Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Jólakötturinn

Föl með kreppuflókahöttinn
fetum slóðina.
Og sjáum jafnvel jólaköttinn
éta þjóðina.

Var að koma af stórskemmtilegu hagyrðingakvöldi í Breiðfirðingabúð. Þar gerði ég merkilega uppgötvun: Hagyrðingar eru ekki endilega miðaldra eða gamlir karlar, heldur allt eins ungar konur. Ferskeytlan er sprelllifandi!


Utanþingsstjórn?

Kannski væri ráð að fela utanþingsstjórn að fara með stjórn landsins fram að næstu alþingiskosningum, þ.e. t.d. fram á vorið. Vissulega hefur sú lausn marga galla, og gæti af sumum talist fela í sér einhvers konar uppgjöf. En kostirnir eru líka margir.

Ég held að staðan í þjóðfélaginu sé alvarlegri en ráðamenn gera sér grein fyrir. Þar á ég ekki við hina efnahagslegu stöðu, heldur miklu frekar þá samfélagslegu. Það verður greinilegra með hverjum laugardegi sem líður, að fólkið í landinu treystir ekki núverandi valdhöfum til að stýra þjóðarskútunni í gegnum brimskafla næstu vikna og mánaða. Hversu ágætlega sem einstökum stjórnmálamönnum finnst þeir hafa staðið sig, og hversu rétt sem þeir kunna að hafa fyrir sér hvað það varðar, geta þeir naumast hunsað þennan augljósa vilja og reynt að afgreiða hann sem skrílslæti. Því fyrr sem einstakir stjórnmálamenn verða læsir á þetta ástand, þeim mun líklegra er að þeim verði treyst til áframhaldandi starfa þegar þjóðin kveður upp dóm sinn. Um leið styttist líka sá tími sem það mun taka að þjappa þjóðinni saman um þau verkefni sem framundan eru. Að óbreyttu mun klofningur og óeining ná áður óþekktum hæðum, með áður óþekktum aukaverkunum.

Aðdragandinn að skipan utanþingsstjórnar er væntanlega sá, að forsætisráðherra biðjist lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt. Það þýðir alla jafna að annað hvort er mynduð ný ríkisstjórn eða þing rofið og efnt til nýrra kosninga. Þyki ekki fært að mynda nýja þingræðislega ríkisstjórn getur forsetinn skipað utanþingsstjórn. Þetta hefur gerst einu sinni í Íslandssögunni, þ.e.a.s. í desember 1942 þegar Sveinn Björnsson, þáverandi ríkisstjóri, skipaði utanþingsstjórn undir forsæti Dr. Björns Þórðarsonar, lögmanns. Þetta var neyðarúrræði, þar sem ekki hafði tekist að mynda starfhæfa stjórn að loknum alþingiskosningum fyrr um haustið. Utanþingsstjórnin sat í tæp tvö ár, eða þar til Nýsköpunarstjórnin undir forystu Ólafs Thors tók við völdum í október 1944.

Í bók Guðna Th. Jóhannessonar, Völundarhús valdsins, kemur fram að Kristján Eldjárn, þáverandi forseti Íslands, hafi verið kominn á fremsta hlunn með að mynda utanþingsstjórn eftir að stjórn Ólafs Jóhannessonar fór frá völdum 1979. Hugmyndin var svo langt komin, að búið var að leggja fyrstu drög að ráðherralista. Ætlunin var að Jóhannes Nordal seðlabankastjóri yrði forsætisráðherra, en meðal annarra hugsanlegra ráðherra voru Ásmundur Stefánsson og Jón Sigurðsson, sem báðir hafa reyndar komið við sögu í umræðum síðustu daga, tæpum 30 árum síðar. Úr þessu varð þó ekki, þar sem á síðustu stundu tókst Alþýðuflokknum að mynda minnihlutastjórn undir forsæti Benedikts Gröndals, enda hafði Sjálfstæðisflokkurinn þá samþykkt að verja slíka stjórn falli.

Hugmyndin um utanþingsstjórn hefur ekki verið áberandi í fjölmiðlum síðustu daga, en nokkur umræða hefur þó farið fram um málið í netheimum. Utanþingsstjórn er auðvitað alls engin töfralausn. Hún er þvert á móti algjört neyðarúrræði. En kannski ríkir einmitt þess konar neyð núna, að þessi lausn sé sú skásta. Þarna gætu setið sérfræðingar með þokkalega hreint borð, sem sagt fólk sem almenningur og erlendir samstarfsaðilar gætu treyst. Um leið fengist friður; friður til að stjórna, friður til að huga að innra starfi stjórnmálaflokkanna og undirbúa kosningar og friður fyrir fólk flest til að sinna þeim málum sem því standa næst. Þegar friðurinn hefur ríkt nógu lengi yrði svo kosið til Alþingis - og eftir það tæki trúlega við töluvert breytt landslag, bæði hvað varðar stjórnmálaflokka og einstaklinga í forystuhlutverkum. Kannski myndi sagan frá 1944 endurtaka sig, þ.e.a.s. að þegar utanþingsstjórnin hefði lokið hlutverki sínu, tæki Nýsköpunarstjórn við. Nýsköpunar er þörf, þó að hún þurfi ekki að byggjast á fulltrúum sömu flokka og mynduðu samnefnda stjórn í árdaga lýðveldisins!

Til að fyrirbyggja misskilning tel ég rétt að taka það fram, svona rétt í lokin, að hvað sem öllu tali um utanþingsstjórnir líður, þá ætti Ólafur Ragnar líklega ekki að grípa þá hugmynd Kristjáns Eldjárns á lofti að setja seðlabankastjóra í stól forsætisráðherra. Wink


Viskýflaska og sportbíll

Var það ekki Jón Daníelsson sem sagði eitthvað á þá leið, að ef maður gæfi unglingum viskýflösku og sportbíl, og léti þeim síðan málið eftir, þá væri ekki von að vel færi? Hvort er það sem miður fer í foreldralausum partýum foreldrunum eða unglingunum að kenna? Voru ekki stjórnvöld og eftirlitsstofnanir í hlutverki foreldranna, en bankar og útrásarvíkingar í hlutverki unglinganna? Veldur hver á heldur!


mbl.is Ábyrgðin liggur hjá bönkunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsóknarvísa

Síkvikur stjórnmálasærinn er,
sem ég bý við.
Framsókn er gengin úr sjálfri sér.
Svona er lífið.


mbl.is Guðni segir af sér þingmennsku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég rakaði mig í morgun

RaksturReyndar telst það ekki til tíðinda að ég skyldi hafa rakað mig í morgun, því að það geri ég næstum hvern einasta morgun ársins. Það telst heldur ekki til tíðinda að ég skyldi hvorki nota raksápu né rakspíra þennan morguninn, því að slíkan varning hef ég ekki notað í nokkur ár. Það vill nefnilega svo vel til að í krönunum heima hjá mér eru afar ódýr efni sem gera sama gagn, að lyktinni frátalinni. Í krönunum heima hjá mér er nefnilega heitt vatn úr Deildartunguhver. Það gerir sama gagn og raksápa, mýkir sem sagt húðina og „opnar“ hana. Í krönunum heima hjá mér er líka kalt vatn, sem ég held að komi úr Grábrókarhrauni. Það gerir sama gagn og rakspíri, hreinsar sem sagt húðina og „lokar“ henni. Hins vegar er engin lykt af því, sem getur auðvitað hvort heldur sem er flokkast sem gagn eða ógagn þegar vatnið er borið saman við rakspírann. Ég held þó að lyktarleysið geri meira gagn en ógagn. Alla vega skil ég ekki eftir mig slóð tilbúinna ilmefna á fólki og handklæðum sem ég snerti yfir daginn.

Ástæða þess að ég nefni þennan annars tíðindalausa rakstur hér og nú, er sú að í „Orðum dagsins“ í dag er einmitt fjallað um danska könnun á innihaldsefnum rakfroðu. Rakfroða er yfirleitt ágætis „efnakokkteill“, þar sem þekktir ofnæmisvaldar blandast saman við hugsanlega ofnæmisvalda, auk efna sem geta truflað hormónastarfsemi líkamans og skaðað vatnalífverur eftir að búið er að skola efnunum niður um niðurfallið.

Mig langar ekkert að maka einhverjum „efnakokkteilum“ framan í mig á hverjum morgni, án þess að þurfa það. Og ég hef heldur ekkert gaman af því að borga fullt af peningum fyrir vörur sem auka ekki lífsgæði mín á nokkurn hátt, heldur skerða þau jafnvel.

Mæli með Deildartunguhver og Grábrókarhrauni! Smile


Sýnum örlitla reisn!

Nýjustu sparnaðaraðgerðir utanríkisráðherra eru einhverjar döprustu sparnaðaraðgerðir sem ég hef séð. Ráðherrann og fjölmiðlar virðast samtaka í að kynna þessar aðgerðir sem myndarlegan niðurskurð á útgjöldum utanríkisráðuneytisins á erfiðum tímum. En í hverju felst myndarskapurinn? Jú, hann felst í því að lækka fyrirhugaðan kostnað utanríkisráðuneytisins á næsta ári um 2,2 milljarða frá því sem upphafleg áform gerðu ráð fyrir. Þar af á að ná um 600 milljóna króna sparnaði með því að fækka sendiherrastöðum þegar færi gefst á að gera það með sársaukalausum hætti, en afgangurinn, heilar 1.600 milljónir króna fást með því að draga til baka stóran hluta af áformuðum framlögum Íslands til þróunarmála, þrátt fyrir að þessi áformuðu framlög myndu aðeins nema um helmingi þess sem Íslendingar hafa lofað að reiða fram. Loforð Íslendinga í þessu sambandi hljóðar upp á 0,7% af þjóðarframleiðslu, rétt eins og loforð annarra vestrænna þjóða. Hin áformuðu framlög áttu að skríða upp í 0,35%, en nú á sem sagt að skera þetta niður í 0,24%.

Ekki segja mér að við höfum ekki efni á því að standa við loforð okkar um þróunaraðstoð af því að það sé svo mikil kreppa á Íslandi. Það er einfaldlega rangt. Þvert á móti höfum við ekki efni á því að skera þessi framlög niður. Og það er beinlínis ósæmilegt að bera bága stöðu Íslands á nokkurn hátt saman við stöðu þróunarríkja sem þessi framlög eru ætluð, ríkja á borð við Malaví, svo dæmi sé tekið!

Sýnum örlitla reisn, þó ekki væri nema sjálfra okkar vegna! Fjölmiðlar hamra á því alla daga að orðstír Íslands á alþjóðlegum vettvangi hafi beðið mikinn hnekki upp á síðkastið. Sparnaðarhugmyndir utanríkisráðherra eru til þess fallnar að skaða þennan orðstír enn frekar! Með því að skera þessi framlög niður núna, hvað sem öllu krepputali líður, erum við að lýsa því yfir að okkur sé nokk sama um neyð annarra þjóða, sem er í mörgum tilvikum slík, að vandræði okkar, svo slæm sem þau annars eru, blikna algjörlega í samanburðinum. Með því að skera þessi framlög niður núna, erum við líka að lýsa því yfir að hækkun á þessum framlögum okkar tvö síðustu árin hafi miklu frekar verið hræsni en góður ásetningur, eiginlega ekkert annað en smeðjulegt "smæl framan í heiminn" til að snapa atkvæði í kosningunni til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna!

Sýnum örlitla reisn! Heilbrigt þjóðarstolt á ekki að birtast í því að við hreytum skætingi í nágrannaþjóðir fyrir þá sök eina að þær sitji ekki og standi eins og okkur þóknast. Heilbrigt þjóðarstolt á að birtast í því að við sýnum umheiminum, að þrátt fyrir erfiðleikana höfum við skilning á neyð þeirra þjóða sem búa við kröppustu kjörin, og að þrátt fyrir erfiðleikana viljum við standa við þau loforð sem við höfum gefið á alþjóðlegum vettvangi.

Við eigum ekki að skerða framlög til þróunarmála um eina einustu krónu! Það er nógu lágkúrlegt að þau séu bara helmingur af því sem við höfum lofað að reiða fram! Og við eigum að láta þess getið hvar sem við komum, að þróunarmál séu forgangsmál, jafnvel þótt staða okkar sé erfið! Slík framganga væri okkur til sóma og til þess fallin að verja orðstír okkar í því éli sem nú gengur yfir.

Nú er eðlilegt að spurt sé: Hvar á utanríkisráðuneytið þá að spara? Mér er svo sem alveg sama um það, ráðuneytið á bara ekki að gera okkur uppvís að þeirri háðung að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur! Það er t.d. ráð að fækka sendiherrastöðunum strax, í stað þess að bíða eftir því að einhverjir fari á eftirlaun. Það gæti jafnvel borgað sig að leyfa þeim bara að fá eftirlaunin sín nokkrum mánuðum fyrr en ella. Svo má kannski leggja niður fleiri slíkar stöður - og alls ekki búa til nýjar, eins og mér skilst að utanríkisráðherra hafi verið að enda við að gera.

Glötum ekki þessu tækifæri til að sýna örlitla reisn! Nóg er niðurlægingin þó að þetta bætist ekki við!


mbl.is Skiljanlegt að dregið sé úr þróunarframlögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af Ófeigi langlífa

Hann Ófeigur Árnason Kveðan
er ekki á leiðinni héðan,
svo grannur sem splitti
með mjóslegið mitti
en massaður þar fyrir neðan.


mbl.is Banvænn björgunarhringur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað sagði Einstein?

Mér skilst að Albert Einstein hafi einhvern tímanna sagt:

Við getum ekki leyst vandamál með sama hugarfari og við notuðum þegar við bjuggum þau til.


mbl.is Kosningum ekki flýtt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stofnlánadeildin í Qatar

Fyrr í haust gerði ég litla limru í tilefni þess að Sparisjóður Mýrasýslu virtist vera kominn að hluta til í eigu bróður emírsins í Qatar, af því að þessi bróðir hafði þá keypt hlut í Kaupþingi, sem var í þann veginn að eignast 80% af stofnfé sparisjóðsins. Ég hélt sem sagt að sparisjóðurinn væri kominn á þurrt, því að það er jú miklu þurrara í Qatar en á Mýrunum. En nú er þetta allt breytt. Mér skilst að þáverandi Kaupþing hafi aldrei eignast þessi 80% formlega og að bróðir emírsins í Qatar hafi auk heldur náð að kippa þessum 27.000 milljónköllum sínum til baka áður en allt hrundi. Draumur minn um Stofnlánadeildina í Qatar verður því ekki að veruleika. Í tilefni af þessum viðsnúningi gaukaði Georg á Kjörseyri að mér þessari stöku á dögunum:

Það er oft sem aurinn platar
okkur gaurana.
Stofnlánadeildin hans Stebba í Qatar
stakk af með aurana


Fljótsbakki framtíðarinnar

Við erum í vanda. Undanfarna mánuði og ár höfum við gengið fram með fljóti, sem við vissum innst inni að væri bæði straumþungt og kalt. Og við vissum líka innst inni að fyrr en síðar lægi leiðin yfir þetta fljót. Kannski héldum við að einhver myndi byggja brú yfir fljótið, en það voru draumórar. Svona fljót verða nefnilega ekki brúuð.

Einn daginn var okkur hrint út í fljótið. Við vitum ekki alveg hver hrinti okkur, en við erum alla vega stödd í fljótinu og allt er kalt og blautt. Mörg okkar óska sér þess allra heitast að verða dregin aftur upp á sama bakkann – og allt verði sem fyrr. En sannleikurinn er sá, að það liggur engin leið til baka. Fljótsbakki fortíðarinnar var fullkannaður og þar gátum við ekki þrifist lengur, eins og við vissum reyndar innst inni.

En það er bara svo kalt og blautt úti í fljótinu. Það er vandinn. Og við vitum ekki hvernig hverju okkar um sig mun reiða af. Kannski ber okkur með straumnum eitthvað niður í móti. Nú ríður á að hjálpast að. Og eitt er víst: Leiðin yfir fljótið var eina leiðin.

Við vitum lítið um fljótsbakka framtíðarinnar. Þannig er það jú með alla fljótsbakka sem við höfum aldrei staðið á. En innst inni vitum við að bakkinn hinum megin er betri en sá gamli, einfaldlega vegna þess að þar voru tækifærin upp urin. Á nýja bakkanum eru ný tækifæri. Þar verður gott að halda göngu sinni áfram, fram með fljóti, frá fljóti og að næsta fljóti.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband