aldri og þaðan af eldra. Mér finnst þetta slæmt! Bæði er ég mikill áhugamaður um norrænt samstarf og hef reyndar haft af því drjúga atvinnu lengst af þennan áratug, sem ég hefði vel að merkja ekki átt kost á hefði ég ekki verið sæmilega viðræðuhæfur, læs og skrifandi á þessar tungur - og eins hitt að hinn sameiginlegi tungumálabakgrunnur er hornsteinn í samstarfi sem á líklega engan sinn líka í heiminum. Norrænt samstarf er nefnilega afslappaðra og innihaldsríkara en gengur og gerist með milliríkjasamstarf. Ef norrænt fólk hættir alveg að skilja hvert annað er mikils misst.
Mér finnst fátt leiðinlegra en að heyra íslensk ungmenni á ýmsum aldri reyna að tala við norræna jafnaldra sína á bjagaðri ensku. Um leið og enskan er tekin í notkun á þessum vettvangi rofna ákveðin tengsl, sem ég er sannfærður um að eru mikils virði!
Það er annars stórskrýtið að við skulum ekki standa okkur betur í samskiptum á norrænum málum. Ég veit ekki betur en flestir Íslendingar á aldrinum frá tvítugs til fimmtugs hafi lært dönsku í skóla í 5-7 ár. Dönskukennslan hlýtur bara að hafa verið eitt misheppnaðasta tungumálaprojekt allra tíma, eins og mig minnir að Sveinbjörn I. Baldvinsson - eða einhver annar góður maður - hafi orðað það í grein í Morgunblaðinu fyrir nokkrum árum. Mig grunar reyndar að dönskukennslan hafi snúist allt of mikið um að lesa og skrifa en allt of lítið um að tala og hlusta.
Ætli við höfum ekki bara verið miklu betri í norrænum málum fyrir svo sem 30-40 árum síðan? Æ, ég veit það svo sem ekki, en hins vegar detta mér í hug tveir atburðir sem orðið hafa á þeim tíma og báðir eru til þess fallnir að draga úr dönskukunnáttunni. Annars vegar var það náttúrulega óheillaspor þegar farið var að þýða Andrés Önd á íslensku - og hins vegar var það síst til bóta að seinka upphafi dönskukennslunnar í grunnskólum og færa enskuna fram fyrir. Nóg er nú víst að enskunni í umhverfi barnanna - hvert sem litið er.
Svona þar fyrir utan, þá væri sjálfsagt skynsamlegt að reyna að kenna norsku í íslenskum grunnskólum í stað dönskunnar - já, eða jafnvel sænsku. Norska og danska eru jú sama tungumálið, eða því sem næst, nema hvað framburðurinn í norskunni er langt í frá eins fráhrindandi og sá danski, (með fyrirvara um mállýskur auðvitað). En líklega treysta enn færri sér til að kenna norsku úr dönsku. (Að vísu ekki úr háum söðli að detta). Og, jú, ég veit alveg að nemendur geta alveg valið að læra norsku eða sænsku í stað dönskunnar, en ég veit líka af reynslu að þetta val er víða orðin tóm!
Sumir segja reyndar svo komið að Danir skilji ekki einu sinni hverjir aðra, af því að þeir séu farnir að tala svo slæma dönsku. Það verður náttúrulega ekki lagað með bættri dönskukennslu í íslenskum skólum. Hægt er að fræðast meira um þessa óheillaþróun á http://www.youtube.com/watch?v=s-mOy8VUEBk og víðar.
Skandínavísk ungmenni skilja ekki hvert annað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.8.2008 | 22:27
Krossárdalur að baki
Hlupum norður Krossárdal í gær fjórir saman. Það var gaman og tók stutta stund. Ferðasagan er komin inn á fjallvegahlaupasíðuna, því að þetta var jú FJALLVEGAHLAUP NR. 9.
Fjallvegahlauparar á hlaðinu á Kleifum, tilbúnir að hlaupa norður Krossárdal. F.v. Rögnvaldur Gíslason, Birkir Stefánsson, Ingimundur Grétarsson og Stefán Gíslason.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.8.2008 | 09:31
Ekki bakka með umhverfismatið
Þessa dagana er mikið rætt um þá ákvörðun umhverfisráðherra að framkvæmdir vegna álvers á Bakka skuli fara í heildstætt umhverfismat. Reyndar finnst mér einkennilegt að menn þurfi að ræða þessa ákvörðun eitthvað. Það hlýtur að vera öllum til góðs þegar til lengri tíma er litið að slíkt heildstætt mat fari fram.
Til hvers er umhverfismat?
Tilgangur með umhverfismati er ekki að koma í veg fyrir framkvæmdir, heldur að tryggja eftir föngum að áður en endanleg ákvörðun er tekin, liggi fyrir allar tiltækar upplýsingar um væntanleg áhrif viðkomandi framkvæmdar á umhverfi og samfélag. Þegar um jafnstóra framkvæmd er að ræða og álverið við Húsavík, er nauðsynlegt að skapa sem besta yfirsýn yfir þau áhrif sem álverið, virkjanir í tengslum við það, háspennulínur og allt sem þessu tengist hafa þegar á heildina er litið. Það er nefnilega svo með alla hluti, að heildaráhrifin geta verið önnur en áhrif einstakra þátta lögð saman.
Vönduð ákvarðanataka
Málið snýst ekki síst um vandaða ákvarðanatöku. Þeim mun gleggri upplýsingar sem liggja fyrir um áhrif framkvæmdanna, þeim mun vandaðri verður ákvarðanatakan. Ferlið á ekki að vera þannig að fyrst taki menn ófrávíkjanlega ákvörðun og að síðan sé litið á alla upplýsingasöfnun og jafnvel upplýsingamiðlun sem ónæði sem eingöngu er til þess fallið að spilla fyrir ferlinu.
Að skipta um skoðun
Endanleg ákvörðun um að ráðast í framkvæmd er alltaf pólitísk. Hún byggir sem sagt á skoðun þeirra sem ákvörðunina eiga að taka, að teknu tilliti til regluverksins. Ákvörðunin er sem sagt ekki vélræn, ekki eitthvert já eða nei sem dettur út af vélvæddu og óskeikulu ákvarðanatökufæribandi. Til þess að geta tekið ákvörðunina þurfa viðkomandi einstaklingar því að hafa skoðað sem flesta þætti málsins sem best. Annars eru þeir ekki í aðstöðu til að taka vandaða ákvörðun.
Niðurstöður umhverfismats neyða engan til að skipta um skoðun. En þær geta hins vegar leitt til þess að skoðanir breytist á hvorn veginn sem er! Þegar niðurstöður þessa heildstæða umhverfismats liggja fyrir, munu þannig væntanlega einhverjir sem nú eru á móti þessum framkvæmdum skipta um skoðun þegar þeir sjá að þetta verður líklega ekki eins slæmt og þeir héldu. Og aðrir sem nú eru fylgjandi þessum framkvæmdum munu væntanlega einnig skipta um skoðun þegar þeir sjá hversu mikil hin samanlögðu áhrif verða. Eftir þetta er mönnum ekkert að vanbúnaði að taka ákvörðun.
Gott fordæmi Landsvirkjunar og Alcoa
Fyrirtækin sem bera hvað mestan þunga af fyrirhuguðum framkvæmdum við Húsavík eru Landsvirkjun og Alcoa. Bæði þessi fyrirtæki hafa mikinn metnað á sviði umhverfis- og samfélagsmála, jafnvel þótt ýmsir kunni að halda öðru fram. Þessi metnaður endurspeglast m.a. í sameiginlegu verkefni fyrirtækjanna, svonefndu sjálfbærniverkefni, sem sett var á laggirnar til að fylgjast með áhrifum framkvæmda við Kárahnjúkavirkjun og álverið á Reyðarfirði á samfélag, umhverfi og efnahag á Austurlandi. Eins og Friðrik Sophusson forstjóri Landsvirkjunar hefur sjálfur sagt, þá var tilgangurinn með verkefninu ekki að sannfæra neinn heldur útbúa mælikvarða á áhrif framkvæmdanna þannig að við töluðum sama tungumál þegar við förum að meta hvort áhrifin eru góð eða slæm. Að hans sögn er nefnilega afar mikilvægt að allar upplýsingar séu uppá borðinu. Hann telur að af þessu verkefni megi draga lærdóm til framtíðar og bæta vinnubrögðin í nýjum verkefnum. Helsti gallinn við verkefnið fyrir austan var sá að það fór ekki í gang fyrr en menn stóðu frammi fyrir orðnum hlut. Það nýttist með öðrum orðum ekki í upphaflegri ákvarðanatöku og sömuleiðis var ekki alltaf auðvelt að átta sig á núllpunktinum, þ.e.a.s. stöðu einstakra mælikvarða eins og hún var áður en framkvæmdir hófust. Ekki má rugla verkefni af þessu tagi saman við hið formlega umhverfismatsferli, en hugmyndafræðin er af sama toga!
Niðurstaða
- Heildstætt umhverfismat er nauðsynlegt til að stuðla að sem vandaðastri ákvarðanatöku um það hvort eða hvernig skuli ráðist í framkvæmdirnar fyrir norðan.
- Þessi vinnubrögð eru mjög í anda þeirra sem Landsvirkjun og Alcoa hafa beitt í sjálfbærniverkefninu á Austurlandi, nema hvað nú er tækifæri til að nýta þann lærdóm sem þar fékkst og bæta vinnubrögðin með því að hefjast handa mun fyrr, þ.e.a.s. nógu snemma til að hjálpa til við ákvarðanatökuna.
- Það er hugsanlegt að heildstætt umhverfismat lengi undirbúningsferlið, en á móti kemur að það auðveldar hlutaðeigandi aðilum að móta sér skoðun (sbr. 1. lið) og er til þess fallið að skapa sátt um hina endanlegu ákvörðun um það hvort ráðist skuli í framkvæmdirnar og hvernig skuli þá gengið til verks.
Þórunn kemur ekki á nefndarfund | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
11.8.2008 | 23:31
Lengsta ár sögunnar
Árið 2008 er orðið lengsta ár sögunnar, mælt í hlaupnum kílómetrum. Það sem af er árinu er ég búinn að hlaupa nákvæmlega 1.218,14 km. Næstlengsta árið í þessum skilningi var árið 2007 með 1.200 km. Þar á eftir kemur árið 1996 með 917 km. Öll önnur ár hafa verið styttri en 600 km, þó með fyrirvara um árin 1973-1975, sem ég hef ekki lagt saman enn.
Annað hvort er maður tölfræðinörd eða ekki. Ég er það greinilega ekki. Það er auðvitað engin frammistaða að vera ekki með nákvæmari mælingu á þessu. Tveir aukastafir í kílómetratölum gefa kost á 5 metra skekkju á annan hvorn veginn! Þarf að vinna í þessu!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.8.2008 | 11:01
08.08.08 kl 8: 8 km
Hljóp 8 km kl. 8 í morgun, sem ekki væri í frásögur færandi nema fyrir þá sök, að þetta var fyrsta hlaupaæfingin eftir nær þriggja vikna hlé vegna brunasárs á fæti. Gekk nógu vel til þess að mér sýnist ekkert því til fyrirstöðu að halda áfram hlaupum næstu daga. Stefnan er sett á 10 km í Reykjavíkurmaraþoni 23. ágúst. Markmiðið er að hlaupa undir 43:27 mín, sérstaklega til heiðurs Pétri Péturssyni Strandamanni. Býst reyndar tæplega við að ná því í þessari atrennu, en einhvern tímann skal ég hafa það!
En fyrst er það auðvitað Krossárdalurinn að viku liðinni.
Þeir sem vilja fylgjast virklega vel með hlaupaæfingum mínum og 488 annarra hlaupara ættu að skoða hlaupadagbókina á www.hlaup.com.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.8.2008 | 00:05
Krossárdalur föstudaginn 15. ágúst
Ég var að bæta Krossárdal inn á fjallvegahlaupadagskrána. Ætla að leggja af stað af bæjarhlaðinu á Kleifum í Gilsfirði föstudaginn 15. ágúst nk. kl. 14.00 og reikna með að ljúka hlaupinu á fremri brúnni á Krossá, skammt frá Gröf í Bitrufirði, svo sem klukkutíma og korteri síðar, nánar tiltekið um kl. 15.15.
Í andránni veit ég um tvo hlaupara auk mín sem ætla að skokka þennan spotta, nánar tiltekið þá Rögnvald bróður minn bónda í Gröf og Ingimund Grétarsson maraþonhlaupara í Borgarnesi. Leiðin er líklega rétt um 11 km og fremur auðveld yfirferðar. Reyndar er býsna bratt upp frá Kleifum, en mesta hæð á leiðinni er líklega ekki nema rúmlega 220 m y.s. Þeirri hæð er náð fljótlega og eftir það er allt á undanhaldinu, að hluta til um móa og mýrar, en að hluta til eftir sæmilegum vegarslóða. Endamarkið er líklega í um 50 m hæð.
Ég hef svo sem farið yfir Krossárdal áður, þar af einu sinni hlaupandi. Það var sumarið 1985 ef ég man rétt. Minnir að ég hafi þá verið um 1:10 klst. þessa sömu leið. Reyndar er ég alinn upp í þessum dal, sem sagt við endamarkið, en mamma ólst hins vegar upp við rásmarkið. Þetta er sem sagt á heimavelli. Leiðin yfir Krossárdal var fjölfarin fyrr á árum, enda póstleið. Þetta er líka stysta leiðin yfir Ísland.
Vonast til að fleiri sláist í för! Hafið endilega samband ef þið hafið áhuga. Farsíminn minn er 862 0538 og netfangið stefan[hjá]umis.is. Með góðri samvinnu er hægt að finna hentuga lausn á ferðum fram og til baka o.s.frv.
Hlaupið yfir Krossárdal verður 7. fjallvegahlaupið mitt í ár og það 10. samtals. Með því verða búin 20% af fjallvegahlaupaverkefninu. Næsta hlaup verður síðan yfir Gaflfellsheiði 11. september, á 100 ára árstíð pabba. Tengil á nánari upplýsingar um Gaflfellsheiðina er að finna í fjallvegahlaupadagskránni. Þar eru líka tenglar á nýlegar hlaupasögur af Brekkugjá og Eskifjarðarheiði, en hvoru tveggja lagði ég að baki í fylgd Pjeturs St. Arasonar í síðasta mánuði.
Þessi mynd af Google Earth sýnir nokkurn veginn hlaupaleiðina yfir Krossárdal.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tenglar
Gamla bloggið
- Gamla bloggið Bloggfærslurnar mínar 11/1 2007 - 29/2 2008
Síðurnar mínar
- Fjallvegahlaup Bráðabirgðasíða um Stóra Fjallvegahlaupaverkefnið :-)
- Olíuhreinsistöð Umhverfisþættir í rekstri olíuhreinsistöðva
Börnin mín (sum)
- Keli Frumburðurinn
- Jóhanna - myndir Myndirnar hennar Jóhönnu á Flickr
Vinir og ættingjar
- Hörpumyndir Aðallega Ragnar Ingi auðvitað
Frjálsar og hlaup
- FRÍ Frjálsíþróttasamband Íslands
- Hlaup.is Hlaupasíðan
- Hlaupadagbókin Segir ALLA söguna
- Sænska FRÍ Sænska frjálsíþróttasambandið
- Alþjðafrlsítrasambndð Heimasíða Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins, IAAF
Umhverfismálin
- Orð dagsins Af vettvangi Staðardagskrár 21
- UMÍS ehf. Environice Fyrirtækið mitt :-)
- Svanurinn í Noregi Svanur eins og svanir eiga að vera
- Miljø og sundhed Informationscenter for miljø og sundhed í Danmörku
- Landvernd Landvernd
- Náttúran.is Verðandi umhverfisvefur númer eitt
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 9
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar