Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009
29.5.2009 | 09:19
Enn af dauðum sniglum
Ég er ekkert á móti skattahækkunum, en hins vegar er ég mjög ósáttur við skattahækkanir af því tagi sem ákveðnar voru í gær. Þar létu menn enn einu sinni hjá líða að hefja þróun skattkerfisins í átt til nútímans, þ.e.a.s. í þá átt að láta skattlagningu vöru endurspegla að einhverju leyti þann umhverfislega og samfélagslega kostnað sem notkun vörunnar hefur í för með sér.
Ég hef áður skrifað um úrelta skattlagningu á eldsneyti og ökutæki. Í bloggfærslu 12. desember 2008 minnti ég t.d. á að á blaðamannafundi 2. júní 2008 kynnti Árni M. Mathiesen, þáverandi fjármálaráðherra, tillögur starfshóps um heildarstefnumótun skattlagningar á eldsneyti og ökutæki, en starfshópurinn hafði þá setið með málið í fanginu í tæpt ár. Við þetta tækifæri sagðist Árni gera ráð fyrir að það taki sumarið að fara yfir þessar niðurstöður og vonandi hægt að leggja fram frumvörp í haust og þau afgreidd fyrir áramót, svo vitnað sé í frétt mbl.is um málið.
Tillögur umrædds starfshóps gerðu ráð fyrir að skattlagning á eldsneyti og ökutæki yrði framvegis tengd við losun á koltvísýringi, enda væri Ísland með hæstu koltvísýringslosun nýskráðra fólksbíla innan evrópska efnahagssvæðisins. Tillögurnar byggðu að hluta á skýrslu Vettvangs um vistvænt eldsneyti, sem kynnt var í febrúar 2007.
Nú eru aðeins 4 dagar í ársafmæli umræddrar skýrslu. Samt er núna í annað sinn á þessu fyrsta ári ráðist í flatar skattahækkanir á eldsneyti og ökutæki, þ.e. hækkanir sem taka ekkert tillit til þeirra vel ígrunduðu tillagna sem settar voru fram í skýrslunni. Reyndar er hægt að halda því fram að öll skattlagning á bensín og díselolíu sé einhvers konar umhverfisskattur, en sú staðhæfing stenst þó ekki þegar grannt er skoðað, því að ég veit ekki til þess að í útskýringum með þessum nýjustu skattahækkunum sé nokkurs staðar minnst á annan tilgang skattlagningarinnar en að auka tekjur ríkissjóðs. Verð þó að viðurkenna að ég hef ekkert lesið mér til í þingskjölum gærdagsins.
Í framhaldi af orðum Árna M. Mathiesen 2, júní í fyrra, sem vitnað er til hér að framan, lét ég þau orð falla að ég sæi ekki betur en málinu væri ætlað að ganga áfram með hraða snigilsins, og svei mér ef snigillinn gengur ekki fyrir jarðefnaeldsneyti, annað hvort bensíni eða díselolíu. Í fyrrnefndri bloggfærslu 12. des. 2008 lét ég í ljós ótta við að snigillinn væri dauður - og nú er líklega óhætt að staðfesta andlát hans. Því er ástæða til að endurtaka spurninguna frá 12. des.: Til hvers í ósköpunum eru menn að plata hópa af fagfólki til að sitja í nefndum mánuðum eða árum saman, ef það stendur svo ekkert til að taka mark á þeim?
Nú kann einhver að halda því fram, að í miðju hruni sé ekki rétti tíminn til að huga að skattkerfisbreytingum. Við þessar aðstæður verði bara að sækja auknar tekjur með einhverjum ráðum, en róttækar breytingar á kerfinu þurfi að bíða betri tíma. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, að almennt sé ekki til neinn tími, hvorki í fortíð, nútíð né framtíð, sem heitir betri tími. Það er líka oft talað um skattkerfisbreytingar sem eitthvert ofur hættulegt fyrirbæri, rétt eins og Almættið hefði skapað núverandi skattkerfi á 8. deginum, og allt fikt við það væri skemmdarverk á sköpuninni. Í því sambandi tala menn oft um að ekki megi rugga bátnum. En er nokkurn tímann sársaukaminna að rugga bátnum, en einmitt á tímum eins og nú þegar báturinn steypir stömpum í einhverju mesta ruggi síðari tíma? M.a. þess vegna held ég að þessi umræddi betri tími sé einmitt frekar núna en endranær!
En hvers konar skattkerfisbreytingar vil ég þá sjá? Ég er svo sem ekki tilbúinn með neina heildarmynd af þeim, enda þarf meira en einn karl til að hanna nýtt skattkerfi. En í grófum dráttum vil ég að breytingarnar taki mið af þeim hugmyndum sem hafa komið fram og þróast á síðustu 30 árum um græna skattkerfisbreytingu (e: Ecological Tax Reform (ETR)). Meginhugmyndin í þeirri hugmyndafræði er að verð vöru endurspegli þann kostnað sem viðkomandi vara veldur umhverfi og samfélagi til langs tíma litið. Málið snýst sem sagt um innlimum úthrifa, eins og ég býst við að það sé kallað á einhvers konar íslensku (e: internalisation of externalities). Hugmyndirnar sem kynntar voru á blaðamannafundinum 2. júní 2008 voru einmitt skref í þessa átt.
En hvað væri þá rétt að gera núna, eða með öðrum orðum, hvað hefði verið rétt að gera núna í stað þess að demba einhverjum flötum sköttum ofan á allt draslið? Hér á eftir fara einhver svör af mörgum, bara svona sem dæmi:
- Hækka skatta á eldsneyti þannig að þeir séu tengdir við koltvísýringslosun vegna brennslu á viðkomandi eldsneyti. Það hefði í för með sér að skattur á díselolíu yrði nokkru hærri en skattur á bensín (líklega um 17% hærri).
- Láta bifreiðagjöld að einhverju leyti endurspegla koltvísýringslosun bifreiðanna. Þyngd bifreiðanna hlýtur þó að vega þungt líka vegna slits á vegum.
- Gjörbreyta vörugjöldum á bifreiðar, þannig að sparneytnustu bifreiðarnar beri engin slík gjöld, en mestu eyðsluhákarnir verulega há gjöld. Útfærslan á þessu liggur nánast fyrir í skýrslunni sem kynnt var 2. júní 2008, nema hvað mig minnir að þar sé gert ráð fyrir þrepaskiptingu (flokkun). Ég tel hins vegar farsælla að vörugjöldin séu línulegt fall af koltvísýringslosuninni.
- Gjörbreyta skattlagningu tóbaks, þannig að í stað flatra skatta til tekjuöflunar komi eyrnamerktir og gangsæir neysluskattar sem standa undir öllum kostnaði samfélagsins vegna tóbaksnotkunar, þ.m.t. öllum kostnaði heilbrigðiskerfisins vegna notkunar þessarar vöru.
- Hækka virðisaukaskatt á flestum vörum lítillega, en lækka verulega virðisaukaskatt á vörum með umhverfisvottun eða lífræna vottun. Þessi mismunun er vandmeðfarin, en þó til þess fallin að innlima úthrif, því að umhverfismerkingar byggja jú á vistferilsmati og endurspegla því að hluta til líftímakostnað umhverfis og samfélags. Líklega eru umhverfismerkingar skásti tiltæki og þokkalega útbreiddi mælikvarðinn á þetta.
Málið snýst að hluta til um gagnsæi, þ.e. að fólki sé gerð skýr grein fyrir því hvers vegna skattlagningin sé eins og hún er, þ.m.t. hversu margar krónur af skattinum séu tilkomnar vegna koltvísýringslosunar, kostnaðs heilbrigðiskerfisins vegna reykinga o.s.frv. Þar með verður neyslustýringarhlutverkið ljósara og fólk áttar sig betur á valkostum sínum og hvaða áhrif val þess hefur.
Öll skattlagning hefur aukaverkanir. Þannig leiðir aukin skattlagning eldsneytis t.d. til hækkunar flutningskostnaðar. Þess vegna þarf alltaf að huga að jöfnunaraðgerðum þegar skattkerfi er breytt. Þetta verður nokkuð augljóst þegar maður veltir fyrir sér áhrifum þess að fara alla leið, þ.e.a.s. að færa skattlagningu alfarið af tekjum og yfir á neyslu. Ég skrifaði eitthvað um þetta í bloggfærslu 9. nóvember 2007.
Ein af aukaverkununum sem koma myndu fram ef vörugjöldum bifreiða yrði breytt á þann veg sem minnst var á hér að framan, fælist í verulegum breytingum á endursöluverði notaðra bíla. Þannig myndu sparneytnir bílar lækka í verði, þannig að í raun myndu eigendur þeirra tapa meira á sölu þeirra en ella. Hins vegar yrðu þeir jafnframt seljanlegri, og möguleikar seljandans á að fá sér nýjan sparneytinn bíl myndu batna. Á sama hátt myndu notaðir eyðsluhákar hækka í verði, en verða um leið enn illseljanlegri. Hugsanlega væri snjallt að endurskoða skilagjald á bifreiðar í tengslum við svona breytingu, m.a. með það í huga í heildina myndi breytingin örva viðskipti með bíla og draga um leið úr koltvísýringslosun bílaflotans. En þetta er stærra reikningsdæmi en svo að ég þykist geta leyst það einn við skrifborðið mitt áður en ég sný mér að öðrum verkefnum dagsins sem þar bíða.
Önnur aukaverkun hækkaðra skatta eru breytingar á vísitölum. Þetta er vægast sagt afar óþægileg aukaverkun. Þannig skiptir það mig svo sem engu máli hvort vodkaflaskan er 500 kallinum dýrari eða ódýrari, en ég er afar ósáttur við að skuldir mínar og annarra sveiflist til eftir verði vodkaflöskunnar. Kannski væri ráð að gera gagngerar breytingar á grunni vísitölunnar, þannig að inni í grunninum væru aðeins nauðsynjavörur, en óþarfi á borð við vodka og sykurskattað kók væri þar fyrir utan. Nýja vísitalan gæti þá t.d. heitið Nauðsynjavísitala.
Þetta er Stefán Gíslason sem talar frá Borgarnesi.
Mjög óvinsælar aðgerðir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
27.5.2009 | 17:00
Athugasemdir við umsókn ORF Líftækni hf.
Í dag sendi ég frá mér allítarlegar athugasemdir til Umhverfisstofnunar við umsókn ORF Líftækni hf. um leyfi til útiræktunar á erfðabreyttu byggi í framhaldi af tilkynningu sem birtist á vef Umhverfisstofnunar 20. maí sl., sjá einnig síðustu bloggfærslu. Afrit af athugasemdunum voru einnig send til Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra og allra nefndarmanna í Umhverfisnefnd Alþingis.
Lesa má athugasemdirnar í heild sinni á vef UMÍS ehf. Environice.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
25.5.2009 | 17:05
Ræktun mannapróteina í íslenskri náttúru
Umhverfisstofnun hefur til meðferðar umsókn fyrirtækisins ORF Líftækni hf. varðandi leyfi til útiræktunar á erfðabreyttu byggi. Þetta er mun stærri ákvörðun en kann að virðast í fljótu bragði, þar sem þetta yrði í fyrsta sinn sem leyft yrði að rækta erfðabreytta plöntu í íslenskri náttúru.
Sjálfur tel ég að ekki hafi verið sýnt fram á skaðleysi ræktunar af þessu tagi, sem ber þó að gera samkvæmt varúðarreglunni, áður en ræktunin er leyfð. Auk heldur virðist mér málsmeðferðin augljóslega stangast á við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/18/EB, um sleppingu erfðabreyttra lífvera út í umhverfið, sem ætti að vera búið að innleiða í íslenska löggjöf samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Reyndar stendur málið svo glöggt, að stjórnarfrumvarpi til laga til innleiðingar á tilskipuninni var dreift á Alþingi fyrir réttri viku (18. maí sl), (Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 18/1996, um erfðabreyttar lífverur), en hefur ekki enn komist á dagskrá.
Í frétt sem birt var á vef Umhverfisstofnunar 20. maí sl. kemur fram að stofnunin vill gefa almenningi og hagsmunaaðilum tækifæri til að kynna sér tilgreind áform um útiræktun. Þess vegna hefur stofnunin birt á vefsvæði sínu helstu gögn er verða lögð til grundvallar við ákvörðun um leyfisveitingu að hálfu Umhverfisstofnunar. Auk þess hefur stofnunin boðað til kynningarfundar í Gunnarsholti kl. 13.30 á morgun og gefið fólki kost á að skila inn athugasemdum í síðasta lagi 28. maí nk.
Það læðist að mér illur grunur um að hér eigi að taka stóra, stefnumótandi og óafturkræfa ákvörðun í tæka tíð áður en almenningur fréttir af því eða fær lögfestan rétt sinn varðandi málsmeðferðina. Einhver umfjöllun var um þetta mál í fjölmiðlum í síðustu viku, m.a. sl. föstudag, en annars tel ég málið lítt kynnt og frestinn til að koma á framfæri athugasemdum ótrúlega knappan miðað við það hversu stórt málið er og gögnin flókin.
Sjálfur hef ég ekki haft ráðrúm til að kynna mér málið almennilega, en þykist þó vita að engin sambærileg dæmi um útiræktun sé að finna í Evrópu, nema þá í mjög takmörkuðum mæli í tilraunaskyni. Hægt er að halda því fram að hér verði einnig um tilraunaframleiðslu að ræða, en slíkt tal virðist hreinlega útúrsnúningur, þar sem umfangið er langtum stærra en þekkist í tilraunum í álfunni: Hér er sem sagt um að ræða ræktun til sölu á fleiri hekturum lands. Auk heldur snýst þetta tiltekna mál um ræktun á mannapróteinum, en eina erfðabreytta plantan sem leyft er að rækta utanhúss í Evrópu er tiltekin gerð af erfðabreyttum maís til manneldis. Hér er því um gjörólíka starfsemi að ræða, sem á sér enga hliðstæðu í Evrópu!
Benda má Fésbókarnotendum á, að þar hefur verið stofnaður hópur undir yfirskriftinni Án erfðabreytinga - GMO frjálst Ísland.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.5.2009 | 11:08
Ólíkt höfumst við að
Borgaryfirvöld í New York hafa ákveðið að banna bílaumferð í grennd við Broadway og Times Square, en á Íslandi þora menn ekki að byggja upp eina einustu göngugötu án þess að leyfa dálitla bílaumferð um hana líka, sem þýðir auðvitað að göngugatan er ekkigöngugata.
Því hefur verið haldið fram að göngugötur þrífist ekki á Íslandi af því að þar sé svo kalt, eða svo hvasst, eða svo mikil rigning. En ekkert af þessu stenst þegar aðstæður eru bornar saman við ýmsar norðlægar borgir. Málið snýst miklu fremur um þann stóra veikleika Íslendinga að þora ekki að taka afstöðu, að þora ekki að segja nei. Kannski blandast meira að segja landlæg minnimáttarkennd þarna inn í, nefnilega sú trú að maður sé lítill nema að maður sé alltaf að sýna hvað maður sé stór. Stórir menn eiga nóg af peningum og stóra bíla og eru alltaf að flýta sér. Stórum mönnum finnast göngugötur gamaldags á meðan framtíðin hamast við að koma allt í kringum þá.
Engir bílar við Times Square | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
24.5.2009 | 11:58
Gunnlaugur vann!
Gunnlaugur Júlíusson ofurhlaupari hljóp lengst allra í 48 tíma hlaupinu sem lauk á Borgundarhólmi fyrir tæpum tveimur tímum. Hann lagði að baki hvorki meira né minna en 334 km eða 11 km meira en næsti maður. Þetta er fyrsti sigur Íslendings í ofurmaraþoni erlendis - og hreinlega ótrúlegt íþróttaafrek. Með þessum árangri er Gunnlaugur kominn upp í 3. sæti á heimslistanum, skv. upplýsingum á www.hlaup.com. Fyrir okkur hin er þetta í senn mikil hvatning til dáða og áminning um að við getum flest það sem við ætlum okkur. Málið er bara að setja sér markmið og vinna markvisst að því. Þetta gildir ekki bara um ofurhlaup, heldur líka flest annað í lífinu.
Til hamingju Gunnlaugur!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.5.2009 | 00:00
Sæludagur í Svínaskarði
Í dag hljóp ég yfir Svínaskarð við áttunda mann. Hrepptum einmuna blíðu og rifjuðum upp hvers virði það er að vera úti í íslenskri náttúru. Þetta var 11. fjallvegahlaupið mitt af 50, þannig að nú eru bara 39 eftir. Og ég get varla beðið eftir því að takast á við það næsta. Þetta er einfaldlega svo gaman!
Hlaup dagsins var samtals um 19,5 km og hófst í skemmuhverfinu á Esjumelum. Þaðan lá leiðin eftir veginum inn með Leirvogsá að ármótunum við Þverá rétt fyrir neðan bæinn Þverárkot. Þangað eru um 6 km frá upphafsstaðnum. Þessu næst var Þverá fylgt og síðan farið yfir Skarðsá á göngubrú, þá upp með Skarðsá upp í Svínaskarð á milli Móskarðshnjúka og Skálafells. Vegarslóði liggur alla leiðina yfir skarðið, en hann er mjög grófur og varla fær nema alvörujeppum og torfærutækjum.
Hópurinn dreifðist nokkuð á leiðinni upp í skarðið, enda hélt hver um sig þeim hraða sem honum þótti þægilegastur. Efst í skarðinu var áð um stund, en haldið áleiðis þegar allir voru komnir. Þarna voru 12,08 km að baki og klukkan mín sýndi 1:31:20 klst. Hæðarmælirinn stóð í 480 m, og samkvæmt því var hækkunin um 430 m.
Mér finnst alltaf mest gaman að hlaupa niður í móti, og því naut ég þess sérstaklega að hlaupa niður úr skarðinu og niður Svínadalinn áleiðis niður í Kjós. Niðurleiðin mældist 7,45 km með endapunkt á vegamótunum niðri á Kjósarskarðsvegi beint fyrir neðan Vindáshlíð. Jón Gauti Jónsson og Tryggvi Felixson fylgdu mér á niðurleiðinni, en aðrir fóru sér hægar, enda leiðin grýtt, laus í sér og viðsjárverð á köflum. Niðurleiðin tók ekki nema 39:39 mín, þannig að heildartíminn alla leiðina var 2:10:59 klst. Klukkan gekk allan tímann, líka á meðan áð var.
Það væri hægt að hafa mörg orð um það hversu skemmtilegt tómstundagaman það er að stunda fjallvegahlaup, sérstaklega eins og veðrið var í dag. En þau orð verða látin bíða betri tíma. Kannski verða sum þeirra skrifuð inn á fjallvegahlaupasíðuna mína www.fjallvegahlaup.is við tækifæri. Að kveldi dags er mér efst í huga þakklæti til ferðafélaganna 7 sem hlupu þennan spöl með mér, og þakklæti til forsjónarinnar fyrir að gera mér mögulegt að njóta svona útivistar og félagsskapar og fá að upplifa andartök þegar mér finnst ég hafa allt sem ég mun nokkurn tímann þurfa. Ætli það sé ekki það sem Laxnes kallaði kraftbirtíngarhljóm guðdómsins.
Sérstakar þakkir fær Tryggvi Felixson fyrir að benda mér á þessa leið og Sigrún Magnúsdóttir fyrir árangursríka samninga við veðurguðina. Og hér koma myndir frá hlaupi dagsins.
Guðmann Elísson á göngubrúnni yfir Skarðsá. (Ljósm. SG)
Allur hópurinn: F.v. Ég sjálfur, Hávar Sigurjónsson, Jón Gauti Jónsson,
Ingimundur Grétarsson, Birgir Þorsteinn Jóakimsson (krjúpandi),
Tryggvi Felixson, Guðmann Elísson og Arnfríður Kjartansdóttir.
(Myndin er tekin efst í Svínaskarði við grjóttóft sem er örugglega dys
Írafellsmóra. Hann tók myndina sjálfur um hábjartan dag)!
Ég sjálfur ákaflega glaður við leiðarlok í Kjósinni. (Ljósm. Jón Gauti)
Bloggar | Breytt 24.5.2009 kl. 01:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.5.2009 | 09:29
Svínaskarð framundan
Sumarið er komið! Kl. 14.00 í dag ætla ég að hlaupa af stað frá Esjumelum, áleiðis yfir Svínaskarð upp í Kjós við áttunda mann. Þetta verður fjallvegahlaup nr. 11. Nánar á fjallvegahlaup.is.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.5.2009 | 11:07
Eru Norðmenn okkur fremri?
Þrettán stærstu bæir Noregs hafa sameinast um aðgerðir sem leiða munu til 35% samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030, miðað við það sem var 1991. Bæirnir þrettán taka þátt í verkefninu Framtidens byer, sem norska umhverfisráðuneytið hleypti af stokkunum á síðasta ári í samstarfi við bæina. Verkefnið stendur til ársins 2014 og snýst um að finna leiðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þegar áhrif aðgerðanna voru kynnt í gær kom m.a. fram að með þessu næðu bæirnir enn betri árangri en stefnt er að í norsku loftslagssáttinni (Klimaforliket). Einnig kom fram að þegar tekið væri tillit til spár um fjölgun íbúa í bæjunum, samsvaraði árangurinn í raun allt að því 60% samdrætti í losun á hvern íbúa. Um leið myndu lífsgæði í bæjunum aukast, þar sem aðgerðirnar fælu m.a. í sér fjölgun hjólreiðastíga, minni bílaumferð, betri lausnir í fráveitu- og endurnýtingarmálum, auðveldari aðgang að endurnýjanlegri orku og aukna hæfni til að aðlagast loftslagsbreytingum.
Klausan hér að framan er tekin orðrétt upp úr Orðum dagsins í dag, en Orð dagsins eru eins og allir vita einn alöflugasti umhverfisfréttamiðill á Íslandi. Klausan vekur upp spurningar um hvað íslensk sveitarfélög aðhafist í loftslagsmálum. Satt best að segja hef ég ekki orðið var við mikla hreyfingu í þá átt, nema hjá Reykjavíkurborg. Þar er verið að leggja lokahönd á sérstaka loftlags- og loftgæðastefnu, ef hún er þá ekki bara þegar tilbúin.
Ég hef orðið var við að margir Íslendingar telja þjóðina vera nokkurn veginn stikkfrí í loftslagsmálum. Hér sé nefnilega notuð svo loftslagsvæn orka, að varla sé hægt að ná öllu betri árangri en þegar hefur náðst. Engu að síður eru Íslendingar þó í hópi þeirra þjóða sem losa allra mest af gróðurhúsalofttegundum á hvern íbúa, enda þjóðin gríðarlega háð innfluttu jarðefnaeldsneyti!
Þeim skjátlast sem halda að við getum ekki borið okkur saman við nágrannaþjóðirnar hvað loftslagsmál varðar. Það er líka misskilningur að aðgerðir nágrannaþjóðanna í loftslagsmálum snúist nær eingöngu um að hætta að brenna kolum og olíu til upphitunar og rafmagnsframleiðslu. Þetta sést vel þegar skoðaðar eru þær aðgerðir sem norsku bæirnir 13 ætla að grípa til. Þær skiptast í fjóra flokka:
1. Vegasamgöngur
Bæirnir ætla að stuðla að vistvænni samgöngum, m.a. með samstarfi við atvinnulífið.
2. Orkunotkun í byggingum
Bæirnir ætla að vinna að bættri orkunýtingu, líka í samstarfi við atvinnulífið.
3. Úrgangur og neysla
Bæirnir ætla að minnka losun gróðurhúsalofttegunda m.a. með vistvænum innkaupum, nýsköpun í flutningum og þróun umbúða, breyttu neyslumynstri og aukinni endurnýtingu og endurvinnslu.
4. Aðlögun
Bæirnir ætla að búa sig undir loftslagsbreytingar og vinna með atvinnulífinu að því að draga sem mest úr óæskilegum breytingum og gera sér grein fyrir efnahagslegum afleiðingum.
Íslendingar eru ekki stikkfrí! Ég bíð spenntur eftir aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda, bæði á vettvangi ríkis og sveitarfélaga. Gleymum því heldur ekki að þetta er líka ímyndarmál. Við eigum einfaldlega ekki að vera eftirbátar annarra á sviðum þar sem í þokkabót leynast fjölbreytt tækifæri til nýsköpunar og atvinnuuppbyggingar. Eitt af því fyrsta sem þarf að gera er að hrista upp í stefnumörkun ríkisstjórnarinnar á þessu sviði. Það er bara vandræðalegt að tala um 50-75% samdrátt í losun gróðurhúslofttegunda fram til ársins 2050, þegar fyrir liggur að iðnríkin þurfa að minnka losunina um allt að 95%!
Áfram Ísland!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
19.5.2009 | 08:39
Plast er ekki sama og plast
Fréttin um að Bisfenól-A berist í líkama þeirra sem drekka úr flöskum úr pólýkarbónatplasti er ein af mörgum sem minna á að neysluvörur nútímans og umbúðirnar utan um þær eru ekki allar hollar fyrir heilsu og umhverfi. Rétt er þó að benda á, að í þessu tiltekna tilviki snýst málið bara um flöskur úr pólýkarbónati, en t.d. ekki flöskur úr pólýetýleni, eins og flestar plastflöskur fyrir gosdrykki eru gerðar úr. Málið snýst sem sagt um þykku, sterku flöskurnar eins og þá sem íþróttamaðurinn á myndinni með fréttinni á mbl.is heldur á. Pólýkarbónatplast er auðkennt með tölustafnum 7 innan í þríhyrningi:
Almennt má gera ráð fyrir að hollara sé að drekka úr glerflöskum en plastflöskum, en hafa ber í huga að plast er ekki sama og plast. Annars mæli ég með að fólk æfi sig svolítið í dönsku með því að lesa þann fróðleik um Bisfenól-A á heimasíðu dönsku upplýsingamiðstöðvarinnar um umhverfi og heilsu, sem vísað var til í gær í Orðum dagsins á heimasíðu Staðardagskrár 21 á Íslandi.
Takk mbl.is fyrir að sýna málinu áhuga!
Plastefni mælist í þvagi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.5.2009 | 09:49
Að grennast í framhjáhlaupi
Margir stunda hlaup til að grennast, eða hafa a.m.k. í hyggju að gera slíkt. Ég geri ráð fyrir að markmiðið sé þá yfirleitt að ná af sér tilteknum kílóafjölda. Hlaupin virka vafalaust mjög vel sem grenningarmeðal, auk þess að hafa jákvæð áhrif á marga aðra heilsufarsþætti. Hins vegar grunar mig að til þess að ná varanlegum árangri í baráttunni við kílóin, sé farsælla að miða markmiðin við aðrar mælieiningar en kíló.
Ég held að fólk geti valið á milli tveggja valkosta þegar það byrjar að hlaupa til að grennast:
- Að setja sér markmið um fækkun kílóa
- Að setja sér markmið um árangur í hlaupum, mældan í metrum eða mínútum
Mig grunar að síðari valkosturinn sé notadrýgri, þ.e. að setja sér markmið um árangur í hlaupunum. Þetta getur verið markmið um að geta hlaupið að næsta ljósastaur, 3 km, 10 km, eða hvað sem er. Eins er hægt að setja sér markmið um að ljúka ákveðinni vegalengd á ákveðnum tíma. Þegar markmiðinu er náð, því að það gerist jú nánast í öllum tilvikum sé markmiðið á annað borð raunhæft, er svo sett nýtt markmið - um nýja vegalengd til að sigrast á, eða hvað það nú er.
Þessi aðferð, þ.e. að stefna smám saman að bættum árangri í hlaupunum í stað þess að einbeita sér að fækkun kílóa, er að mínu mati mun jákvæðari en fyrri valkosturinn, þar sem einblínt er á kílóin allan tímann. Hér er nefnilega stefnt að einhverju sem er jákvætt og skemmtilegt. Hitt, þ.e.a.s. þyngdartapið, fylgir svo nánast óhjákvæmilega sem jákvæð aukaverkun.
Munurinn á þessum tveimur valkostum liggur kannski ekki í augum uppi, en hann felst einfaldlega í sálrænu áhrifunum. Að einhverju leyti snýst þetta um það að ákveða að maður sé í sókn en ekki í vörn. Sú tilfinning að maður sé í sókn hlýtur að veita manni mun meiri ánægju en varnarbaráttan. Og ánægjan er lykillinn að því að maður nenni að halda þessu áfram. Það er endalaust hægt að setja sér ný markmið - og gleðjast yfir hverju þeirra sem náð er! Hitt kemur svo bara að sjálfu sér, ekki strax heldur smám saman.
Sem sagt: Ekki hlaupa til að grennast. Hlaupið til að finna framfarirnar og upplifa betri líðan. Hitt kemur þá af sjálfu sér. Munið bara að markmiðin þurfa að vera raunhæf. Og ef ökklarnir, hnén eða mjaðmirnar byrja að kvarta, þá er það mjög líklega vegna þess að þið hafið gert of mikið of fljótt.
Ég vil taka fram, að ég er ekki fagmaður á þessu sviði, heldur byggi ég þessi skrif á eigin hugmyndum og hlaupareynslu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Tenglar
Gamla bloggið
- Gamla bloggið Bloggfærslurnar mínar 11/1 2007 - 29/2 2008
Síðurnar mínar
- Fjallvegahlaup Bráðabirgðasíða um Stóra Fjallvegahlaupaverkefnið :-)
- Olíuhreinsistöð Umhverfisþættir í rekstri olíuhreinsistöðva
Börnin mín (sum)
- Keli Frumburðurinn
- Jóhanna - myndir Myndirnar hennar Jóhönnu á Flickr
Vinir og ættingjar
- Hörpumyndir Aðallega Ragnar Ingi auðvitað
Frjálsar og hlaup
- FRÍ Frjálsíþróttasamband Íslands
- Hlaup.is Hlaupasíðan
- Hlaupadagbókin Segir ALLA söguna
- Sænska FRÍ Sænska frjálsíþróttasambandið
- Alþjðafrlsítrasambndð Heimasíða Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins, IAAF
Umhverfismálin
- Orð dagsins Af vettvangi Staðardagskrár 21
- UMÍS ehf. Environice Fyrirtækið mitt :-)
- Svanurinn í Noregi Svanur eins og svanir eiga að vera
- Miljø og sundhed Informationscenter for miljø og sundhed í Danmörku
- Landvernd Landvernd
- Náttúran.is Verðandi umhverfisvefur númer eitt