Bloggfærslur mánaðarins, september 2008
30.9.2008 | 12:20
„Allir græða á hlaupum“
Já, það græða allir á hlaupum! Þetta eru mikilvæg skilaboð á tímum þegar peningalegur gróði virðist fallvaltur. Þessi skilaboð flutti Haile Gebrselassie heimsbyggðinni eftir að hafa bætt heimsmetið í maraþonhlaupi í Berlín í fyrradag.
Running is very important in the whole world. Everyone can profit from it. It does not matter if you are the President of the United States or any other person. If you run you will profit because it is a healthy sport,
svo notuð séu hans óbreytt orð. Allir út að hlaupa!
Haile Gebrselassie í Berlín sl. sunnudag. Myndin er fengin að láni af vef Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins, sjá http://www.iaaf.org/LRR08/news/newsid=47883.html
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.9.2008 | 09:16
Fjárskortur í umhverfisgeiranum?
Eins og fram kemur í Orðum dagsins í dag gæti yfirstandandi lausafjárkreppa seinkað þróun lífeldsneytis, bæði vegna þess að lánsfé er nú dýrara og óaðgengilegra en áður og vegna þess að stjórnvöld einstakra ríkja gætu neyðst til að draga úr styrkjum og niðurgreiðslum til rannsókna og framleiðslu á endurnýjanlegri orku. Þannig hefur Barack Obama, forsetaefni Demókrataflokks Bandaríkjanna, sagt að hann gæti þurft að endurskoða áætlanir sínar um fjárfestingar í endurnýjanlegri orku, til að vega að einhverju leyti upp á móti hugsanlegu 700 milljarða dollara neyðarframlagi ríkisins til fjármálageirans.
Þetta eru náttúrulega slæmar fréttir, sem þurfa þó ekki að koma neinum á óvart. En eins og nefnt er í frétt PlanetArk/Reuter, sem Orð dagsins byggja á, ríkir engu að síður ákveðin bjartsýni meðal þeirra sem vinna að þróun nýrra orkugjafa. Þeir binda nefnilega vonir við að fjárfestar beini fjármagni sínu í auknum mæli í þessa átt, enda næsta fyrirsjáanlegt að fjárfestingar í endurnýjanlegum orkugjöfum muni skila öruggri ávöxtun til langrar framtíðar. Aukinn áhugi fjárfesta gæti því vegið upp þann skort á lausafé sem greinin stendur annars frammi fyrir.
Svona rétt til fróðleiks má geta þess að samanlagt uppsett afl sólarorkuvera jókst um 62% milli áranna 2006 og 2007, þ.e. úr 1.744 MW í 2.826 MW. Þessi tala hefur 135-faldast síðan 1985! Þá jókst samanlagt uppsett afl vindorkuvera um 27% milli áranna 2006 og 2007 og var komið í 94.112 MW í árslok.
Þeir sem vilja kynna sér vöxt sólar- og vindorkugeirans geta m.a. notast við eftirfarandi tengla:
http://www.solarbuzz.com/
http://www.gwec.net/
http://www.ewea.org
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.9.2008 | 14:59
Ég kýs
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
29.9.2008 | 10:16
Ríkismaraþon
Ég er nú barasta að velta því fyrir mér, í beinu framhaldi af síðustu færslu, hvort Glitnismaraþonin í Reykjavík og Osló verði þá Ríkismaraþon á næsta ári. Eða er ríkið kannski bara að leggja af stað í sitt eigið maraþon, sem ekki sér fyrir endann á? Eða er þetta bara spretthlaup, þannig að eftir stutta stund verði hægt að varpa mæðinni og þurrka svitann? Eða er þetta kannski alls ekki spurning um spretthörku eða úthald, heldur um nýja uppskrift að hamingju, sem felst í því að komast yfir eignir, kreista úr þeim safann og leyfa ríkinu að sjá um afganginn, svo að hægt sé að byggja hann upp að nýju til að selja öðrum hann fyrir lítið, til að þeir geti aftur kreist safann og leyft ríkinu aftur að sjá um afganginn, svo að hægt sé............?
Þegar ég var í menntaskóla (fyrir ákaflega örfáum árum) var sett þar upp skemmtilegt leikrit, sem ég man ekki lengur hvað hét. Þar í var skemmtilegt lag og skemmtilegur texti, sem ég held að ég muni enn brot úr - eitthvað á þessa leið:
Nú skal gera góða veislu,
efla sam- og einkaneyslu,
eta og drekka eins og hver torgar,
því að ríkið brúsann borgar.Ergo: Betlið, eyðið svíkið!
Allan kostnað greiðir ríkið!
Ég veit ekkert af hverju þetta rifjaðist upp núna. En ef einhver man eftir þessum texta og veit hver er höfundur hans, þætti mér gaman að frétta af því.
Ríkið eignast 75% í Glitni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.9.2008 | 09:15
Mikil hlaupahelgi afstaðin
Mér finnst skemmtilegt að Mette Marit skyldi hafa skellt sér í Glitnismaraþonið í Osló. En tímann hennar vantar í fréttina. Hún hljóp sem sagt á 1:19:04 mín og varð í 52. sæti í flokki kvenna 35-39 ára.
Krónprinsessan var nú ekki aldeilis ein á hlaupum um helgina! Hæst ber auðvitað lengsta hlaup Íslandssögunnar, nefnilega hlaup Gunnlaugs Júlíussonar í fótspor Pheidippidesar milli Aþenu og Spörtu. Þetta eru heilir 246 km, sem Gunnlaugar lagði að baki á rúmum 34 klukkustundum (34:12:17 klst). Þetta er auðvitað algjörlega einstakt!
Svo má nú ekki gleyma Íslendingunum í Berlínarmaraþoninu í gær. Ef mér skjátlast ekki komu hvorki fleiri né færri en 58 Íslendingar í mark í því hlaupi, þó að enginn þeirra kæmist reyndar með tærnar þar sem Haile hafði hælana. En mikið hlýtur nú að hafa verið gaman að taka þátt í hlaupi þar sem heimsmetið var slegið. Fljótasti Íslendingurinn í Berlín var Óskar Jakobsson skíðagöngumaður, á 3:01:40 klst. Næstur var svo Jóhann Karlsson á 3:06:03 klst, sem væri nú kannski ekki í frásögur færandi nema fyrir þá sök að maðurinn fæddist árið 1948! Þetta var sem sagt Íslandsmet í flokki 60 ára og eldri. Ég segi nú bara eins og Megas: Og hugsa með mér, vá, svona vil ég verða þegar ég er orðinn stór!
Sjálfur hljóp ég líka um helgina, nánar tiltekið um fjöll og dali í Bitrufirði. Smalaði nokkrum kindum. Það var fínt, sko.
Krónprinsessa í Glitnishlaupi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.9.2008 | 10:39
Ný grein: Fróðleiksferðamennska?
Á dögunum fékk ég athyglisverðan tölvupóst frá ungri konu í Svíþjóð, þar sem hún var að leita eftir góðum ráðum við allsérstæðu vandamáli sem plagar sænsk sveitarfélög og opinberar stofnanir. Svíar hafa nefnilega tekið svo afgerandi forystu í ýmsum þáttum umhverfismála að þangað streyma heilu sendinefndirnar víða að til að fræðast um það hvernig Svíar leysi hin ýmsu viðfangsefni, svo sem sjálfbært skipulag borga og bæja, stjórnun úrgangsmála og uppbyggingu sjálfbærra orkukerfa. Nú er svo komið að margir opinberir starfsmenn hafa ekki undan að taka við gestum og útskýra fyrir þeim hvernig hin ýmsu umhverfismál eru leyst í viðkomandi stofnun. Í mörgum tilfellum er þarna um að ræða hreina viðbót við daglega vinnu þessa fólks, þannig að þessar annars ánægjulegu heimsóknir eru orðnar býsna íþyngjandi.
Ég hef ekki þurft að glíma mikið við þetta sérstæða vandamál og á því ekki mörg góð ráð fyrir þessa ungu konu. Hins vegar sé ég auðvitað ýmis tækifæri í vandamálinu og held að Svíar ættu sem best að geta nýtt sér þau. En ástæðan fyrir því að ég skrifa þessa bloggfærslu er ekki umhyggja fyrir Svíum, þó að ég líti vissulega á þá sem frændur mína og vini. Ég er miklu fremur að minna á þau tækifæri sem liggja í því bæði fyrir þjóðir og einstök svæði, að vera í fararbroddi á einhverju sviði.
Ég veit að nú þegar kemur slatti af fólki til Íslands á hverju ári til að fræðast um nýtingu jarðvarma og fleira þess háttar. Ég sé hins vegar fyrir mér að ákveðnari stefnumótun og meiri kjarkur til að nýta Ísland sem tilraunastöð fyrir verkefni í anda sjálfbærrar þróunar, myndu skapa veruleg tækifæri í ferðaþjónustu! En þá þarf maður náttúrulega líka að vita hvernig maður ætlar að bregðast við, þannig að þessi nýja tegund ferðamanna skapi gestgjöfunum og þjóðarbúinu tekjur en ekki bara "some headache to [...] civil servants", svo ég stelist nú til að vitna orðrétt í umræddan tölvupóst.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.9.2008 | 20:14
Búskaparhorfur á Mýrum
Örlítill viðauki við fyrri skrif mín um breytingar á eignarhaldi í Sparisjóði Mýrasýslu:
Mýrarnar fundust mér flatar
og forblautar meðan ég sat þar,
hvergi stuðning að fá.
En nú stóla ég á
Stofnlánadeildina' í Qatar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
23.9.2008 | 13:46
Er norræn samkennd að hverfa?
Ég er algjörlega sammála menningar- og menntanefnd Norðurlandaráðs um að nú séu síðustu forvöð að bjarga hinu norræna tungumálasamfélagi. Ég veit að margir Íslendingar vilja gjarnan hafa samskipti við annað norrænt fólk á ensku, frekar en á einhverju norrænu máli (norsku, sænsku, dönsku eða einhverri blöndu af þessu þrennu). Þetta er skiljanlegt eins og málum er háttað, en ég held samt að fólk átti sig almennt ekkert á því hvað er í húfi. Tungumál er nefnilega ekki bara tungumál. Það er flestu öðru fremur þessi skyldleiki tungumálanna sem gerir norrænt samstarf að því sem það er. Um leið og við gefumst upp á því að viðhalda getunni til að hafa samskipti á norrænum málum, er líklegt að norrænt samstarf líði undir lok, ekki skyndilega heldur smátt og smátt. Menn munu sem sagt vakna upp við það einn daginn að það sem tengdi okkur saman, hvað sem það nú annars var, sé ekki lengur til staðar.
Nú eru síðustu forvöð að bretta upp ermarnar. Það þurfa norrænu menntamálaráðherrarnir að gera. Það þarf að útrýma leiðindunum úr norrænu tungumálanámi og hrinda í framkvæmd hinni metnaðarfullu stefnu um norræna tungumálakunnáttu, sem sagt norrænu tungumálayfirlýsingunni frá 2006.
Látum ekki um okkur spyrjast að "vi har lagt en plan, men husker ikke hvor vi lagt den", eins og norskur kunningi minn orðaði það á dögunum!
PS: Það er ágæt æfing í norrænunni að lesa frétt um þetta sama mál á heimasíðu Norðurlandaráðs.
Hörð gagnrýni á norræna menntamálaráðherra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
22.9.2008 | 14:12
Sparisjóðurinn kominn á þurrt?
Sjeik kaupir 5% í Kaupþingi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.9.2008 | 18:43
Ráðstefnurotta
Í þessari viku breyttist ég í ráðstefnurottu. Ráðstefnurotta er svona manndýr sem er ábúðarfullt eða jafnvel gáfulegt á svipinn og sækir hverja ráðstefnuna á fætur annarri til að geta haldið áfram að vera mikilvægt án þess að þurfa að mæta í vinnuna. Ef mig misminnir ekki var það Guðbergur Bergsson sem lýsti þessu hugtaki fyrstur manna fyrir framan fullan sal af ráðstefnugestum á einhverri bókmenntaráðstefnu fyrir afar mörgum árum.
Ég ætlaði aldrei að verða ráðstefnurotta. Það gerðist bara. Fyrst var ég á norrænni sjálfbærniráðstefnu í Óðinsvéum á mánudag, þriðjudag og miðvikudag. Gerði ekkert gagn þar, en hélt gáfusvipnum alveg sæmilega. Var svo í Reykjavík í gær og í dag á ráðstefnu um rafmagnsbíla og fleira þvíumlíkt. Gerði ekkert gagn þar heldur, en fannst gaman að hlusta á suma framsögumennina, sérstaklega ævintýramanninn Bertrand Piccard, sem ætlar að verða fyrstur til að fljúga í kringum Jörðina á sólarorkuknúinni flugvél. Árið 1999 varð hann fyrstur manna til að fljúga kringum Jörðina í loftbelg, án millilendingar. Meðal margs annars sem hann sagði var þetta: Hvernig skiptir maður um viðhorf í loftbelg? Jú, maður verður að losa sig við eitthvað af ballestinni. Allt í lagi að íhuga þetta aðeins.
Kannski er allt þetta ráðstefnustand bara gagnlegt eftir allt saman. Samt rifjast stundum upp fyrir mér veggspjald sem ég fann einhvers staðar fyrir nokkrum árum. Best að leyfa ykkur að sjá það líka, þó að ég sé löngu búinn að gleyma hvaðan það kom.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tenglar
Gamla bloggið
- Gamla bloggið Bloggfærslurnar mínar 11/1 2007 - 29/2 2008
Síðurnar mínar
- Fjallvegahlaup Bráðabirgðasíða um Stóra Fjallvegahlaupaverkefnið :-)
- Olíuhreinsistöð Umhverfisþættir í rekstri olíuhreinsistöðva
Börnin mín (sum)
- Keli Frumburðurinn
- Jóhanna - myndir Myndirnar hennar Jóhönnu á Flickr
Vinir og ættingjar
- Hörpumyndir Aðallega Ragnar Ingi auðvitað
Frjálsar og hlaup
- FRÍ Frjálsíþróttasamband Íslands
- Hlaup.is Hlaupasíðan
- Hlaupadagbókin Segir ALLA söguna
- Sænska FRÍ Sænska frjálsíþróttasambandið
- Alþjðafrlsítrasambndð Heimasíða Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins, IAAF
Umhverfismálin
- Orð dagsins Af vettvangi Staðardagskrár 21
- UMÍS ehf. Environice Fyrirtækið mitt :-)
- Svanurinn í Noregi Svanur eins og svanir eiga að vera
- Miljø og sundhed Informationscenter for miljø og sundhed í Danmörku
- Landvernd Landvernd
- Náttúran.is Verðandi umhverfisvefur númer eitt
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.12.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 14
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 12
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar