Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008
29.12.2008 | 16:07
Endurvinnsla pappírs er mikilvæg!
Það er gott til þess að vita að fólki sé gert sem auðveldast að skila pappír og pappírsumbúðum til endurvinnslu. Þessi endurvinnsla skiptir nefnilega gríðarlega miklu máli í umhverfislegu tilliti. Þessu til áréttingar ætla ég að setja hérna inn nokkrar tölur úr nýjasta tölublaði World Watch Magazine, sem ég fékk með póstinum í dag:
Árið 2005 notuðu jarðarbúar samtals 368 milljónir tonna af pappír og pappa. Gert er ráð fyrir að þessi tala verið komin í 579 milljónir tonna árið 2021.
Eftirfarandi tafla sýnir pappírsnotkun í mismunandi heimshlutum:
Heimshluti | Kg á mann á ári |
Bandaríkin | 330 |
Vestur-Evrópa | 200 |
Suður-Ameríka | 50 |
Asía, þ.m.t. Kína | 28 |
Meðalskrifstofumaður í Bandaríkjunum notar um 10.000 blöð af skrifstofupappír árlega. Þar af lenda um 45% í ruslinu samdægurs!
Af öllum þeim blöðum og tímaritum sem stillt er upp í blaðahillum og blaðarekkum í Bandaríkjunum og í Evrópu rata aðeins 30% nokkurn tímann í hendur lesenda. Hinum 70 prósentunum er hent.
Pappír er um 34% af öllum heimilisúrgangi sem til fellur í Bandaríkjunum. Samkvæmt því fleygja bandarísk heimili um 85 milljónum tonna af pappír árlega. (Mig minnir að þetta hlutfall sé svipað á Íslandi).
Fyrir hvert tonn af pappír sem er endurunnið sparast 17 tré, sem annars hefði þurft að höggva. Auk þess sparast 2,5 rúmmetra rými á urðunarstað sem ella hefði tekið við pappírnum. Þá er ónefnd orkan sem sparast, því að frumvinnsla er jafnan orkufrekari en endurvinnsla.
(Byggt á: World Watch Magazine, janúar/febrúar 2009 (Volume 22, Number 1), bls. 32. Sjá einnig www.worldwatch.org/ww).
Breytingar á grenndargámum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.12.2008 | 12:27
www.fjallvegahlaup.is
Ég tók mig til í gærkvöldi og lagaði fjallvegahlaupasíðuna dálítið, þ.e.a.s. hina ófullgerðu vefsíðu www.fjallvegahlaup.is. Dagskrá fjallvegahlaupa 2009 hefur þó ekki enn litið dagsins ljós. Hins vegar uppfærði ég eða lagfærði frásagnir af öllum fjallvegahlaupunum á þessu ári og því síðasta, auk þess sem ég bjó til tengla á upplýsingar um nokkra óhlaupna fjallvegi. Hvet alla til að að kíkja á þessa ómissandi lesningu.
Í tölvunni minni luma ég á póstlista sérstaks áhugafólks um fjallvegahlaup. Á þennan lista sendi ég endrum og sinnum upplýsingar sem varða þetta merka verkefni. Nöfnum á listanum fjölgar hægt og bítandi. Sendið mér endilega línu á stefan[hjá]environice.is ef ykkur langar til að bætast á þennan lista.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.12.2008 | 15:38
Út að hlaupa - Hvanneyrarhringinn
Við Ingimundur Grétarsson hlupum Hvanneyrarhringinn í morgun, eins og við höfum alltaf gert á hverju ári um vetrarsólhvörf, í fyrsta sinn í fyrra. Þá skipulögðum við hlaupið af kostgæfni og lögðum af stað nákvæmlega við sólarupprás. Nú nenntum við hins vegar ekkert að bíða eftir birtingunni, heldur lögðum af stað í myrkri um 9-leytið. Hlupum í góðu veðri norður Vesturlandsveginn og síðan Ferjubakkaveginn. Þá var farið að birta af degi. Í nótt hafði snjóað og færið var frekar þungt og sums staðar hált undir. Þó náðist sæmileg viðspyrna í hjólförunum, þar sem þeirra naut við og voru ekki í notkun. Við Hvanneyri gerði á okkur él og bætti vel í þegar við vorum undir Brekkufjallinu (hjá Skeljabrekku). Þar var auk heldur strekkingsvindur - og heldur í fangið. Verst var samt færðin á Borgarfjarðarbrúnni, því að þegar saltið bætist við snjóinn er frekar vont að hlaupa. Þá var líka komið hádegi og töluverð umferð á brúnni. Við fórum þó auðvitað létt með að ljúka hringnum, þó að tíminn hafi reyndar verið sá lengsti hingað til, rétt um 3 klst. og 23 mínútur. Hringurinn er nákvæmlega 33,03 km og meðalhraðinn því innan við 10 km/klst. En það skiptir reyndar engu máli - og er auk heldur ekki óeðlilegt miðað við aðstæður. Ég var líka á keðjum alla leið, sem flýtur svo sem ekkert fyrir.
Þetta var bráðskemmtilegt allt saman og ekki tiltakanlega mikil þreyta í mönnum að hlaupi loknu. Það var nú öðruvísi um vetrarsólhvörf í fyrra. Þá var mjög af mér dregið eftir hringinn. Auðvitað fer manni fram með aldrinum. Þroskinn, skiljiði!
Hressandi laugardagsmorgunn!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.12.2008 | 17:43
Þetta er búið
Í dag var skurðgröfu beitt til að afmá útgerðarsögu Hólmavíkur 1944-1995.
Hilmir ST-1 var rifinn í dag. Ljósmynd: Strandir.is; Jón Jónsson.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.12.2008 | 23:12
Nýjar fjárgötur - fagnaðarefni
Stofnun þessa nýja sprotasjóðs er gott dæmi um þróun, sem mun verða áberandi á næstu mánuðum. Eins og ég ýjaði að í vangaveltum mínum 3. nóvember sl. um Umhverfismál á tímum bankakreppu, bendir margt til þess að fjárfestar muni nú í auknum mæli beina fjármagni sínu til fyrirtækja og verkefna þar sem unnið er í anda sjálfbærrar þróunar. Skammtímasjónarmiðin, sem ráðið hafa ferðinni síðustu ár, hafa beðið skipbrot. Menn vissu fyrir að þau dugðu ekki í umhverfismálunum, en nú er sem sagt ljóst að þau duga ekki heldur í kauphöllinni. Í stað þess að gleyma sér í draumum um skjótfenginn gróða, horfa fjárfestar nú í auknum mæli til ábyrgra fjárfestinga, sem stuðla að áframhaldandi velsæld í umhverfi og samfélagi, velsæld sem hefur verið, er og verður alltaf undirstaða arðs til langs tíma.
Það má kannski orða það svo, að á síðustu árum hafi áhættufé fjáreigenda runnið eftir hættulegum fjárgötum, sem nú eru hrundar og horfnar í skriðuna. Mikill fellir hefur orðið í sveitinni, en enn er þó stundaður fjárbúskapur. Sprotasjóðurinn BJÖRK er dæmi um nýja fjárgötu, þar sem skynsemin er tekin fram yfir áhættuna. Féð sem eftir lifir mun streyma eftir þessari fjárgötu og öðrum slíkum.
Takk Halla, Auður Capital og Björk fyrir að opna þessa leið. Ég er bjartsýnn á framtíðina - bjartsýnni í dag en í gær.
Vona að framlög í sprotasjóðinn BJÖRK verði á annan milljarð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.12.2008 | 08:25
Dagar Hilmis taldir
Ég var einn þeirra bjartsýnu manna, sem stóðu fyrir því einn dimman janúardag 1996 að koma eikarbátnum Hilmi ST-1 á þurrt, en hann hafði þá nýlega lokið rúmlega 50 ára þjónustu sinni við atvinnulífið á Hólmavík. Við, þessir bjartsýnu menn, ólum með okkur draum um nýtt hlutverk fyrir Hilmi, Hólmvíkingum og ferðamönnum nútíðar og framtíðar til fróðleiks og yndisauka. Draumurinn var að Hilmir yrði gerður aðgengilegur á þurru landi sem nokkurs konar safn um útgerðarsögu Húnaflóa, enda var báturinn þá þegar einn af fáum sæmilega heillegum eikarbátum frá upphafi lýðveldisins, auk þess að hafa leikið einstakt hlutverk í atvinnusögu Hólmavíkur.
En bjartsýni og afl til framkvæmda fara ekki alltaf saman. Sumir þessara bjartsýnu manna eru fallnir frá fyrir aldur fram og sumir fluttir burt. Aðrir bjartsýnir menn hafa ekki leyst þá af hólmi. Þess vegna er draumurinn úti. Hilmir mun ekki flytja komandi kynslóðum neinn fróðleik eða skilaboð, heldur verður honum fargað, helst fyrir jól að mér skilst.
Ég verð samt áfram þeirrar skoðunar, að með því að rífa Hilmi sé verið að rýja Hólmavík hluta af þeirri sérstöðu sem annars gæfi henni hvað mesta möguleika í framtíðinni. Mér finnst illa komið fyrir sjávarplássi, sem hefur byggt tilveru sína á útgerð áratugum saman, þegar búið er að afmá flest það sem minnir á söguna. Það vekur alla vega ekki mikla lotningu hjá mér að koma í sjávarpláss þar sem engin sjóför eru eftir nema plastbátar. Ekki það að lotningin í mér skipti öllu máli. Hins vegar er næsta víst að ferðamenn framtíðarinnar verði einmitt í leit að slíkum hughrifum þegar þeir velja sér viðkomu- og dvalarstaði. Og líklega mun atvinnulíf framtíðarinnar ekki síst byggja á þessum sömu ferðamönnum.
Myndin með þessari færslu er af http://www.strandir.is. Þar má líka lesa bréf Jóns E. Alfreðssonar, sem hann ritaði sveitarstjóra Strandabyggðar í gær fyrir hönd Mumma, félags áhugamanna um varðveislu Hilmis. Í bréfinu er m.a. stiklað á stóru í sögu Hilmis, allt frá því er hann kom fyrst til Hólmavíkur á sjómannadaginn 1944. Mummi var félag bjartsýnna manna sem nú hafa játað sig sigraða.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.12.2008 | 16:33
Hvað sagði Paul Hawken í gær?
Í gær sat ég skemmtilegan og uppörvandi fyrirlestur Paul Hawken í Þjóðmenningarhúsinu. Ég hef vitað af Paul síðustu 10 árin og bækurnar hans hafa legið á náttborðinu mínu. Ef maður ætti að telja upp 10 helstu umhverfisfrömuði í heiminum í dag, þá er mjög líklegt að nafnið hans væri á þeim lista. Eða eins og Björk Guðmundsdóttir sagði svo skemmtilega þegar hún kynnti hann í upphafi fyrirlestrarins: Hann er svona heimsmeistari í grænku.
Salurinn í Þjóðmenningarhúsinu var þéttskipaður í gær, en það sem Paul sagði á erindi við marga fleiri en þá sem þar voru. Þess vegna ætla ég að taka mér það bessaleyfi að birta nokkra punkta sem ég hripaði niður meðan ég hlustaði. Sé einhvers staðar rangt haft eftir er það algjörlega á mína ábyrgð. Vona að mér fyrirgefist framhleypnin. Set þetta í punktaform til að skera niður allan óþarfa:
- Paul hefur dvalist hérlendis síðustu daga. Hann segist aldrei hafa séð nokkurt land sem hefur eins góða möguleika og Ísland til að takast á við áskoranir 21. aldarinnar.
- Honum finnst rétt að líta á yfirstandandi fjármálakreppu eins og sjávarskafl (Tsunami) sem hvolfist yfir fólk í veislu. Núna erum við stödd ráðvillt í útfallinu, (Hva? Var ekki partí?), að leita að einhverju, og áttum okkur kannski ekki á því að auðvitað kemur sjórinn til baka. Þá er betra að vera ofar í fjöruborðinu. Allt sem við gerum til að draga úr útfallinu er dæmt til að mistakast.
- Maður þarf ekki að vera umhverfissinni til að setja spurningamerki við ofuráherslu Íslendinga á áliðnaðinn. Það er nóg að horfa á þetta út frá hagfræðilegu sjónarmiði.
- Enginn á ódýrari græna orku en Íslendingar!
- Olíuframleiðsla í heiminum náði hámarki fyrir 4-5 árum ("Peak Oil"). Verðið á síðasta ári var það hæsta í sögunni, en samt gátu stóru olíufélögin ekki aukið framleiðsluna. Það segir sína sögu um framboð á hráolíu!
- Á síðustu 8 árum (á valdatíma Bushstjórnarinnar) notuðu jarðarbúar 20% af allri þeirri olíu sem notuð hefur verið frá upphafi! Þetta magn var jafnframt 20% af öllum þekktum olíuauðlindum.
- Árið 1900 þurfti 1 tonn af olíu fyrir hver 100 tonn sem unnin voru úr jörðu. Árið 1970 var þetta hlutfall komið niður í 30:1. Núna er hlutfallið 3:1. Það verður sífellt erfiðara að ná olíunni. Þegar hlutfallið er komið niður í 1:1 er olíuvinnsla augljóslega orðin tilgangslaus.
- Olíuverð er núna um 40 dollarar á tunnu og hefur lækkað úr 140 dollurum. Núverandi verð er langt undir raunkostnaði. Það á bara eftir að hækka, ekki bara aftur í 140 dollara, heldur í 200 dollara, eða jafnvel 250 dollara. Þá verður olían orðin jafndýr og Coca Cola.
- Minnkandi eftirspurn eftir olíu í OECD-ríkjunum (vegna kreppunnar) skiptir nær engu máli, því að eftirspurnin eykst svo hratt í fjölmennustu ríkjum heims!
- Við erum að nálgast það sem kallað hefur verið "Red Queen Dilemma", sbr. söguna um Lísu í Undralandi. Því hraðar sem maður fer, því hraðar kemst maður ekki neitt.
- Helmingur af allri raforku í Kaliforníu fer í að dæla vatni. Eftir því sem vatnsskortur eykst þarf að bora dýpri brunna, sem þýðir að þá þarf enn meiri orku til að dæla vatninu.
- Framleiðsla á kolum mun ná hámarki á næstu 7-8 árum að mati Alþjóðaorkumálastofnunarinnar í París (IEA). IEA eru engin umhverfisverndarsamtök. Þetta eru alþjóðasamtök orkugeirans!
- Þegar tekið er tillit til alls þessa er augljóst hvílík blessun hvílir á Íslendingum. ("You are blessed, totally blessed")! Spurningin er bara hvernig við ætlum að ákveða hvað við ætlum að gera. Paul hvetur okkur til að láta ekki duga að halda fram skoðunum, heldur leggja fram beinharðar tölur, t.d. frá IEA. Hann orðaði stöðu okkar einhvern veginn svona: Þið hafið bestu möguleika sem nokkur þjóð í öllum heiminum hefur.
- Spurningin er hvernig við viljum flytja orkuna okkar út. Það er ekki góður kostur að flytja hana út í formi óunnins áls. Hlutfallslega mest af öllu áli heimsins fer í að framleiða bjórdósir. Helmingi þeirra er hent þegar búið er að drekka úr þeim. Álpappír er í 2. sæti, flutningatæki (bílar og flugvélar) bara í því þriðja!
- Það á að hugsa um það til hvers orkan er notuð, hvernig hún skapar mest verðmæti, hvernig hún gerir mest gagn! Viljum við heiðra minningu forfeðranna með því að láta orkuna okkar í að framleiða bjórdósir, sem síðan er hent?
- Sem dæmi um aðrar framleiðsluvörur sem skapa meiri virðisauka og gera meira gagn má nefna koltrefjar og gler, ekki samt venjulegt rúðugler, heldur hátæknirúðugler sem er sólfangari um leið, gler með þunna sólarfilmu á milli laga.
- Það er jafn auðvelt að búa til hagkerfi sem býr í haginn fyrir framtíðina og hagkerfi sem stelur frá framtíðinni, ("an economy that heals the future as one that steals from the future").
- Framleiðsla okkar á áli er dæmi um heimsins mesta sóunarferli.
- Hvar viljum við vera eftir 30 ár eða 50 ár? Þetta er ekki bara opin spurning. Þetta eru margar spurningar, spurningar á borð við: Viljum við hreinna loft eða mengaðra loft? Svörum þessum spurningum fyrst og vinnum okkur svo til baka. Hvað þarf sem sagt til að ná þessum árangri?
- Breytum áherslunum í fyrirsögnunum og hjá þjóðinni. Gefum út yfirlýsingu til umheimsins um það sem íslenska þjóðin vill! Vinnum þetta neðan frá og upp - úr grasrótinni. Við getum ekki breytt öðru fólki, en við getum breytt okkur sjálfum!
- Það er gríðarlegur vöxtur í sólarorkuiðnaðinum, eitthvað um 30% á ári. Ísland ætti að vera að framleiða eitthvað af þessum vörum. En við verðum að vita hvað við viljum! Heimurinn er að þróast í átt að grænni orku. Það er bara spurning hver ætlar að taka þátt í því.
- Það er orðið of seint að treysta á hetjur. Nú þurfum við manneskjur! Við þurfum forystu sem þjappar okkur saman, án þess að gera okkur öll eins. Hættum að einblína á sérstöðu okkar hvers og eins, leyfum okkur að vinna saman, ekki á morgun, heldur strax í dag! Við höfum ekki tíma til að dreifa kröftum okkar.
- Því ekki að gera eitthvað sem getur orðið öðrum til eftirbreytni!?
Hvet ykkur til að skoða heimasíðu Paul Hawken, http://www.paulhawken.com/. Þið getið líka prófað að gúgla manninn ef þið viljið átta ykkur betur á því hver hann er. Svo var hann líka í Silfri Egils í dag, sjá http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4440910 (aftast í þættinum).
Takk Björk og nattura.info fyrir að bjóða Paul Hawken til landsins! Gærdagurinn var virkilega uppörvandi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
14.12.2008 | 12:55
Út að hlaupa - með birtuna í hönd
Við Ingimundur lögðum af stað hlaupandi vestur Mýrar skömmu fyrir dögun í morgun. Ákváðum nefnilega að hafa dagaskipti við Drottin og hlaupa á sunnudagsmorgni í stað laugardagsmorguns, sem við höfum annars haldið okkur undanbragðalaust við það sem af er vetri.
Það var kyrrlátt á Mýrunum í morgun. Helst minnir mig að við höfum ekki orðið varir við neina umferð alla leið frá Borgarnesi vestur að Langá. Fullt tungl var á himni og lýsti okkur leið, en fljótlega fór síðan að birta af degi.
Svona morgnar teljast til forréttinda. Það eru sem sagt forréttindi að geta hlaupið úti í birtingu á kyrrum vetrarmorgni í hreinu lofti með fjallasýn við tunglsljós. Hægur vindur var á og fremur svalt, líklega 8 stiga frost. En á Íslandi fer jú tískan eftir veðri - og svo var ég náttúrulega á keðjum, (sem eru auðvitað hluti af nefndum tískufatnaði).
Þetta með að hafa birtuna í hönd er orðatiltæki sem ég heyrði oft í æsku. Þetta höfðu pabbi og mamma eftir landpósti sem fór póstleiðina norður Krossárdal, frá Kleifum í Gilsfirði að Gröf í Bitru. Þetta var afar árrisull maður, og mér skilst að oft hafi enn verið myrkur þegar hann var kominn norður yfir. Þegar hann var spurður hvers vegna hann væri alltaf á ferð í myrkri, á hann að hafa sagt að það væri svo gott að hafa birtuna í hönd. Man ekki lengur hver þessi landpóstur var, held samt að hann hafi heitið Kristmundur. Heiti á systkini mín og aðra sem muna lengra en ég að leiðrétta mig eða staðfesta.
Heima voru líka stundum höfð dagaskipti við Drottin. Þetta orðatiltæki var oftast notað um það þegar við vorum við heyskap á sunnudögum í góðu veðri, en tókum okkur frí á rigningardegi í miðri viku í staðinn. Orðatiltækið fól þá í sér einhvers konar samning eða afsökunarbeiðni til almættisins vegna þess að hvíldardagurinn var ekki haldinn heilagur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.12.2008 | 12:11
Er snigillinn dauður?
Á blaðamannafundi 2. júní sl. kynnti Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, tillögur starfshóps um heildarstefnumótun skattlagningar á eldsneyti og ökutæki, en starfshópurinn hafði þá setið með málið í fanginu í tæpt ár. Við þetta tækifæri sagðist Árni gera ráð fyrir að það taki sumarið að fara yfir þessar niðurstöður og vonandi hægt að leggja fram frumvörp í haust og þau afgreidd fyrir áramót, svo vitnað sé í frétt mbl.is um málið.
Tillögur umrædds starfshóps gerðu ráð fyrir að skattlagning á eldsneyti og ökutæki yrði framvegis tengd við losun á koltvísýringi, enda væri Ísland með hæstu koltvísýringslosun nýskráðra fólksbíla innan evrópska efnahagssvæðisins. Tillögurnar byggðu að hluta á skýrslu Vettvangs um vistvænt eldsneyti, sem kynnt var í febrúar 2007.
Það er ekkert minni þörf á því nú en áður að nýta eldsneyti vel og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þess vegna er ég sleginn yfir því að Alþingi skuli enn og aftur hjakka í fari úreltrar skattlagningar, þrátt fyrir alla þá góðu vinnu sem búið er að leggja í tillögur um nýjar leiðir, sem eru til þess fallnar að draga okkur a.m.k. hálfa leið út úr skuggum fortíðarinnar. Til hvers í ósköpunum eru menn að plata hópa af fagfólki til að sitja í nefndum mánuðum eða árum saman, ef það stendur svo ekkert til að taka mark á þeim?
Í ólundarlegri bloggfærslu minni 2. júní sl. lét ég þess getið að mér finndist seinagangurinn í skattlagningarmálinu óviðunandi, sérstaklega ef menn ætla að fara að hanga yfir þessu til áramóta án þess að taka neina ákvörðun. Ég sæi ekki betur en málinu sé ætlað að ganga áfram með hraða snigilisins, og svei mér ef snigillinn gengur ekki fyrir jarðefnaeldsneyti, annað hvort bensíni eða díselolíu.
Nú er ég hræddastur um að snigillinn sé dauður!
PS1: Hér hef ég ekki minnst orði á allar hinar aukaverkanirnar sem lög gærdagsins hafa í för með sér. Því hafa aðrir gert góð skil.
PS2: Kannski er þetta allt misskilningur hjá mér. Kannski eru nýju lögin einmitt byggð á tillögum umrædds starfshóps. Ég hef nefnilega ekki lesið þau. Leiðréttið mig endilega ef svo er. Ég mun taka slíkum leiðréttingum afar fagnandi!
Þrýsta vísitölunni upp | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.12.2008 | 09:45
Steven Chu orkumálaráðherra!
Val Baracks Obama á Nóbelsverðlaunahafanum Steven Chu í embætti orkumálaráðherra er ekki síst athyglisvert fyrir þá sök að sá síðarnefndi hefur beitt sér mjög fyrir þróun 2. kynslóðar etanóls, þ.e. etanóls sem t.d. er framleitt úr sellulósa (beðmi) eða öðrum viðarafurðum og plöntuúrgangi sem ekki nýtist sem fóður fyrir menn og önnur dýr. Chu hefur verið harður andstæðingur þeirrar stefnu núverandi Bandaríkjastjórnar, að auka framleiðslu á etanóli úr korni, en þessi stefna er m.a. talin hafa átt sinn þátt í hækkuðu verði á fóðri og matvælum, auk þess að hafa stuðlað að miklum umhverfisskaða. Chu hefur líka verið talsmaður þess að skoðaðir verði aðrir valkostir í lífeldsneyti, svo sem bútanól.
Mér finnst það hreinlega ótrúlega magnað að vísindamaður á borð við Steven Chu skuli vera valinn í ráðherraembætti! Hitt er svo annað, að hann á vissulega erfitt verkefni fyrir höndum, þar sem hann þarf að yfirstíga bæði verulegar pólitískar og efnahagslegar hindranir.
Þeir sem vilja kynna sér málið nánar geta t.d. lesið frétt PlanetArk/Reuter í dag og umfjöllun á fréttavef Bloomberg í gær. Svo er hægt að fræðast heilmikið um Steven Chu á Wíkipedíu.
Obama velur vísindamann í ráðherraembætti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tenglar
Gamla bloggið
- Gamla bloggið Bloggfærslurnar mínar 11/1 2007 - 29/2 2008
Síðurnar mínar
- Fjallvegahlaup Bráðabirgðasíða um Stóra Fjallvegahlaupaverkefnið :-)
- Olíuhreinsistöð Umhverfisþættir í rekstri olíuhreinsistöðva
Börnin mín (sum)
- Keli Frumburðurinn
- Jóhanna - myndir Myndirnar hennar Jóhönnu á Flickr
Vinir og ættingjar
- Hörpumyndir Aðallega Ragnar Ingi auðvitað
Frjálsar og hlaup
- FRÍ Frjálsíþróttasamband Íslands
- Hlaup.is Hlaupasíðan
- Hlaupadagbókin Segir ALLA söguna
- Sænska FRÍ Sænska frjálsíþróttasambandið
- Alþjðafrlsítrasambndð Heimasíða Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins, IAAF
Umhverfismálin
- Orð dagsins Af vettvangi Staðardagskrár 21
- UMÍS ehf. Environice Fyrirtækið mitt :-)
- Svanurinn í Noregi Svanur eins og svanir eiga að vera
- Miljø og sundhed Informationscenter for miljø og sundhed í Danmörku
- Landvernd Landvernd
- Náttúran.is Verðandi umhverfisvefur númer eitt
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 9
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar