Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008
31.3.2008 | 08:32
Sumartími utan úr geimnum
Úrið mitt hefur sjálfstæðan vilja. Í nótt ákvað það að kominn væri tími á sumartímann - og í samræmi við það flýtti það sér um klukkutíma á meðan ég svaf. Í morgun vakti það mig svo á tilsettum tíma, nema hvað sá tilsetti tími var klukkutíma fyrr en ég hafði upphaflega ætlað. Ég tók samt ekki eftir neinu grunsamlegu og fór á fætur eins og ekkert væri. Það var ekki fyrr en annað heimilisfólk fór að gera athugasemdir, að ég áttaði mig á aðstæðum og því að klukkan væri í raun og veru bara 6 þótt mín væri 7.
En hvernig gat þetta gerst? Jú, úrið mitt, sem er jafnframt vekjaraklukkan mín, á í einhverju leynilegu sambandi við gervihnött á næturnar. Og af því að úrið var stillt á London en ekki GMT, þá gripu þau til þessa úrræðis í tilefni af því að Lundúnabúar voru einmitt að taka upp sumartímann sinn. Í Borgarnesi er alltaf sumartími.
Og ég sem hélt að ég væri frjáls og óháður! Samt er það svo að hnattvæðingin lætur mig ekki einu sinni í friði á meðan ég sef! Og hvað er maður líka að gera með úr sem talar við gervihnetti á næturnar!? Skyldi þetta vera nauðsynlegur liður í að öðlast lífshamingju, eða væri ég kannski jafn hamingjusamur með gamla handtrekkta Pierpontúrið sem ég fékk í fermingargjöf, ef það væri á annað borð gangfært?
Jæja, þetta er náttúrulega bara hið besta mál! Einu afleiðingarnar voru þær að það bættist klukkutími framan við vinnudaginn. Hvað er hægt að hugsa sér betra?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.3.2008 | 11:51
Kominn af stað aftur
Hljóp í morgun í fyrsta sinn eftir Rómarmaraþonið. Ætlaði alltaf að taka mér vikufrí frá hlaupum, en þær urðu óvart tvær, mikið að gera í vinnunni og svona. Svo er líka gott að breyta til. Hlaupin eiga ekki að verða að einhverri skyldu eða kvöð.
Mikið er nú annars gaman að rifja upp hvernig það er að hlaupa í góðum mótvindi og almennilegum kulda. Reyndar er fallegt veður í Borgarfirðinum núna eins og alltaf á laugardagsmorgnum - og keðjurnar komnar í geymslu. Þetta urðu 18 km, eitthvað uppundir Ferjubakka og til baka.
Á þessari stundu ættu annars fyrstu hlaupararnir að vera að koma í mark í Marsmaraþoni Félags maraþonhlaupara. Sendi þátttakendum góðar kveðjur í huganum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.3.2008 | 22:04
Eigi skal víkja
Ég hvet stjórnvöld til að láta mótmælaaðgerðir engin áhrif hafa á skattlagningu eldsneytis. En jafnframt hvet ég fjármála-, umhverfis- og samgönguráðuneytin til að leggja fram sem allra fyrst frumvörp til breytinga á gildandi lögum um skattlagningu ökutækja og eldsneytis, í framhaldi af tillögum starfshóps á vegum fjármálaráðuneytisins um þau mál. Þessi starfshópur skilar væntanlega af sér skýrslu á allra næstu dögum, ef hann hefur þá ekki þegar gert það.
Ég tel sem sagt að stjórnvöld eigi ekki að grípa til tímabundinna ráðstafana til að milda áhrif olíuverðshækkana. Bæði teldi ég tímasetninguna óheppilega með tilliti til þeirrar allsherjar uppstokkunar sem vonandi stendur til í framhaldi af vinnu fyrrnefnds starfshóps - og eins tel ég engar líkur á að olíuverð á heimsmarkaði lækki, nema þá stuttan tíma í senn. Verðþróunin til lengri tíma verður öll uppávið, og þess vegna er þess ekki að vænta að tímabundnar aðgerðir geti verið tímabundnar. Það er erfitt að afnema afslætti sem einu sinni er búið að koma á.
Auðvitað koma hækkanir á olíuverði sér mjög illa fyrir okkur öll, bæði flutningabílstjóra, aðra bílstjóra og annað fólk. Aðgerðir flutningabílstjóranna bitna mest á almenningi, sem hefur svo sem þjáðst nóg vegna olíuverðshækkana nú þegar, þó að óþarfir umferðarhnútar bætist ekki ofan á með tilheyrandi töfum og tjóni. Auk heldur fer verð á öðrum hráefnum líka hækkandi, þannig að olían er svo sem bara einn hluti af miklu stærra máli. Það væri svo sem allt eins hægt að efna til mótmæla vegna hækkana á korni, stáli, gúmmíi eða áburði, svo dæmi séu tekin. Víst er eldsneyti mjög skattlagt - og sama gildir jú um fleiri vörur - og víst er eitthvert flökt á genginu þessa dagana. En að öðru leyti eiga stjórnvöld á Íslandi enga sök á þeirri öldu hækkana sem við erum nú farin að finna fyrir. Grunnurinn að þessu öllu er lagður á markaði sem spannar allan heiminn - og á þeim markaði fer eftirspurn mjög vaxandi. Hvað olíuna varðar, er komið að þeim mörkum þar sem eftirspurnin fer fram úr framboðinu. Sú þróun mun ekki snúa við, þó að minni háttar sveiflur verði auðvitað hér eftir sem hingað til í takt við það hversu friðvænlega horfir á tilteknum svæðum, hvaða ákvarðanir eru teknar innan OPEC og hverjir eru kosnir til forystu í voldugustu ríkjum heimsins.
Ég veit að ég er boðberi slæmra tíðinda. Við stöðvum ekki þessa framrás, en við getum gert margt til að aðlagast henni og draga úr skaðanum sem hún veldur okkur. Ég tel farsælast að einhenda sér í það verkefni. Heildarendurskoðun á skattlagningu ökutækja og eldsneytis er liður í því, ekki í fljótræði heldur á grundvelli vel yfirvegaðra tillagna. Nýtt fyrirkomulag á skattlagningu hlýtur að hafa það að markmiði að hvetja til olíusparnaðar og auðvelda skipti yfir í aðra orkugjafa. Þess vegna hlýtur líka skattlagningin að taka öðru fremur mið af kolefnainnihaldi og uppruna eldsneytis, þannig að dregið verði eftir megni úr losun gróðurhúsalofttegunda um leið og reynt er að gera hagkerfið óháðara þrjótandi olíuauðlindum en nú er. Byggðaþátturinn í þessu öllu saman er líka afar stórt mál sem þarf að skoða sérstaklega!
Vegi lokað við Rauðavatn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.3.2008 | 18:35
Kominn yfir strikið
Ég er ekki vanur að tjá mig mikið um stjórnmál innanlands, en eftir að hafa lesið bréf Árna Mathiesen til umboðsmanns Alþingis rifjaðist upp fyrir mér gamall útúrsnúningur úr vísu Kristjáns Jónssonar:
Yfir kaldan eyðisand
einn um nótt ég sveima mikið.
Nú er horfið Norðurland.
Nú er ég kominn yfir strikið.
Telja að ráðherra eigi að biðja umboðsmann afsökunar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.3.2008 | 17:24
Styðjum Dalai Lama
Jæja, nú er tækifæri til að láta í sér heyra út af yfirgangi Kínverja í Tíbet. Mánudagurinn 31. mars nk. verður nefnilega sérstaklega helgaður baráttunni fyrir því að kínversk stjórnvöld taki upp alvöru viðræður við Dalai Lama um framtíð Tíbets. Fyrir þann tíma ætla Avaaz-samtökin að safna 2.000.000 undirskriftum því til stuðnings. Nú fyrir stundu voru komnar eitthvað um 1.128.000 undirskriftir, þar á meðal mín. Þið getið lagt ykkar lóð á vogarskálina með því að smella á tengilinn hér fyrir neðan og slást í hópinn. Eins og Avaaz-samtökin hafa bent á, er þetta líklega besta tækifæri sem gefist hefur í áratugi til að hjálpa Tíbetum að rétta stöðu sína. Verum minnug þess að enginn gerði stærri mistök en sá sem gerði ekkert, af því að honum fannst geta gert svo lítið.
Og hér kemur tengill á undirskriftasöfnunina:
http://www.avaaz.org/en/tibet_end_the_violence/74.php/?cl=67309715
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.3.2008 | 09:28
Á að banna plastpoka?
Síðustu vikur hef ég nokkrum sinnum verið spurður álits á því hvort rétt væri að banna einnota innkaupapoka úr plasti. Ég treysti mér engan veginn til að svara þeirri spurningu með jái eða neii, enda almennt þeirrar skoðunar, að ef maður geti gefið eitt einfalt svar við flókinni spurningu, þá sé svarið örugglega vitlaust. Þess í stað ætla ég að velta málinu aðeins fyrir mér í þessum pistli, án þess að komast að endanlegri niðurstöðu.
Nýlega viðraði Erik Solheim, umhverfisráðherra Noregs, þá hugmynd að banna einnota innkaupapoka úr plasti. Talið er að Norðmenn fleygi um einum milljarði slíkra poka á ári hverju, enda benda norskar rannsóknir til að venjulegur plastpoki sé aðeins notaður að meðaltali í 20 mínútur. Neysluvenjur Norðmanna eru um margt líkar neysluvenjum Íslendinga, en þeir eru hins vegar um 15 sinnum fleiri. Því er ekki fráleitt að ætla að hér sé árlega fleygt um 70 milljón pokum. Ekki eru forsendur til að ætla að meðallíftími plastpoka á Íslandi sé lengri en í Noregi.
Einnota plastpokar hafa margvísleg áhrif á umhverfið - og þá ekki bara á úrgangsstiginu. Plast er fyrir það fyrsta búið til úr olíu, sem er jú endanleg auðlind auk þess sem vinnsla hennar og notkun eykur á gróðurhúsaáhrifin. Til að framleiða eitt kíló af plasti þarf tvö kíló af olíu!
Áætlað er að það taki venjulegan plastpoka um 100 ár að brotna niður í náttúrunni, en allt að þúsund árum ef pokinn er urðaður á viðurkenndum urðunarstað. Þessi langi niðurbrotstími hefur reyndar bæði kosti og galla, ef svo má segja. Kosturinn er sá, að því lengri tíma sem niðurbrotið tekur, því seinna sleppa gróðurhúsalofttegundirnar koltvísýringur og/eða metan úr plastinu út í andrúmsloftið. Gallarnir eru kannski augljósari, því að þeir snúast um ásýnd, hreinleika og rými, auk þess sem plastpokar í náttúrunni geta verið skaðlegir dýralífi, stíflað niðurföll o.s.frv. Ofan í kaupið geta leynst ósýnilegar hættur í plastúrgangi. Þegar venjulegt pólýetýlenplast brotnar niður, en það er sú tegund af plasti sem flestir plastpokar eru gerðir úr, þá myndast fræðilega séð næstum bara vatn og koltvísýringur þegar upp er staðið. En þetta gerist í mörgum þrepum, enda tekur ferlið líklega einhver 100 eða 1000 ár eins og fyrr segir. Í millitíðinni verða til ýmis millistig, svo sem stakar fjölliður (pólymerar), sem eru jú grunneiningar plastsins. Þessar plasttrefjar sjást ekki með berum augum, en geta engu að síður m.a. mengað höf og strendur og skapað hættu fyrir lífríkið. Grein um þetta atriði birtist í vísindatímaritinu Science þann 7. maí 2004, (Richard C. Thompson, Ylva Olsen, Richard P. Mitchell, Anthony Davis, Steven J. Rowland, Anthony W. G. John, Daniel McGonigle, and Andrea E. Russell: Lost at Sea: Where Is All the Plastic? Science 7 May 2004 304: 838). Þeir sem ekki eru áskrifendur að tímaritinu geta nálgast útdrátt á vefsíðum Science. Reyndar er útdrátturinn ekki sérlega upplýsandi einn og sér. Hins vegar gerði umhverfisfréttaveitan EDIE þessari rannsókn skil daginn sem greinin birtist. Þar er hægt að fræðast örlítið nánar um málið.
Sífellt fleiri lönd og sveitarfélög íhuga að takmarka eða banna notkun einnota haldapoka úr plasti. Auk þess sem nefnt er hér að framan um hugmyndir norska umhverfisráðherrans, verða ókeypis plastpokar t.d. bannaðir í Kína frá 1. júní nk., umhverfisráðherra Ástralíu hefur lagt til að hætt verði að nota plastpoka í þarlendum dagvöruverslunum fyrir árslok, og forseti borgarstjórnar í Stavanger í Noregi hefur viðrað svipaðar hugmyndir. Svo mætti reyndar lengi telja.
Plastpokaframleiðendur og aðrir sem hafa tekið upp hanskann fyrir plastpokana, hafa bent á að þeir nýtist vel þegar heim er komið. Þannig þurfi fólk einmitt á svona plastpokum að halda í ruslafötur heimilisins, og ef þeir fáist ekki með þessum venjulega hætti við búðarkassana verði bara að kaupa þá sérstaklega, sem kæmi þá á sama stað niður þegar upp væri staðið. Vissulega er það rétt að haldapokar eru mikið nýttir í ruslafötur og til fleiri nota. Hins vegar halda þessi rök ekki alveg ef Íslendingar eru líkir Norðmönnum. Eins og fyrr segir er meðalnotkunartími þarlendra haldapoka aðeins um 20 mínútur, sem bendir til að mjög lágt hlutfall pokanna sé í raun notað til nokkurs annars en að bera varninginn í þeim heim (eða út í bíl og inn úr bílnum).
Þrátt fyrir alla þessa galla plastpokanna, er ekki endilega víst að bréfpokar væru betri. Þeir eru reynar framleiddir úr endurnýjanlegu efni, því að pappírinn í þá kemur úr ræktuðum skógum. En það þarf samt orku til að framleiða þá, og enn meiri orku til að flytja þá, borið saman við plastpokana, því að bréfpokarnir eru jú þyngri. Þeir henta heldur ekki í ruslaföturnar og hafa því mjög líklega jafn stuttan eða enn styttri notkunartíma en plastpokarnir. Hins vegar brotna þeir auðveldlega niður í náttúrunni - og þar koma engar fjölliður við sögu.
Vafalítið eru fjölnota taupokar og innkaupnet miklu betur til þess fallin en bæði plastpokar og bréfpokar að bera vörur heim úr búðinni. Svoleiðis pokar endast líka árum saman. Elsti taupokinn minn á t.d. 10 ára afmæli um þessar mundir. Það er 262.800 sinnum lengri tími en 20 mínútur, (þó að ég telji ekki hlaupársdaga með). Og þó að ég noti langoftast taupoka í búðarferðum, þá er ég samt af einhverjum ástæðum aldrei í vandræðum með poka í ruslafötuna. Enda eru plastpokar vel að merkja ekki bannaðir ennþá.
Eins og ég nefndi í upphafi þessa pistils, verða hér ekki framreidd nein endanleg og rétt svör við spurningunni um það hvort ástæða sé til að banna einnota innkaupapoka úr plasti. Það er augljóst að plastpokanotkunin felur í sér gríðarlega sóun, og að til eru miklu betri valkostir frá umhverfislegu sjónarmiði - og reyndar fjárhagslegu líka. Hins vegar getur vel verið að í stað þess að grípa til boða og banna sé vænlegra að vekja fólk til umhugsunar um þessi mál - og ef til vill að skattleggja pokana. Það að vekja fólk til umhugsunar er reyndar ekki auðvelt verkefni, en plastpokarnir eru sérlega gott umræðuefni í slíkri vakningu, því að þeir eru vissulega óvenju glöggt dæmi um sóun og ósjálfbæra neyslu, þó að hver poki um sig vegi ekki þungt í því samhengi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.3.2008 | 23:23
F(Eitt) Kína
Ég er að hugsa um að lýsa yfir sjálfstæði, en veit ekki alveg frá hverju, utanríkisráðherranum kannski. Ég er nefnilega dálítið leiður og pirraður út af ástandinu í Tíbet, held einhvern veginn að þar búi sérstök þjóð, sem eigi kannski ekki samleið með þeim þjóðum sem byggja Kína, hvað þá kínverskum stjórnvöldum. Í Tíbet býr ekki nema slatti af Kínverjum, kannski svona 6-10% af íbúum landsins. Og þó að Kublai Khan hafi slengt Tíbet saman við Kína á 13. öld eða þar um bil, og þó að einhvern veginn hafi tekist að halda þar kínverskum yfirráðum til 1911 eða eitthvað, þá finnast mér það ekki næg rök fyrir því að Tíbet eigi að tilheyra Kína, hvað þá fyrir því að Kínverjar megi misþyrma tilteknum Tíbetum og fangelsa þá, bara fyrir að hafa og láta í ljós skoðanir sem Kínverjum eru ekki þóknanlegar. Ég ætlaði líka að skrifa eitthvað um Taiwan, en ákvað að láta það bíða.
Mér finnst flott að Kosovo skuli vera búið að lýsa yfir sjálfstæði og flott að Ísland skuli vera búið að viðurkenna þetta sjálfstæði. Samt held ég einhvern veginn að Kosovo sé frekar hluti af Serbíu, heldur en Tíbet eða Taiwan af Kína. Hins vegar eiga Íslendingar eitthvað voða lítil viðskipti við Serba. Þess vegna mega Serbar alveg verða pirraðir og þess vegna er allt í lagi að viðurkenna sjálfstæði Kosovo.
Það kom fram í viðtali við utanríkisráðherra Íslands í sjónvarpsfréttunum á RÚV kl. 10 í kvöld, að Íslendingar styddu stefnu Kínverja um eitt Kína. Mér finnst líka alveg nóg að hafa eitt Kína. En það pirrar mig að hlusta á utanríkisráðherrann haga orðum sínum þannig að þau megi með einhverjum hætti túlka sem stuðning við yfirgang Kínverja við nágrannaþjóðir sem þeim hefur leyfst að pína í áratugi og aldir, sérstaklega þegar þess er getið í leiðinni að Íslendingar hafi "nokkur viðskiptatengsl" við Kína, jafnvel þó að í leiðinni sé talað um áhyggjur íslenskra stjórnvalda af ástandinu í Tíbet og hvatningu til Kínverja að virða mannréttindi. Eru ekki mannréttindi sjálfsögð krafa, sem þarf ekkert að hvetja stjórnvöld til að virða? Er ekki bara lágmark að krefjast þess? Það pirrar mig líka að það sé notað sem einhvers konar afsökun fyrir Kínverja að Kína sé ekki vestrænt lýðræðisríki!
Er ekki eitthvert allsherjar ósamræmi í þessu öllu saman? Er stefnan um eitt Kína ekki jafngild stefnunni um ein Sovétríki og eina Júgóslavíu? Eða eru Kínverjar á einhverri undanþágu vegna sérstakrar viðskiptavildar?
Segið mér endilega hvar misskilningur minn liggur. Þangað til þið eruð búin að því og ég búinn að skilja það, ætla ég að fylgja leiðarahöfundi Moggans og Önnu Pálu Sverrisdóttur að málum hvað þetta varðar - ekki utanríkisráðherranum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.3.2008 | 22:47
„Hvernig maður hugsar en ekki hvað maður hugsar“
Í sjónvarpsfréttum RÚV í kvöld var viðtal við Dr. Don Beck, sem þróað hefur áhugaverða aðferð við lausn ágreiningsmála. Þessi aðferð byggir á því að læra að skilja menningararf mótaðilans og skapa þannig virðingu fyrir aðstæðum hans. Ég viðurkenni að ég veit ekkert meira um aðferðina, en heyrist hún taka mið af þeim möguleika að ég hefði kannski einmitt gert það sama í hans sporum, þ.e.a.s. ef ég hefði fengið sömu skilaboð með móðurmjólkinni, alist upp við sömu skilyrði og öðlast sömu reynslu. Þetta er ekki spurning um að samþykkja, heldur um að skilja. Ef báðir aðilar fást til að beita þessari aðferðafræði er e.t.v. hægt að leysa erfið mál, sem annars myndu alltaf sækja í sama farið í hefðbundinni skotgrafarökræðu. Þetta virðist m.a. hafa reynst vel í Suður-Afríku, m.a. vegna þess að Nelson Mandela var fljótur að átta sig á kostum aðferðarinnar.
Aðferð Dons Beck nefnist á ensku Spiral Dynamics Integral, eða SDi. Líklega var þessi aðferðafræði rædd eitthvað á ráðstefnu sem IMG Gallup (nú Capacent) stóð fyrir á Hótel Loftleiðum 2005, en annars efast ég um að hún hafi verið í umræðunni hérlendis. Þeir sem vilja kynna sér málið nánar geta t.d. byrjað á að skoða heimasíðuna http://www.spiraldynamics.net/. Svo er líka fróðlegt að skoða http://www.integratedsociopsychology.net/. Og eitthvað er hægt að fræðast um Dr. Don Beck á Wikipediu, nánar tiltekið á http://en.wikipedia.org/wiki/Don_Beck.
Hugmyndafræðin á bak við þetta allt saman byggir m.a. á þeirri skoðun eða grundvallarreglu, að það skipti ekki máli hvað maður hugsar, heldur hvernig maður hugsar það! Eins og bent er á einhvers staðar á fyrrnefndum vefsíðum er nefnilega ekki hægt að byggja hús á hugsunum, en hins vegar er hægt að byggja betra hús með því að hugsa.
Ég vil undirstrika að með þessu bloggi er ég ekki að auglýsa þekkingu mína á Spiral Dynamics, enda er hún engin. Hins vegar væri gaman að setja sig aðeins inn í málið - og eins að heyra frá öðrum sem hafa kynnt sér það nánar. Mér finnst tímasetningin á sjónvarpsfréttinni líka skemmtileg fyrir þær sakir, að í einkar athyglisverðri ræðu sinni í Philadelfíu í fyrradag, eiginlega varnarræðu, byggði Barack Obama að mér virðist á sömu hugmyndafræði, meðvitað eða ómeðvitað, nefnilega því að maður geti ekki bara einblínt á það sem sagt er eða gert, heldur þurfi maður líka að skilja hvers vegna það var sagt eða gert. Hægt er að nálgast ræðuna m.a. á http://www.youtube.com/watch?v=pWe7wTVbLUU. (Sem áhugamanni um framsögn finnst mér nú líka frekar flott að geta flutt næstum 40 mínútna ræðu sem þessa blaðalaust án þess að segja svo mikið sem eitt sko, en það átti nú ekki að vera neitt aðalatriði í þessari bloggfærslu).
Hvað finnst ykkur?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.3.2008 | 01:20
Frásögn af Rómarmaraþoni 16. mars 2008
Í dag hljóp ég maraþon í Róm, ásamt með Ingimundi Grétarssyni. Í þessum pistli ætla ég að segja frá þessari bráðskemmtilegu upplifun.
Aðdragandinn
Ég held ég fjölyrði ekkert um aðdraganda hlaupsins, enda hef ég skrifað eitthvað um hann áður. Við skráðum okkur í hlaupið í ágúst á síðasta ári, og frá áramótum höfum við stundað fremur markvissar æfingar við fremur erfiðar aðstæður, oftast á keðjum í snjó og hálku. En allt gekk það vonum framar, nema hvað hraðinn í æfingahlaupunum varð eðlilega ívið minni en æskilegt má telja. Að morgni fimmtudagsins 13. mars lögðum við svo í hann til Rómar, ásamt með lífsförunauti mínum síðustu 30 árin, Björk Jóhannsdóttur. Í Róm slóst einnig Auður H Ingólfsdóttir, fyrrverandi vinnufélagi minn í hópinn, kominn beina leið frá Skopje í Makedóníu, þar sem hún vinnur fyrir UNIFEM. Föstudagurinn og laugardagurinn voru nýttir í andlegan og menningarlegan undirbúning hlaupsins, m.a. með heimsókn í páfagarð. Í Péturskirkjunni var verið að vígja nunnur, en Benedikt XVI var hvergi sjáanlegur.
Dagurinn í dag fyrir hlaup
Hlaupið byrjaði kl. 9 í morgun. Við Ingimundur vorum mættir í morgunmat á hótelinu kl. 7.00. Ég fékk mér tvær jógúrtdollur, helling af múslíi, glas af appelsínusafa og tebolla. Kvöldið áður hafði ég borðað hráskinku, melónu, stóran bita af kjúklingi og ferska ávexti með svolitlun ís. Pasta hef ég látið ósnert að mestu síðustu daga, enda finnst mér slíkt fæði trufla meltinguna og draga úr mér kraft frekar en hitt, hvað sem öllu tali um kolvetnahleðslu líður. Ég tíunda þetta allt hér, því að mataræði fyrir hlaup og í hlaupum er oft til umræðu meðal þeirra sem stunda þessa iðju. Meira um það síðar.
Eftir morgunmatinn tókum við leigubíl niður í miðbæ, eða öllu heldur að útjaðri miðbæjarins. Miðbærinn var allur lokaður fyrir bílaumferð í tilefni dagsins, enda eins gott eins og bílakraðakið er hérna í Róm, með tilheyrandi mengun. Þarna sáum við strax fáeina hlaupara, sem allir stefndu í sömu átt, og auðvitað létum við berast með straumnum. Úr þessu varð alllöng gönguferð sem endaði á vandlega girtu svæði sunnan við Colosseum. Þarna var sem sagt undirbúningssvæði fyrir hlauparana, þar sem m.a. stóðu svo sem 20 flutningabílar, hver um sig rækilega merktur með rásnúmerum á tilteknu bili. Í þessa bíla gat maður skilað utanyfirfötum og öðrum farangri í þar til gerðum plastpokum, merktum með þar til gerðum límmiðum með númeri viðkomandi hlaupara, en þetta var hvort tveggja hluti af keppnisgögnum, sem öllum var gert að nálgast síðustu tvo eða þrjá dagana fyrir hlaup. Þarna var líka gríðarlegur fjöldi kamra, sem dugðu þó hvergi nærri til, enda mannfjöldinn á svæðinu eitthvað um 10 þúsund. Því mynduðust langar raðir hlaupara sem köstuðu af sér vatni utan í nærliggjandi múra.
Eftir nokkra dvöl á undirbúningssvæðinu fór að koma hreyfing á hlauparahópinn, ekki ósvipað því sem gerist með kindur þegar réttað er á haustin. Enginn virtist svo sem vita alveg hvert ferðinni væri heitið, en fyrr en varði hafði safnið skipt sér í þrjár ákaflega aflangar girðingar eða dilka, sem merktar voru B, C og D og viðeigandi rásnúmerum. Rásnúmerum var nefnilega úthlutað eftir fyrri árangri, sem tiltekinn var á upphaflega skráningarblaðinu. Við Ingimundur vorum í C-dilknum fyrir hlaupara með rásnúmer 4001-8000. Fyrr en varði var hópurinn tekinn að þéttast nokkru fyrir aftan rásmarkið á Via dei Fori Imperiali, rétt norðvestan við Colosseum. Næst rásmarkinu voru mestu afreksmennirnir, þá B-hópurinn og svo koll af kolli.
Veðrið og klæðaburðurinn
Veðrið í Róm í dag var sérlega hagstætt til hlaupa; sunnan kaldi, þurrt, sólarlaust að mestu og líklega um 14 stiga hiti. Venjulegur Borgnesingur getur varla hugsað sér það betra. Jafnvel vindurinn var kærkominn. Það kom því ekkert annað til álita en að hlaupa í stuttbuxum og hlírabol, og sólarvörnin var ekki spöruð, því að sólböð hafa verið með fátíðasta móti í vetur.
Hlaupið sjálft
Fyrr en varði var klukkan orðin 9 og hlaupararnir þumlunguðust af stað. Mér sýndust um það bil óendanlega margir hlauparar vera fyrir framan okkur og sami fjöldi fyrir aftan. Það leið því drykklöng stund áður en við vorum komnir á tímatökumottuna í rásmarkinu, nánar tiltekið 1 mínúta og 22 sekúndur. Fyrsti kílómetrinn var líka fremur hægur, enda nokkur þröng á þingi. Reyndar var maður aldrei einn í þessu hlaupi, heldur í misþéttum hópi hlaupara alla leið.
Mér leið vel á fyrstu kílómetrunum og var nokkuð viss um að ég gæti lokið hlaupinu á 3:40 klst. eða þar um bil. Var reyndar ákveðinn í að vera sáttur við allt undir 3:51, enda gaf hraðinn á æfingum vetrarins ekki tilefni til að búast við mikið meiru. Einhvers staðar í huganum leyndist þó draumur um að bæta besta tímann minn til þessa, 3:35:56 klst. frá því í Reykjavíkurmaraþoninu 1996. En ég gætti þess vel að láta engar slíkar hugsanir eða útreikninga ná tökum á mér, og hugsaði þess í stað um hvílík forréttindi það væru að vera kominn alla þessa leið, eftir að hafa stefnt að því í marga mánuði, í þetta frábæra veður og innan um allt þetta fólk. Það var líka ýmislegt gert til að gleðja og stytta stundir. Til dæmis spilaði stór lúðrasveit stuttu eftir að lagt var af stað.
Við Ingimundur fylgdumst að fyrstu kílómetrana. Við 5 kílómetra markið sýndi klukkan 26:22 mín, sem mér þótti bara býsna gott. Samkvæmt upplýsingum í gagnagrunni mótshaldara var ég þarna í 4005. sæti af þeim sem síðan luku hlaupinu. Það voru víst 10.511 manns. Skömmu síðar hlupum við yfir ána Tíber í fyrsta sinn, en annars bar svo sem fátt til tíðinda að 10 km markinu. Þar var tíminn 51:31 mín. og ég búinn að vinna mig upp í 3639. sæti. Ingimundur hafði aðeins gefið eftir og var 8 sek seinni yfir línuna.
Yfirleitt var hlaupið á malbiki, en á nokkrum köflum í miðbænum var hlaupið á gömlum hellusteinum. Það fannst mér frekar óþægilegt, því að þeir voru býsna harðir og sums staðar í ósléttara lagi. Í þokkabót urðu þeir mjög sleipir í kringum drykkjarstöðvar og svampastöðvar, þar sem miklu var sullað niður af vatni. Drykkjarstöðvar voru annars á 5 km fresti, og 2,5 km síðar var hægt að fá blauta svampa til að kæla sig og bleyta.
Við 10 km markið var aftur hlaupið austur yfir Tíber og áfram upp með ánni þeim megin. Allt gekk eins og í sögu, ég fann lítið fyrir þreytu og jók heldur hraðann ef eitthvað var. Við 15 km markið var tíminn 1:16:17 klst. og enn hafði ég færst framar í röðina, kominn í 3475. sæti. Ingimund hafði ég ekkert séð síðustu 5 kílómetrana, en hann var þó bara 15 sekúndum á eftir mér þegar hér var komið sögu. Til marks um mannmergðina má nefna að á þessu 15 sekúndna bili voru um það bil 65 hlauparar.
Eftir 15 km markið fór ég aðeins að finna fyrir þreytu og taldi næsta víst að nú færi að hægjast á mér. Ég var einmitt að hugsa um þetta þegar ég hljóp yfir Tíber í 3. sinn, nú til vesturs yfir Cavour-brúna skammt frá Vatíkaninu. Mitt í þessum hugsunum kom ég auga á ljóshærða konu meðal áhorfenda með íslenskan og kanadískan fána í hendinni. Bara það að sjá íslenska fánann gaf mér nýjan kraft og auðveldaði mér næsta áfanga.
Þegar hlaupið var hálfnað var ég enn búinn að bæta stöðu mína, kominn í 3325. sæti með tímann 1:46:44 klst. Þóttist muna að það væri talsvert lakari tími en þegar ég var hálfnaður með fyrsta maraþonhlaupið mitt 1996, en var samt nokkuð viss um að geta haldið mig nálægt 3:40 klst. Auk þess var ég allan tímann ákveðinn í að mér væri svo sem alveg sama um tímann, þetta væri fyrst og fremst stórkostleg upplifun og ómæld gleði. Þessu viðhorfi tókst mér að halda allt til enda, enda finnst mér að öll hlaup eigi að vera skemmtiskokk.
Rétt fyrir 25 km markið var hlaupið yfir Tíber í síðasta sinn. Eftir 25 km sýndi klukkan 2:05:59 klst, sem þýddi að enn var ekkert farið að hægjast á mér. Þarna reiknaði ég út að ef ég næði að hlaupa 40 km á 3:24 eða skemmri tíma, myndi ég bæta mig í hlaupinu nánast hvað sem á gengi í lokin. Ég ákvað líka að ég væri að hlaupa þetta hlaup sem sigurvegari. Eitthvað fundust mér kílómetrarnir samt vera farnir að lengjast. Fyrr en varði voru þó 30 slíkir að baki, tíminn kominn í 2:31:05 og ég kominn upp í 2882. sæti. Ég hljóp náttúrulega með GPS-garminn minn eins og venjulega, en þegar hér var komið sögu var komið upp mikið misræmi í vegalengdarmælingunni, sérstaklega eftir að gervihnattasambandið rofnaði þegar hlaupið var í gegnum veggöng. Eftir það notaði ég hann bara sem skeiðklukku, en lét skipuleggjendur hlaupsins algjörlega um kílómetratalninguna, enda allar merkingar framúrskarandi greinargóðar.
Nú fórum við að nálgast miðbæinn og áhorfendum fjölgaði að sama skapi. Glaðlegir og hvetjandi áhorfendur skipta ótrúlega miklu máli, sérstaklega þegar fæturnir fara að þyngjast. Einhvers staðar á næstu kílómetrum sá ég líka aðra konu með íslenskan fána og fékk aftur svolítinn aukakraft.
Það er auðvitað frábært að fá tækifæri til að kynnast borg á borð við Róm í svona hlaupi. Hins vegar verð ég að viðurkenna að á síðustu 10 kílómetrunum fór ýmislegt fram hjá mér sem fyrir augu bar. Þetta sé ég vel þegar ég skoða kort af borginni eftir á. Við 35 kílómetra markið var ég t.d. nýbúinn að hlaupa fram hjá Piazza Navona. Þarna var ég í 2652. sæti með tímann 2:56:05 klst. Eftir þetta lá leiðin upp Via del Corso, sem með góðum vilja er hægt að þýða sem Hlauparagötu. Þar var krökkt af fólki og stemmingin aldeilis frábær. Við Piazza del Popolo voru búnir 37,5 km. Klukkan sýndi 3:06:51 klst. og ég var kominn í sæti nr. 2535. Vissulega var þreyta farin að gera vart við sig og líka dálítil óþægindi ofan á tá, sem skórnir voru að angra. En enn var gleðin til staðar. Og einhvers staðar á 38. eða 39. kílómetranum kom ég auga á Björk og Auði á hliðarlínunni. Það var eiginlega hápunktur hlaupsins og nóg til þess að eyða allri þreytu í nokkrar mínútur. Sjálfsagt myndi eitthvað hægjast á mér, en 40 kílómetrarnir hlytu að nást undir 3:24 klst. og þar með hlyti ég að ná mínum besta tíma. Þetta gekk eftir. Við 40 km strikið sýndi klukkan 3:21:58, eða 2 mín. betri tíma en ég hafði ákveðið að vonast eftir. Og til að halda röðinni enn til haga, þá var ég kominn upp í 2403. sæti. Þarna var gleðin algjörlega komin til að vera og brosið fór ekki af það sem eftir var. Þegar 40 km eru að baki er óþarfi að hugsa meira um þreytta fætur. Síðasti hluti hlaupsins var niður langa aflíðandi brekku hálfhring í kringum Colosseum og svo var þetta bara búið! Tíminn var 3:33:00 klst. og af þessum 10.511 hlaupurum var ég í 2256. sæti, búinn að fara fram úr u.þ.b. 1.750 manns frá því við 5 kílómetra markið.
Þegar í mark var komið tók við hefðbundinn tími við að jafna sig, ná sér í hressingu, komast í föt, gleðjast með sjálfum sér yfir árangrinum og þar fram eftir götunum. Líkamlegt ástand mitt var gott, mun betra en eftir fyrri maraþonhlaup. Ég gat meira að segja bæði sest og staðið upp án vandkvæða. Og gleðin var enn á sínum stað. Svo fór ég auðvitað að huga að Ingimundi. Hann skilaði sér skömmu síðar, í 3137. sæti á 3:42:54 klst.
Fæðan
Fyrr í þessum pistli tíundaði ég matartekjuna fyrir hlaup. Það sem maður lætur ofan í sig á meðan á hlaupinu stendur skiptir auðvitað ekki síður miklu máli. Ég var löngu ákveðinn í að nota eingöngu orkugel og vatn í þetta sinn. Helst vil ég nefnilega geta stjórnað þessum málum sjálfur eftir fyrirfram gerðri áætlun. Það borgar sig ekki að hugsa um svona hluti í hlaupinu sjálfu, því að þá vill dómgreindin stundum bregðast. Ég er alveg hættur að drekka orkudrykki í svona hlaupum. Hér gildir að ég held það sama og víðar, að það borgar sig ekkert að vera rugla með tegundir. Reyndar er Gatorade kannski í lagi, en Powerade er mér meinilla við þar sem það inniheldur sætuefni sem mér finnst bara fylla mann óþægindum og andleysi. Með því að taka sjálfur með sér orkugel, sem er jú vel að merkja í fyrirfram ákveðinni skammtastærð, getur maður frekar haft yfirsýn yfir næringarástandið. Föst fæða er í banni hjá mér á hlaupum.
Innihald fyrsta gelpokans gleypti ég 10 mín. fyrir hlaupið. Sá innihélt reyndar svolítið af koffeini. Síðan tók ég einn gelpoka á nákvæmlega 7 km fresti allt hlaupið, með þeirri undantekningu að ég tók einn slíkan eftir 20 km en ekki 21 eins og ég ætlaði. Þetta gerði ég til að spara vatn. Það þarf nefnilega tvo gúlsopa af vatni með hverjum gelpoka. Ég tók með mér tvo litla vatnsbrúsa í drykkjarbelti til að drekka með gelinu og dreypa á á milli drykkjarstöðva, en mjög var gengið á þær birgðir þegar hlaupið var hálfnað. Þess vegna var hentugt að samræma gelát viðkomu á drykkjarstöð. Gelpokinn sem ég tók eftir 28 km innihélt aftur koffein og síðasta pokann tók ég eftir 35 km. Ég fann auðvitað fyrir þreytu síðustu kílómetrana, en varð aldrei orkulaus og stífur, hljóp sem sagt aldrei á neinn vegg, sem m.a. sést á því að ég kláraði seinni helming hlaupsins á 28 sek. betri tíma en þann fyrri (1:46:44/1:46:16).
Einhvers staðar sá ég ráðlagt að taka gelpoka á hálftíma fresti. Gerði það í Reykjavíkurmaraþoninu í fyrra, en var búinn að fá meira en nóg undir lokin. Af reynslu dagsins í dag held ég að þessi 7 km regla sé bara fín.
Andlega hliðin
Það er erfitt að hlaupa Maraþon. Hlaupið í dag undirstrikaði þó það sem ég vissi áður, að árangurinn ræðst ekki síður af hugarástandi en ýmsu öðru. Frásögnin af konunum með fánana og eiginkonu og vinkonu við brautina segja sitt um upplifun mína í þessu sambandi. Ég einsetti mér það líka að halda í gleðina eins lengi og stætt væri. Það tókst. Maður þarf aðeins að hafa hemil á hugsununum í svona hlaupi, því að þær geta bæði verið besti samherji manns og svarnasti andstæðingur. Mér tókst að sveigja þær til hlýðni í dag.
Úrslit hlaupsins
Úrslit þessa 14. Rómarmaraþons er hægt að finna á heimasíðu hlaupsins, www.maratonadiroma.it. Ég má samt til með að geta þess, að í hlaupinu í dag náðist besti tíminn sem nokkur kona hefur náð á ítalskri grundu. Þar var rússneski stórhlauparinn Galina Bogomolova á ferð, en hún vann kvennaflokkinn með yfirburðum á 2:22:53 klst. Galina er 12. besti maraþonhlaupari sögunnar og á reyndar aðeins betri tíma en þann sem hún náði í dag. Í karlaflokki unnu Kenýamenn sexfalt, auk þess að vera í 8., 10., 11., 12. og 13. sæti. Jonathan Yego Kiptoo vann á góðum endaspretti á 2:09:58 klst., 4 sek. á undan landa sínum Philip Kimutai Sanga. Af öðrum sérlega athyglisverðum úrslitum má nefna afrek Richards Whitehead, sem lauk hlaupinu á 3:39:00 klst. á gervifæti frá Össuri og bætti fyrri tíma sinn um 14 mínútur! Svo setti Svisslendingurinn Kerstin Metzler líka heimsmet í maraþonhlaupi afturábak á 4:42:39 klst. Okkur Ingimundi datt helst í hug þegar við sáum aðfarirnar hjá afturábakhlaupurunum, að líklega hefðu þeir ekki fattað að það væri miklu þægilegra að snúa sér hinsegin. En að hlaupa aftur á baka á 4:42 er náttúrulega ótrúlegt afrek. Lundúnabúinn Michael Ian Sharman gerði sér líka lítið fyrir og hljóp maraþonið á 2:52:57 klst., klæddur sem Elvis Presley. Mér skilst að það sé jafnvel heimsmet í þeim flokki. Loks má nefna að rúmlega 65 þúsund manns tóku þátt í 4 km skemmtiskokki í Róm í dag.
Lokaorð
Þetta er orðinn lengri pistinn en ætlað var og þokkalega sjálfhverfur. Ef einhver nennir að lesa hann og finnur í honum eitthvert gagn eða gaman, þá er tilganginum náð. Síðasti dagurinn í þessu Rómarævintýri er að kveldi kominn.
Bloggar | Breytt 20.3.2008 kl. 23:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
16.3.2008 | 14:31
Komnir í mark :-)
Við Ingimundur erum komnir í mark í Rómarmaraþoninu. Þetta var náttúrulega bara algjört ævintýri frá upphafi til enda, veðrið frábært og stemmingin ótrúleg.
Ég skrifa meira um hlaupið fljótlega, en núna ætla ég bara að segja frá árangrinum. Ég hljóp sem sagt á 3:33:00 klst og bætti persónulega metið mitt frá 1996 um 2:56 mín. Gríðarlega sáttur með það. Ingimundur stóð sig líka frábærlega og kom í mark á 3:42:54 klst. Þetta eru "flögutímar", þ.e.a.s. sá tími sem það tók okkur að hlaupa frá rásmarkinu að endamarkinu.
En sem sagt: Meira um þetta ævintýri síðar. Þangað til verður þessi mynd að nægja. Björk tók hana áðan þegar við vorum komnir á hótelið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Tenglar
Gamla bloggið
- Gamla bloggið Bloggfærslurnar mínar 11/1 2007 - 29/2 2008
Síðurnar mínar
- Fjallvegahlaup Bráðabirgðasíða um Stóra Fjallvegahlaupaverkefnið :-)
- Olíuhreinsistöð Umhverfisþættir í rekstri olíuhreinsistöðva
Börnin mín (sum)
- Keli Frumburðurinn
- Jóhanna - myndir Myndirnar hennar Jóhönnu á Flickr
Vinir og ættingjar
- Hörpumyndir Aðallega Ragnar Ingi auðvitað
Frjálsar og hlaup
- FRÍ Frjálsíþróttasamband Íslands
- Hlaup.is Hlaupasíðan
- Hlaupadagbókin Segir ALLA söguna
- Sænska FRÍ Sænska frjálsíþróttasambandið
- Alþjðafrlsítrasambndð Heimasíða Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins, IAAF
Umhverfismálin
- Orð dagsins Af vettvangi Staðardagskrár 21
- UMÍS ehf. Environice Fyrirtækið mitt :-)
- Svanurinn í Noregi Svanur eins og svanir eiga að vera
- Miljø og sundhed Informationscenter for miljø og sundhed í Danmörku
- Landvernd Landvernd
- Náttúran.is Verðandi umhverfisvefur númer eitt