Færsluflokkur: Bloggar
8.11.2008 | 21:48
Kreppuvísa
Þjóðin kvelst í kreppufári.
Kveða vil ég óð um það.
Í Svörtuloftum safnar hári,
sá sem kom þessu öllu af stað.
![]() |
Sigurður: Lenti illilega saman við Davíð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.11.2008 | 09:04
Dagur vonar
Mikið er ég glaður að Barack Hussein Obama skuli hafa unnið svona afgerandi sigur í forsetakosningunum í Bandaríkjunum. Dagurinn í dag er sögulegur. Þetta er dagur vonar, dagurinn sem ljóst varð að Bandaríkin myndu loks losna úr 8 ára gíslingu óhæfra stjórnvalda.
Það er nánast sama hvert litið er, vonin ríkir á öllum sviðum, sama hvort talað er um umhverfismál, mannréttindi eða efnahag. En eins og Barack Obama sagði í sigurræðunni í nótt, þá verður þetta ekkert auðvelt, því að verkefnin eru risavaxin. Og ekki bætir úr skák að embættismenn Bush-stjórnarinnar eru þessa dagana önnum kafnir við að valda eins miklu tjóni og mögulegt er áður en hinn nýi forseti tekur við völdum í janúar. Reyndar minntist Obama ekkert á þetta í ræðunni, en fréttaveitur heimsins hafa fjallað um þessa döpru viðleitni síðustu daga, sjá m.a. umfjöllun PlanetArk/Reuter í fyrradag. Umrædd viðleitni felst í því að breyta eða nema úr gildi ýmsar reglur um náttúruvernd o.fl. Og þessum reglum verður ekki svo auðveldlega breytt til baka á svipstundu þótt nýr forseti taki við.
Það væri hægt að skrifa langan pistil um vonirnar sem öðluðust líf í nótt, en internetið er þegar hálffullt af slíkum pistlum. Ég ætla því að láta nægja að mæla með Barack Obama sem ræðumanni eða jafnvel veislustjóra á árshátíðum og þorrablótum. Í morgun var mér t.d. bent á frekar skemmtilegt myndband frá minningarsamkomu um Alfred E. Smith, sem haldin var fyrir hálfum mánuði, mitt í lokaspretti kosningabaráttunnar. Alfred þessi var lengi ríkisstjóri í New York, auk þess að vera frambjóðandi demókrata í forsetakosningunum 1928. Obama fór á kostum í ræðu sem hann hélt í þessu samkvæmi, en þar var John McCain einmitt staddur líka. Obama sagði m.a. að hann myndi ekkert eftir Alfred E. Smith, en að John McCain hefði sagt sér að þetta hefði verið prýðismaður. Svo talaði hann um efnahagslægðina og hversu harkalega lækkun húsnæðisverðs hefði komið niður á mörgum. Þó hefði þetta komið sér 8 sinnum verr fyrir John McCain en flesta aðra. Annars var hann nú ekkert sérstaklega í því að gera grín að McCain. Þvert á móti hældi hann honum mjög - í fullri alvöru - og sagði fáa hafa lagt meira á sig fyrir land og þjóð. Á öðrum stað í ræðunni útskýrði Obama hvers vegna hann hefði fengið fornafnið Barack og millinafnið Hussein. Barack væri nefnilega blótsyrði úr Zwahili og Hussein-nafnið hefði einhver gefið sér, sem datt ekki í hug að hann myndi sækjast eftir því að verða forseti Bandaríkjanna.
![]() |
Obama kjörinn forseti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.11.2008 | 21:16
VIÐ ráðum !!!
Ég held að VIÐ, þ.e.a.s. ég og mínir líkir, fólk flest, Jón og Gunna, hinn almenni borgari, almenningur, eða hvað það nú annars heitir þetta ágætis fólk, vanmetum stórlega vald okkar og áhrif. Þegar grannt er skoðað erum það nefnilega VIÐ sem ráðum. Það erum VIÐ sem berum mesta ábyrgð á bankakreppunni, og það erum líka VIÐ sem höfum mesta burði til að leysa hana.
En hvers vegna VIÐ? Jú, VIÐ ráðum vegna þess að VIÐ kjósum. Og VIÐ kjósum ekki bara á fjögurra ára fresti, hreppsnefndir, þingmenn og forseta, heldur kjósum VIÐ á hverjum einasta degi, ekki þó í kjörklefum, heldur í eldhúsum og kaupfélögum þessa lands, svo tveir kjörstaðir séu nefndir. Í hvert sinn sem VIÐ ákveðum að kaupa eða kaupa ekki einhverja vöru eða þjónustu, þá erum VIÐ að kjósa. Kosningin snýst ekki bara um að VIÐ fáum tiltekna vöru og greiðum tiltekna upphæð fyrir, heldur hefur hver einasta kosning, eða hvert einasta val, (e: "Every move you make"), áhrif á marga aðra. Hver einasta kosning stuðlar að því að eitthvert fyrirtæki, eitthvert fólk, eða einhver hugmynd fái að lifa og þróast, á sama tíma og eitthvert annað fyrirtæki, eitthvert annað fólk eða einhver önnur hugmynd verður af stuðningi okkar til hins sama.
Í viðtali í Speglinum á RÚV í dag, nefndi Aðalheiður Héðinsdóttir, forstjóri Kaffitárs, gott dæmi um það vald og þau áhrif sem VIÐ höfum. Kaffitár rekur eina af fjórum kaffibrennslum á Íslandi, en meirihlutinn af því kaffi sem við Íslendingar drekkum er brenndur erlendis. Aðalheiður sagði frá því að ónefnd verslunarkeðja hefði ákveðið að hætta að selja þetta íslensktmalaða kaffi. Við þá einu ákvörðun lögðust af 4 störf á Íslandi, sumpart við að brenna kaffi, sumpart við að hanna umbúðir, sumpart við að gera við raflagnir, o.s.frv. Með því að velja frekar kaffi sem brennt er á Íslandi höfum VIÐ því áhrif á atvinnustigið í landinu.
Aðalheiður útskýrði líka hvernig VIÐ getum stuðlað að uppbyggingu í þróunarlöndunum með því að kaupa eina gerð af kaffi fremur en aðra, þ.e.a.s. með því að kaupa kaffi, þar sem tryggt er að framleiðandinni fái sómasamlegt verð og geti tekið þátt í nauðsynlegri uppbyggingu eigin fjölskyldu og eigin samfélags.
Kannski greiðum VIÐ jafnmikið hvorn kostinn sem VIÐ kjósum, þ.e.a.s. kostinn sem viðheldur 4 störfum á Íslandi í stað hins sem kippir undan þeim fótunum, já eða kostinn sem tryggir kaffibóndanum sómasamleg kjör í stað hins sem stuðlar að barnaþrælkun og áframhaldandi eymd!
VIÐ ráðum af því að VIÐ kjósum, ekki bara á fjögurra ára fresti, heldur á hverjum einasta degi, oft á dag. Við berum líka ábyrgð á þeim sem stjórna landinu okkar, því að VIÐ kusum þau til þeirra verka. Pólitísk ábyrgð okkar á því sviði á ekki endilega að vera komin í fjögurra ára frí um leið og tjaldið fellur fyrir kjörklefann. VIÐ eigum að láta í okkur heyra ef okkur finnst þau sem stjórna landinu ekki gera það með þeim hætti sem VIÐ kusum þau til. VIÐ ráðum!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
3.11.2008 | 12:49
Tími til kominn
Ef að stjórnar Ísalandi væn dís,
aftur fara að snúast gæfuhjól.
Stuttbuxur eru nokkuð mikið 90s.
Nú er kominn tími fyrir kjól.
![]() |
Treysta konum betur en körlum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.11.2008 | 09:05
Umhverfismál á tímum bankakreppu
Ýmsir velta því fyrir sér þessa dagana hvaða áhrif yfirstandandi bankakreppa hafi á framgang umhverfismála. Í þessu sambandi vaknar m.a. sú spurning hvort umhverfismálin hljóti ekki að verða útundan við núverandi aðstæður, einfaldlega vegna þess að nota þurfi peningana í annað mikilvægara.
Ekkert einhlítt svar
Í þessu máli gildir það sama og annars staðar, að hér er ekki til neitt einhlítt svar. Vissulega má færa fyrir því ýmis rök að umhverfismálin verði útundan þegar svona stendur á. Þannig hefur Barack Obama, forsetaframbjóðandi bandaríska Demókrataflokksins, t.d. sagt að hann gæti neyðst til að draga úr fyrirhuguðum framlögum til þróunar á endurnýjanlegum orkugjöfum til að geta staðið við 700 milljarða dollara loforðið sem þingið samþykkti um daginn til að bjarga fjármálamarkaðnum. Sömuleiðis verður augljóslega erfiðara en fyrr að útvega lánsfé til úrbóta í umhverfismálum. Hér heima hafa líka heyrst háværar raddir um að nú dugi ekkert umhverfiskjaftæði, því að nú hafi menn einfaldlega ekki efni á að taka tillit til umhverfisins. Í þessu sambandi hefur meira að segja verið rætt um að afnema lögin um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda, því að þau tefji bara fyrir uppbyggingarstarfinu. Hins vegar hafa margir bent á að ekki sé hægt að byggja upp heilbrigt hagkerfi án þess að umhverfismál séu þar í brennidepli. Hagkerfi heimsins muni einfaldlega standa og falla með vistkerfunum. Þess vegna feli bankakreppan í raun í sér tækifæri fyrir mannkynið til að staldra við og hugsa hvernig hægt sé að komast áfallalítið inn í framtíðina. Sú vegferð verði að byggja á skilningi á samhengi hagfræðinnar og vistfræðinnar.
Skammtímaáherslur duga ekki
Í alþjóðlegri umræðu um umhverfismál á tímum bankakreppu, hafa margir lýst þeirri skoðun sinni, að áhersla á umhverfið verði einmitt kjarninn í því uppbyggingarstarfi sem er óhjákvæmilega framundan. Bankakreppan hafi nefnilega sýnt mönnum fram á það með harkalegum hætti, að skammtímaáherslur séu beinlínis skaðlegar í efnahagslegu tilliti. Það voru jú einmitt slíkar skammtímaáherslur í formi undirmálslána sem hrintu skriðunni af stað. Það hefur með öðrum orðum sannast, að skammtímaáætlanir duga hvorki á Wall Street né í umhverfismálum. Yfirstandandi lausafjárkreppa hefur leitt í ljós gríðarlegan ófullkomleika þess hagkerfis sem einblínir á skammtímagróða, en horfir framhjá mikilvægi þess að styrkja hag hluthafa til lengri tíma litið um leið og hugað er að verndun náttúruauðlinda. Á það hefur verið bent, að einmitt núna hafi ríkisstjórnir og forkólfar í atvinnulífi einstakt tækifæri til að læra af atburðunum á Wall Street og að sá lærdómur muni svo sannarlega nýtast til að fást við loftslagsvandann, stærsta vanda sem mannkynið hafi nokkru sinni staðið frammi fyrir.
Umhverfisvænni lán og fjárfestingar
Núverandi ástand hlýtur óhjákvæmilega að leiða til þess að þær fjármálastofnanir sem á annað borð lifa af, leitist við að draga úr áhættu í ákvörðunum sínum í náinni framtíð. Reyndar eru þegar uppi vísbendingar um þetta. Þannig hafa stofnanir á borð við Morgan Stanley, Citi og JP Morgan Chase tilkynnt að hér eftir verði farið mun nánar í saumana á umhverfislegri áhættu áður en veitt eru lán til stórra framkvæmda sem leiða til aukinnar losunar gróðurhúsalofttegunda. Bank of America, Wells Fargo og Credit Suiesse hafa einnig tilkynnt um svipaðar áherslubreytingar. Þannig hefur Bank of America sett sér tiltekin markmið til að draga úr neikvæðum loftslagsáhrifum af lánveitingum bankans. Þar verður hér eftir reiknað með 20-40 dollara aukakostnaði fyrir hvert tonn af kolefni, sem ætlað er að væntanlegir lántakendur losi. Þannig hefur væntanleg umhverfisleg frammistaða lántakenda bein áhrif á möguleika þeirra til fjármögnunar. Á sama hátt bendir flest til þess að fjárfestar muni nú flytja fé sitt í miklum mæli til fyrirtækja sem vinna að þróun nýrra orkugjafa, enda þykja þau líkleg til að skila mjög góðri ávöxtun til lengri tíma litið. Margir fjárfestar munu taka undir með þeim sem segjast frekar vilja sitja við borðið en að vera á matseðlinum, eins og einhver orðaði það.
Hvers virði er náttúran?
Þessa dagana heyrast ógnvænlegar tölur í krónum og dollurum yfir fjármunina sem hafa tapast í hinu eða þessu bankahruninu. Tilfellið er þó að stór hluti af innstæðunum er hvergi færður til bókar. Þar er átt við höfuðstól náttúrunnar. Öll sú þjónusta sem vistkerfi jarðar veita okkur, án þess að þiggja peninga fyrir, er arðurinn af þessum innstæðum. Þegar hinar peningalegu innstæður tapast, hljóta sjónir okkar að beinast að þeim þáttum sem vantar í bókhaldið. Robert Costanza, prófessor við Háskólann í Vermont, er sá maður sem hvað mest hefur velt fyrir sér þeim fjárhagslegu verðmætum sem felast í þjónustu vistkerfanna. Fyrir svo sem 10 árum setti hann fram útreikninga, sem bentu til að verðmæti þessarar þjónustu væri nær tvöfalt hærra en samanlögð þjóðarframleiðsla allra þjóða, eins og hún er venjulega mæld. Costanza hefur sagt að nú sé þörf á að skrifa hagfræðina upp á nýtt og að bankakreppan feli í sér tækifæri til þess. Achim Steiner, framkvæmdastjóri Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP), hefur tekið í sama streng og sagt að líklega muni 21. öldin einkennast af umræðu um hinn náttúrulega höfuðstól, á sama hátt og 20. öldin einkenndist af umræðu um hinn fjárhagslega höfuðstól. Margir halda því fram að útilokað sé að setja verðmiða á þjónustu náttúrunnar, en Achim Steiner hefur á móti bent á, að menn séu heldur ekkert allt of flinkir að meta raunverulegt verðmæti á mörkuðum heimsins, eins og sjáist m.a. á því að olíuverð er nú aðeins helmingur af því sem það var í júlí sl.
Stærsta umhverfistækifæri allra tíma?
Bill Valentine, stjórnarformaður arkitektastofunnar HOK, sem er ein þeirra stærstu í heiminum sem fæst við sjálfbæra hönnun, sagði á dögunum að núverandi ástand fæli í sér stærstu umhverfistækifæri allra tíma. Annað hvort myndi menn grípa þetta tækifæri til að taka stökk í átt að sjálfbærri þróun, eða að baráttan myndi hreinlega tapast. Staðan væri reyndar þannig að menn hefðu einfaldlega ekki efni á öðru en að taka áherslur sjálfbærrar þróunar inn í hönnun mannvirkja. Bankakreppan og verðlag á orku og hráefnum myndu einfaldlega reka menn í þessa átt. Jafnvel í olíuauðugum Arabaríkjum væri sprottinn upp gríðarlegur áhugi á sjálfbærri hönnun. Þar á bæ sæju menn einfaldlega að slíkar áherslur væru algjörlega nauðsynlegar til að búa í haginn fyrir framtíðina, auk þess sem þeim væri annt um eigin ímynd.
Yfirdráttarlán frá framtíðinni
Nýlega birti Global Footprint Network skýrslu, þar sem fram kom að þann 23. september sl. hefði mannkynið verið búið að nota allar þær auðlindir sem jörðin næði að framleiða þetta árið. Frá og með 24. september þurfi mannkynið því að fjármagna eigin hallarekstur með skammtímaláni frá komandi kynslóðum. Í raun er þetta nákvæmlega sama staða og uppi er á fjármálamörkuðum. Það er nefnilega útilokað að halda sig innan ramma hinna efnahagslegu fjárlaga, ef hin vistfræðilegu fjárlög eru gerð upp með halla.
Hinn gamli húsgangsháttur
Það er með öðrum orðum hægt að færa fyrir því sterk rök, að menn komist engan veginn hjá því að taka aukið tillit til umhverfismála í því endurreisnarstarfi sem framundan er. Annars muni hagkerfið einfaldlega lenda í sömu ógöngum á nýjan leik á örskömmum tíma. Það sé með öðrum orðum óhjákvæmilegt að gera áætlanir til lengri tíma en gert hefur verið, til að tryggja hluthöfum arð af fjárfestingum sínum, ekki bara skammtímaarð sem brennur upp í næsta hruni, heldur arð til langs tíma. Eina leiðin inn í framtíðina verður sem sagt að byggjast á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar, þar sem látið er af hinum gamla húsgangshætti, að hugsa eingöngu um stundarhaginn, nokkra aura í svipinn, en láta sér standa á sama, hvort gerður er stórskaði öldum og óbornum, eins og Þorvaldur Thoroddsen orðaði það fyrir 114 árum.
Atvinnumöguleikar framtíðarinnar
Nú þegar er staðan orðin þannig á heimsvísu, að fleira fólk hefur atvinnu af því að þróa nýja orkugjafa, en sem nemur öllum þeim fjölda sem vinnur í kola-, olíu- og gasgeiranum. Og ef marka má skýrsluna Green Jobs: Towards Decent work in a Sustainable, Low-Carbon World, sem gefin var út á vegum Sameinuðu þjóðanna 25. september sl., bendir allt til þess að störfum í græna geiranum eigi enn eftir að fjölga um tugi milljóna á allra næstu áratugum, bæði í iðnríkjunum og í þróunarlöndunum. Um leið mun fjöldi annarra starfa augljóslega leggjast af. Flest bendir nefnilega til að framundan sé mikil uppstokkun atvinnuvega, þar sem heilar atvinnugreinar hrynja og aðrar rísa í þeirra stað.
Hvað með Ísland?
Sjálfur er ég eindregið þeirrar skoðunar að þegar öldurnar lægir muni umhverfismál fá mun meira vægi en þau hafa nú. Þá er ég reyndar fyrst og fremst að tala um þróunina á alþjóðlegum vettvangi. Hér gæti hún orðið önnur, alla vega til að byrja með, þar sem ástandið gæti verið notað til að réttlæta skammtímabjargráð sem stríða gegn hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Í þessu sambandi er vert að rifja upp nýleg orð Johans Rockström, forstjóra Stockholm Environment Institute. Hann hefur orðað það svo, að bankakreppan sé enn einn naglinn í líkkistu kerfis sem leitast við að halda uppi hagvexti en horfa fram hjá almennri velferð fólks. Í þessu kerfi gætu þjóðir sem best aukið þjóðarframleiðsluna með því að höggva alla skóga sína og selja timbrið, eða með því að sprengja öll kóralrifin sín með dýnamiti til að ná öllum fiskum sem þar leynast. Rockström bendir líka á, að aðgerðir ríkisstjórna til að bjarga bönkunum gætu breytt hugsunarhætti almennings. Ef við eru tilbúin að bjarga fjárfestingarbönkum, því skyldum við þá ekki eyða svipuðum fjárhæðum til að bjarga jörðinni?
Samantekt
Hagkerfi heimsins geta ekki haldið áfram að vaxa endalaust, einfaldlega vegna þess að auðlindir jarðar eru ekki ótakmarkaðar. Þess vegna er komið að því að skrifa hagfræðina upp á nýtt. Það er í sjálfu sér hægt að halda áfram enn um sinn í svipuðum takti og hingað til, en þá er ekki langt í næsta hrun. Eina leiðin til að skapa grundvöll fyrir áframhaldandi velsæld er að flétta saman umhverfislega og hagfræðilega þætti. Bankakreppan er þungbær, en kannski var hún einmitt það sem mannkynið þurfti til að skilja samhengið milli náttúrunnar og hagfræðinnar. Tími skammtímalausna er liðinn. Leiðina fram á veginn verður að velja með langtímasjónarmið í huga. Kannski reyna einhverjir að þrjóskast við fyrst um sinn, en það þarf ekki mikla spámenn til að sjá að umhverfismál verða í brennidepli í framhaldinu.
Eftirmáli og helstu heimildir
Þessi pistill er einhvers konar útvíkkun eða framhald á viðtali í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. Pistillinn byggir aðallega á eftirtöldum heimildum:
1. Anne Thurmann-Nielsen, 2008. Finanskrisens muligheter. Dagbladet, 26. okt. 2008. http://www.dagbladet.no/nyheter/2008/10/26/551571.html
2. Planet2025 News Network, 4. okt. 2008. The Age of Umbridled Consumption Just Ended. http://www.planet2025news.net/printable.rxml?id=24378
3. Planet2025 News Network, 6. okt. 2008. Short-Term Strategies Dont Work for Wall Street or the Planet. http://www.planet2025news.net/printable.rxml?id=24514
4. PlanetArk/Reuter, 9. okt. 2008. Green Architecture Opportunity in Financial Woes. http://www.planetark.org/avantgo/dailynewsstory.cfm?newsid=50549
5. PlanetArk/Reuter, 22. okt. 2008. Crunch May Spur Rethink Of Nature As Free. http://www.planetark.org/avantgo/dailynewsstory.cfm?newsid=50704
6. Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP), 2008. Green Jobs: Towards Decent work in a Sustainable, Low-Carbon World. http://www.unep.org/Documents.Multilingual/Default.asp?DocumentID=545&ArticleID=5929&l=en.
7. Þorvaldur Thoroddsen, 1894. Ferðabók nr. IV. 2. útg. 1959.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.11.2008 | 22:17
Út að hlaupa - reglulega
Fyrir 5 vikum setti ég mér það markmið að hlaupa a.m.k. 40 km í viku hverri. Í dag náði ég því markmiði 5. vikuna í röð. Tilfinningin er góð, bæði sú líkamlega tilfinning sem fylgir því að skrokkurinn sé í þokkalegu standi, og sú andlega tilfinning sem fylgir því að ná settu marki.
Hlaup þessa laugardagsmorguns var rétt rúmir 20 km, nánar tiltekið 20,9. Hljóp með Ingimundi Grétarssyni það sem ég kalla Litla-Hesthálshringinn, þ.e. frá vegamótunum fyrir neðan Hreppslaug, upp að Skorradalsvatni, yfir Hestháls niður í mynni Lundarreykjadals og svo eftir Borgarfjarðarbraut að upphafsstaðnum. Vorum tvo tíma á leiðinni, enda yfir fjallveg að fara. Þetta er ágætis leið.
Nú er ég búinn með 1.655 km það sem af er árinu og hef aldrei hlaupið meira. Er samt langt á eftir Ingimundi, sem kláraði 2000. kílómetra ársins í Skorradalnum í morgun. Til hamingju með það! Héldum upp á áfangann í teboði á Ytri-Skeljabrekku. Góðar veitingar!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
31.10.2008 | 12:05
Góðir grannar - og mikilvægi fjölbreytninnar
Hverjum sem allt er að kenna, er gott að finna fyrir vinarþeli nágrannanna. Mér finnst líka, að ef það er rétt sem margir segja, að dagar íslensku krónunnar séu senn taldir, þá eigi að skoða myntsamstarf við Norðmenn með mjög opnum huga áður en rýnt er í aðra möguleika. Ýmsir hafa bent á hversu mikla samleið þessi tvö ríki eigi vegna atvinnuvega sinna og stöðu gagnvart Evrópu, en hér kemur enn fleira til. Samstarf milli ríkja, myntsamstarf sem annað, snýst nefnilega ekki bara um hagstærðir í samtímanum, heldur um margt fleira. Þetta margt fleira er gjarnan afgreitt í umræðunni sem mjúkir pakkar sem engu máli skipta á ögurstundu. Viðskiptaleg sjónarmið og hagstærðir verði jú að hafa algjöran forgang. En tilfellið er að þessir mjúku pakkar skipta sköpum varðandi hagstærðir framtíðarinnar.
Öll erum við skammsýnt fólk, enda skammsýnin mannleg. Við erum afar upptekin af líðandi stundu og finnst oft að það sem á okkur dynur sé það mesta, besta eða versta á ævinni, eða í sögu þjóðarinnar. En þegar við stöndum frammi fyrir stórum ákvörðunum, t.d. ákvörðunum um náið samband við önnur ríki eða ríkjasambönd, þá hreinlega verðum við að rýna aðeins lengra fram í tímann. Þegar við tölum um hugsanlega aðild að Evrópusambandinu, þá megum við t.d. ekki bara tala um Evrópusambandið eins og það er í dag. Ákvörðunin um inngöngu eða ekki inngöngu snýst nefnilega algjörlega um Evrópusambandið eins og það verður eftir 10 ár, eða jafnvel enn lengri tíma. Þá verður sambandið allt annað samband en það er í dag. Hvorki ég né neinn annar getur sagt til um hvernig það samband lítur út, en þó er auðvelt að geta sér þess til að þungamiðja sambandsins verði suðaustar í Evrópu en hún er nú. Það verða ekki lengur vinir okkar Bretar, Frakkar og Þjóðverjar sem verða leiðandi öfl í þessari stóru heild. Kannski er það bara í góðu lagi, en það er ekki í góðu lagi að trúa því að valdahlutföll og áherslur breytist ekki verulega á næstu árum og áratugum!
Pakkar sem virðast mjúkir í dag verða harðir í framtíðinni. Ég er þannig ekki í nokkrum vafa um að samstarf með þjóðum sem byggja á svipaðri arfleifð og við, sé líklegra til að skila okkur inn í farsæla framtíð en samstarf með öðrum þjóðum, hversu ágætt sem það annars getur verið. Þættir eins og tungumál, menning, gildi og saga geta virst mjúkir pakkar, sem menn telja sig ekki hafa efni á að taka tillit til. En það gætu einmitt verið þessir pakkar sem skipta sköpum í þeirri framtíð sem við þurfum að fikra okkur inn í.
Ég tel afar mikilvægt að viðhalda sem best þeirri sérstöðu sem við höfum sem þjóð, jafnvel þó að sú sérstaða hafi kannski komið okkur í koll. Vandamálin sem við er að etja eru engan veginn afleiðing sérstöðunnar, heldur afleiðing þess að við kunnum ekki að höndla sérstöðuna.
Sérstaðan er frábrugðin meðalmennskunni að því leyti, að í henni felast tækifæri, ekki aðeins fyrir þá sérstæðu, heldur alla hina líka. Breytileikinn er nefnilega forsenda nýsköpunar og framfara! Þess vegna snúast ákvarðanir um framtíð okkar ekki bara um framtíð okkar, heldur líka um framtíð annarra þjóða og möguleika heimsbyggðarinnar til sjálfbærrar þróunar. Það er ekki bara nauðsynlegt fyrir okkur að viðhalda sérstöðunni. Það er líka nauðsynlegt fyrir alla hina að við gerum það!
![]() |
Gagnrýnir hin Norðurlöndin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
30.10.2008 | 11:38
Er þetta málið?
Á síðasta ári kom ég mér upp álitlegum gjaldeyrisvarasjóði. Hann er allur á myndinni hérna fyrir ofan. Hef geymt hann í veskinu mínu frá upphafi - og viti menn: Veskið hefur aldrei verið tómt síðan! Kannski er þetta bara málið, eins og Árni Johnsen benti á í gær.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.10.2008 | 08:36
Eftirsjá í „kreppunni“
Burt er horfinn úr mér allur kraftur,
einskisnýt í vösum krónugrey.
Ég vildi að það væri kominn ágúst aftur
"when all my trouble seemed so far away".
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
28.10.2008 | 23:02
Út að hlaupa á keðjum
Ég hef sagt það áður og segi það aftur, að það er algjör bylting að eiga Yaktrax-keðjur til að hlaupa á. (Tek það fram að ég er ekki á prósentum). Ég keypti þetta forláta keðjupar í Afreksvörum 25. janúar sl. (til að vera nú sæmilega nákvæmur) og hef notað það töluvert síðan, m.a. í eftirminnilegri Bjarmalandsför um Rauðskörð milli Ólafsfjarðar og Héðinsfjarðar seint í júní. Já, annars notaði ég þær reyndar ekkert í sumar, en nú er kominn keðjutími aftur.
Á keðjunum er svo sem hægt að hlaupa í hvernig færi sem er. Þær gera mér með öðrum orðum kleift að hlaupa á veturna eins og ekkert sé, þó að úti sé snjór og hálka. Í ljósi reynslunnar held ég að það sé ennþá nauðsynlegra að hlaupa úti á veturna en á sumrin, hvort sem horft er á andlegu eða líkamlegu hliðina. Þess vegna eiga allir að fá sér svona keðjur undir hlaupaskóna, já eða undir gönguskóna. Það er miklu betra að vera á keðjum í hálkunni en að detta í hálkunni.
Í kvöld hljóp ég rúma 12 km á keðjunum og var rúman klukkutíma að því. Það er venjulegur þriðjudagsskammtur. Annars skiptir vegalengdin ekki öllu máli, ég held að málið sé bara að vera á hreyfingu úti í a.m.k. hálftíma.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Tenglar
Gamla bloggið
- Gamla bloggið Bloggfærslurnar mínar 11/1 2007 - 29/2 2008
Síðurnar mínar
- Fjallvegahlaup Bráðabirgðasíða um Stóra Fjallvegahlaupaverkefnið :-)
- Olíuhreinsistöð Umhverfisþættir í rekstri olíuhreinsistöðva
Börnin mín (sum)
- Keli Frumburðurinn
- Jóhanna - myndir Myndirnar hennar Jóhönnu á Flickr
Vinir og ættingjar
- Hörpumyndir Aðallega Ragnar Ingi auðvitað
Frjálsar og hlaup
- FRÍ Frjálsíþróttasamband Íslands
- Hlaup.is Hlaupasíðan
- Hlaupadagbókin Segir ALLA söguna
- Sænska FRÍ Sænska frjálsíþróttasambandið
- Alþjðafrlsítrasambndð Heimasíða Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins, IAAF
Umhverfismálin
- Orð dagsins Af vettvangi Staðardagskrár 21
- UMÍS ehf. Environice Fyrirtækið mitt :-)
- Svanurinn í Noregi Svanur eins og svanir eiga að vera
- Miljø og sundhed Informationscenter for miljø og sundhed í Danmörku
- Landvernd Landvernd
- Náttúran.is Verðandi umhverfisvefur númer eitt
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 4
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 22
- Frá upphafi: 145508
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 20
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar