Færsluflokkur: Bloggar
27.10.2008 | 22:40
Rafall úr vindrafstöð
Bestu þakkir fyrir allar athugasemdirnar. Það er virkilega gaman að sjá allan þennan áhuga á þessum gömlu hlutum, og fá um leið allan þennan fróðleik. Og mikið rétt, þetta er einmitt rafall, nánar tiltekið jafnstraumsrafall - eða dýnamór - úr gamalli vindrafstöð, líklega 12V, þó að ég muni það ekki lengur. Grunar að hann hafi fyrir margt löngu tekið sinn síðasta snúning og verði varla ræstur á ný.
Umrædd vindrafstöð var ef ég hef skilið það rétt uppi á bæjarþakinu heima á árunum milli 1955 og 1960. Þegar ég man fyrst eftir mér hafði stöðin hins vegar lokið hlutverki sínu og lá í bútum úti á grjótgarði, þar sem hún liggur að hluta til enn. Reyndar minnir mig að pabbi hafi á sínum tíma nýtt prófíljárnin, sem héldu stöðinni upp, til viðhalds á einhverjum allt öðrum tækjum eða tólum. Nú er ekkert eftir nema rafallinn og það sem honum fylgir - og einhverjar leifar af fylgibúnaði, sem sést á myndinni hér fyrir neðan. Ætli þetta hafi verið vindhaninn?
Einhvern veginn held ég að tími vindrafstöðvanna hafi verið stuttur - og að saga þeirra sé kannski ekki vel varðveitt, nema þá í minni manna eins og Jóns Aðalbjörns Bjarnasonar, sem skrifaði virkilega fróðlega athugasemd við síðustu færslu. En kannski skjátlast mér, ef til vill hafa margir skrifað þykkar bækur um þennan tíma.
Ætli tími vindrafstöðvanna hafi ekki verið nokkurs konar millistig milli olíulampans og ljósavélarinnar. Þannig var það alla vega heima. Reyndar held ég að þessi vindrafstöð hafi svo sem ekki dugað í mikið meira en að lýsa upp tvær perur. Mig minnir að ein slík pera hafi verið til einhvers staðar inni í skáp þegar ég var smástrákur. En mikil framför hefur þetta samt verið. Eins og Jón Aðalbjörn nefnir, voru þessar stöðvar tengdar við rafgeyma. Geymarnir höfðu líka lokið hlutverki sínu þegar ég man fyrst eftir mér um 1960. En ytra byrðið af þeim var enn til, þ.e.a.s. sjálfur kassinn. Hann var úr þykku gleri, ferkantaður, svo sem 15x15 cm að grunnfleti og líklega um 18 cm hár. Svona kassi var alltaf notaður undir gróft salt í eldhúsinu heima. Gæti best trúað að hann væri þar enn í notkun til sömu þarfa.
Ég býst við að vindrafstöðin á þakinu heima hafi verið tekin niður árið 1959 eða 1960. Um það leyti kom fyrsta ljósavélin. Þetta var Lister díselvél, líklega eins strokks, með afl upp á 1,25 kW ef ég man rétt. Kaffivélin hérna frammi í eldhúsi þarf 1,30 kW þegar við hellum uppá. Í þá daga var vatnið í kaffið hitað á Sóló-eldavélinni og rafmagnið nánast bara notað til ljósa. Ljósavélin var samt ansi mikil bylting á sínum tíma. Vorið 1966 var keypt 6 kW tveggja strokka Listervél, og þá var hægt að fara að nota alls konar raftæki; eldavél og hrærivél og ég veit ekki hvað og hvað.
Já, það kom sem sagt fullt af réttum svörum við getrauninni, og allir eigið þið verðlaun skilin. Þau verða samt rýr. Þakklætið verður að duga. Ég þigg líka með þökkum allar frekari upplýsingar og ábendingar, bæði um svona vindrafstöðvar almennt og um þessa tilteknu stöð. Þykist vita að systkini mín og e.t.v. fleiri muni meira eftir henni en ég.
Takk enn og aftur. Aldrei hélt ég að mynd af gömlum dýnamó myndi verða svona vinsæl. Flettingarnar hafa aldrei verið fleiri á einum degi síðan ég byrjaði að blogga snemma á síðasta ári.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.10.2008 | 22:43
Getraun frá horfinni öld
Ég fann þennan ryðgaða hlut á æskustöðvunum um daginn. Getur einhver (annar en systkini mín) giskað á hvað þetta er? Vísbending: Hluturinn er hluti af einhverju stærra og var síðast í notkun á árunum fyrir 1960.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
25.10.2008 | 14:49
Margur verður af aurum api
Sagt er að margur verði af aurum api -
og allir vita hvað það getur þýtt.
En ef ég lendi í óskaplegu tapi,
ætli ég verði þá maður upp á nýtt?
Tók þátt í bráðskemmtilegu hagyrðingakvöldi í Dalabúð í gær. Þar voru líka Bjargey á Hofsstöðum, Georg á Kjörseyri og Helgi á Snartarstöðum, auk Einars Georgs Einarssonar, sem stjórnaði herlegheitunum. Vísan hérna fyrir ofan er sýnishorn af afrakstrinum. (Ath.: Hér er ekki talað um bankakreppu, nema þá hugsanlega í hálfkæringi eða bundnu máli).
Meira síðar. Kannski.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.10.2008 | 23:06
Nó komment

![]() |
Davíð: Varaði ítrekað við að bankar væru í hættu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
21.10.2008 | 17:32
Það byrjar með tungumálinu
Mig langar að vekja athygli á grein sem Bertel Haarder menntamála- og samstarfsráðherra Danmerkur skrifar í Jótlandspóstinn í dag. Í greininni lýsir hann kjarna norræns samstarfs og minnir á að norrænn tungumálaskilningur er hornsteinn þess. Bertel vill að þetta atriði verði tekið til rækilegrar umfjöllunar á þingi Norðurlandaráðs í Helsinki í lok þessa mánaðar, því að nú sé virkilega þörf á að styrkja þennan sameiginlega grunn. Við Bertel erum sammála um að þessu hafi ekki verið sinnt sem skyldi á síðustu árum.
Hægt er að lesa íslenska umfjöllun um grein Bertels á heimasíðu Norðurlandaráðs, og svo er auðvitað upplagt og í anda viðfangsefnisins að spreyta sig á dönsku útgáfunni á heimasíðu Jótlandspóstsins.
Ég er ekki í vafa um að góð kunnátta í norrænum málum er mikilvægur liður í að viðhalda áratugalöngu vináttusambandi við frændur okkar á Norðurlöndunum. Enginn er svo sterkur að hann þurfi ekki vini, jafnvel þegar vel árar!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.10.2008 | 17:12
Það skyldi þó aldrei vera?
Mér finnst hugmynd Brynhildar góð, enda ekki við öðru að búast af henni. Ég er reyndar ekki viss um að auðvelt sé að hrinda hugmyndinni í framkvæmd, né að námskeið dugi til að tryggja þá tungumálakunnáttu sem nauðsynleg er í viðkvæmum samskiptum milli landa. Samt finnst mér hugmyndin góð, vegna þess að hún vekur mann til umhugsunar!
Það er einkennileg og reyndar verulega óþægileg tilhugsun, að e.t.v. hafi léleg tungumálakunnátta ráðamanna valdið mestu skakkaföllum sem um getur í stjórnmálasögu Íslands síðustu árin! Þetta mætti gjarnan rannsaka þegar rykið er sest, þó ekki væri til annars en að reyna að læra af mistökunum.
![]() |
Vill senda ráðamenn á tungumálanámskeið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.10.2008 | 18:36
Stuðningur Powells skiptir máli
Mér þykja það góð tíðindi að Colin Powell hafi lýst opinberlega yfir stuðningi við Barack Obama. Powell er maður sem margir taka mark á, virkilegur þungavigtarmaður sem sagt. Ég held að stuðningur hans skipti miklu máli á lokasprettinum, en síðustu daga virðist John McCain hafa verið að saxa jafnt og þétt á forskot Obama.
Það skiptir mig afar miklu máli að Barack Obama fari með sigur af hólmi í forsetakosningunum vestra. Líklega hafa engar kosningar, hvorki nær né fjær, skipt mig eins miklu máli og þessar, síðan Lyndon B. Johnson gjörsigraði Barry Goldwater 1964. Og ég er víst ekki einn um að vonast eftir sigri Obama, alla vega ef marka má niðurstöður netkönnunar sem allir netverjar heimsins geta tekið þátt í á http://www.iftheworldcouldvote.com. Þar er staðan núna 87-13 fyrir Obama. Í þeirri kosningu hefur Obama meirihluta í öllum löndum nema Makedóníu og Búrkína Fasó, en í því síðarnefnda hafa reyndar bara tveir netverjar tekið þátt í könnuninni.
Úrslitin í forsetakosningunum í Bandaríkjunum ráðast ekki á netinu, heldur í þarlendum kjörklefum. Niðurstöðurnar munu hins vegar hafa mikið að segja um það hvernig heimsmálin þróast á næstu mánuðum og árum. Ég er sammála þeim sem telja bjartara framundan með Barack Obama í Hvíta húsinu, en ef John McCain fær að setjast þar að. Reyndar held ég að McCain sé út af fyrir sig mjög frambærilegur frambjóðandi, svo langt sem það nær, en maður má ekki gleyma hvaða hópar myndu meðal annarra stuðla að kjöri hans og telja sig eiga hönk upp í bakið á honum. Forseti Bandaríkjanna er ekki einráður.
![]() |
Powell styður Obama |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
15.10.2008 | 20:58
Án Brán
Englendingar eru kján-
aleg þjóð sem stundar rán.
Lengi gæti ég lifað án
leiðindanna í Gordon Brown.
Æi, Englendingar eiga þetta nú annars ekkert skilið af mér. Þetta er upp til hópa vænsta fólk held ég. Veit heldur ekki til þess að þeir hafi kosið sér þessi ósköp fyrir forsætisráðherra. En það hefur löngum þótt áhrifamikið að koma klámi og níði í bundið mál - og ég skáka náttúrulega í því skjólinu. Slíkt er gamall íslenskur siður, sem var fundinn upp löngu á undan lögum um varnir gegn hryðjuverkum, og hefur því væntanlega unnið sér ákveðna hefð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.10.2008 | 23:02
„Minni orkunýting við siglinar“
Þegar ég skrifaði bloggfærslu um umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs fyrr í dag, urðu mér á þau mistök að taka 9 orð orðrétt af íslenskum hluta heimasíðu Norrænu ráðherranefndarinnar, án þess að lesa þau af neinni nákvæmni. Svoleiðis á maður aldrei að gera. Þá getur maður lent í því að tala um minnkandi orkunýtingu við siglinar í stað þess að tala um bætta orkunýtingu við siglingar. Þetta kennir manni að maður á fyrst að læra að lesa áður en maður reynir að skrifa, sérstaklega ef maður ætlar að skrifa texta eftir einhvern annan!
Biðst fyrirgefningar á klúðrinu og endurtek hamingjuóskir til Marorku!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.10.2008 | 14:13
Til hamingju Marorka!
Sl. fimmtudag var tilkynnt að fyrirtækið Marorka hlyti umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2008 fyrir þróun upplýsingatækni sem minnkar orkunýtingu við siglinar verulega. Mér finnst ástæða til að vekja sérstaka athygli á þessu, þar sem fréttir af verðlaunaveitingunni hafa fallið dálítið í skuggann af öðrum og leiðinlegri fréttum. Nánari fréttir af verðlaunaveitingunni er m.a. að finna á heimasíðu Norrænu ráðherranefndarinnar og á heimasíðu Marorku.
Þróun umhverfisvænnar tækni hefur þegar skapað fjöldann allan af nýjum störfum, bæði hérlendis og erlendis. Árangur Marorku er eitt af bestu dæmunum um það. Að mati Sameinuðu þjóðanna munu skapast tugir milljóna nýrra starfa í umhverfisgeiranum á næstu áratugum. Við núverandi aðstæður hafa reyndar margir áhyggjur af því að erfitt verði að útvega lánsfé til nýrra verkefna, en á móti kemur að fjárfestar munu nú væntanlega snúa sér í auknum mæli að áhættulitlum verkefnum sem skila góðri ávöxtun til langs tíma. Þess vegna má jafnvel búast við auknu fjárstreymi til umhverfisverkefna af ýmsu tagi.
Á þessu sviði liggja gríðarlega stór tækifæri fyrir Íslendinga. Marorka hefur rutt brautina, ásamt nokkrum öðrum fyrirtækjum. Framhaldið er undir okkur sjálfum komið. Viljum við leita nýrra lausna, eða viljum við berja hausnum við steininn og reyna að leysa aðsteðjandi vandamál með sama hugarfari og var notað þegar vandamálin voru búin til, svo vitnað sé í orð Alberts Einstein?
Til hamingju Marorka!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Tenglar
Gamla bloggið
- Gamla bloggið Bloggfærslurnar mínar 11/1 2007 - 29/2 2008
Síðurnar mínar
- Fjallvegahlaup Bráðabirgðasíða um Stóra Fjallvegahlaupaverkefnið :-)
- Olíuhreinsistöð Umhverfisþættir í rekstri olíuhreinsistöðva
Börnin mín (sum)
- Keli Frumburðurinn
- Jóhanna - myndir Myndirnar hennar Jóhönnu á Flickr
Vinir og ættingjar
- Hörpumyndir Aðallega Ragnar Ingi auðvitað
Frjálsar og hlaup
- FRÍ Frjálsíþróttasamband Íslands
- Hlaup.is Hlaupasíðan
- Hlaupadagbókin Segir ALLA söguna
- Sænska FRÍ Sænska frjálsíþróttasambandið
- Alþjðafrlsítrasambndð Heimasíða Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins, IAAF
Umhverfismálin
- Orð dagsins Af vettvangi Staðardagskrár 21
- UMÍS ehf. Environice Fyrirtækið mitt :-)
- Svanurinn í Noregi Svanur eins og svanir eiga að vera
- Miljø og sundhed Informationscenter for miljø og sundhed í Danmörku
- Landvernd Landvernd
- Náttúran.is Verðandi umhverfisvefur númer eitt
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.4.): 0
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 18
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 16
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Myndaalbúm
Af mbl.is
Innlent
- Landris heldur áfram: 80-150 skjálftar á dag
- Prestar standa með Oscari
- Sjaldgæfur hvalreki í Njarðvík
- Páfi sem þorði en hefði mátt ganga lengra
- Eiríkur um skrif Höllu: Óboðlegt og óskiljanlegt
- Tóku við 147.000 tonnum í fyrra
- Kórlög flutt af einlægni og hlýju
- Kópavogsbær hættir við bratta hækkun gjalda
- Frans páfi var einstakur og opinn fyrir öllum
- Úðavopni beitt: Fjórir handteknir
Erlent
- Myrti mann í dagsleyfinu
- Sonja drottning lögð inn á spítala
- Tillögur Trumps: Engin NATO-aðild fyrir Úkraínu
- Skotárás á fjölbýlishús
- Fékk lífstíðardóm fyrir fjöldamorðin
- Trump og Melania fara í útför páfa
- Dánarorsök Frans páfa gerð kunn
- Veski ráðherrans stolið: 400 þúsund í reiðufé
- Kastrup-flugvöllur aldargamall
- Talinn hafa fengið heilablóðfall
Fólk
- Hugsun um að ganga á fjall
- Hockney hylltur
- Svona lítur LeeLee Sobieski út í dag
- Hugmyndirnar streyma stöðugt fram
- Allt í tónleikahaldi fyrir norðan
- Aron Can skemmti í Hlíðarfjalli (myndir)
- Vitur, skemmtileg og hæfileikarík
- Þetta er einstakt tækifæri
- Veikindafríi Palla formlega lokið
- Ég hafði uppi mjög sterkar varnir
Viðskipti
- Sköpuðu sjálfstraust í framlínunni
- Hið ljúfa líf: Nú er kominn tími til að prófa rúmenskt
- Um vitnaskyldu verjenda
- Um 50% af regluverki gullhúðað
- Svipmynd: Netárásir varða allt samfélagið
- Gríðarleg aukning í framrúðutjónum
- Auka hlutafé um 800 milljónir
- Rökræðið
- Þurfum að horfa til samkeppnishæfni
- Fréttaskýring: Frjálst fólk greiðir með reiðufé