Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Góðir grannar - og mikilvægi fjölbreytninnar

Hverjum sem allt er að kenna, er gott að finna fyrir vinarþeli nágrannanna. Mér finnst líka, að ef það er rétt sem margir segja, að dagar íslensku krónunnar séu senn taldir, þá eigi að skoða myntsamstarf við Norðmenn með mjög opnum huga áður en rýnt er í aðra möguleika. Ýmsir hafa bent á hversu mikla samleið þessi tvö ríki eigi vegna atvinnuvega sinna og stöðu gagnvart Evrópu, en hér kemur enn fleira til. Samstarf milli ríkja, myntsamstarf sem annað, snýst nefnilega ekki bara um hagstærðir í samtímanum, heldur um margt fleira. Þetta „margt fleira“ er gjarnan afgreitt í umræðunni sem „mjúkir pakkar“ sem engu máli skipta á ögurstundu. Viðskiptaleg sjónarmið og hagstærðir verði jú að hafa algjöran forgang. En tilfellið er að þessir „mjúku pakkar“ skipta sköpum varðandi hagstærðir framtíðarinnar.

Öll erum við skammsýnt fólk, enda skammsýnin mannleg. Við erum afar upptekin af líðandi stundu og finnst oft að það sem á okkur dynur sé það mesta, besta eða versta á ævinni, eða í sögu þjóðarinnar. En þegar við stöndum frammi fyrir stórum ákvörðunum, t.d. ákvörðunum um náið samband við önnur ríki eða ríkjasambönd, þá hreinlega verðum við að rýna aðeins lengra fram í tímann. Þegar við tölum um hugsanlega aðild að Evrópusambandinu, þá megum við t.d. ekki bara tala um Evrópusambandið eins og það er í dag. Ákvörðunin um inngöngu eða ekki inngöngu snýst nefnilega algjörlega um Evrópusambandið eins og það verður eftir 10 ár, eða jafnvel enn lengri tíma. Þá verður sambandið allt annað samband en það er í dag. Hvorki ég né neinn annar getur sagt til um hvernig það samband lítur út, en þó er auðvelt að geta sér þess til að þungamiðja sambandsins verði suðaustar í Evrópu en hún er nú. Það verða ekki lengur „vinir okkar“ Bretar, Frakkar og Þjóðverjar sem verða leiðandi öfl í þessari stóru heild. Kannski er það bara í góðu lagi, en það er ekki í góðu lagi að trúa því að valdahlutföll og áherslur breytist ekki verulega á næstu árum og áratugum!

Pakkar sem virðast „mjúkir“ í dag verða „harðir“ í framtíðinni. Ég er þannig ekki í nokkrum vafa um að samstarf með þjóðum sem byggja á svipaðri arfleifð og við, sé líklegra til að skila okkur inn í farsæla framtíð en samstarf með öðrum þjóðum, hversu ágætt sem það annars getur verið. Þættir eins og tungumál, menning, gildi og saga geta virst mjúkir pakkar, sem menn telja sig ekki hafa efni á að taka tillit til. En það gætu einmitt verið þessir pakkar sem skipta sköpum í þeirri framtíð sem við þurfum að fikra okkur inn í.

Ég tel afar mikilvægt að viðhalda sem best þeirri sérstöðu sem við höfum sem þjóð, jafnvel þó að sú sérstaða hafi kannski komið okkur í koll. Vandamálin sem við er að etja eru engan veginn afleiðing sérstöðunnar, heldur afleiðing þess að við kunnum ekki að höndla sérstöðuna.

Sérstaðan er frábrugðin meðalmennskunni að því leyti, að í henni felast tækifæri, ekki aðeins fyrir þá sérstæðu, heldur alla hina líka. Breytileikinn er nefnilega forsenda nýsköpunar og framfara! Þess vegna snúast ákvarðanir um framtíð okkar ekki bara um framtíð okkar, heldur líka um framtíð annarra þjóða og möguleika heimsbyggðarinnar til sjálfbærrar þróunar. Það er ekki bara nauðsynlegt fyrir okkur að viðhalda sérstöðunni. Það er líka nauðsynlegt fyrir alla hina að við gerum það!


mbl.is Gagnrýnir hin Norðurlöndin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þetta málið?

færeyskur 50kall web
Á síðasta ári kom ég mér upp álitlegum gjaldeyrisvarasjóði. Hann er allur á myndinni hérna fyrir ofan. Hef geymt hann í veskinu mínu frá upphafi - og viti menn: Veskið hefur aldrei verið tómt síðan! Kannski er þetta bara málið, eins og Árni Johnsen benti á í gær.


Eftirsjá í „kreppunni“

Burt er horfinn úr mér allur kraftur,
einskisnýt í vösum krónugrey.
Ég vildi’ að það væri kominn ágúst aftur
"when all my trouble seemed so far away".


Út að hlaupa á keðjum

Yaktrax-keðjur (Yaktrax Pro)Ég hef sagt það áður og segi það aftur, að það er algjör bylting að eiga Yaktrax-keðjur til að hlaupa á. (Tek það fram að ég er ekki á prósentum). Ég keypti þetta forláta keðjupar í Afreksvörum 25. janúar sl. (til að vera nú sæmilega nákvæmur) og hef notað það töluvert síðan, m.a. í eftirminnilegri Bjarmalandsför um Rauðskörð milli Ólafsfjarðar og Héðinsfjarðar seint í júní. Já, annars notaði ég þær reyndar ekkert í sumar, en nú er kominn keðjutími aftur.

Á keðjunum er svo sem hægt að hlaupa í hvernig færi sem er. Þær gera mér með öðrum orðum kleift að hlaupa á veturna eins og ekkert sé, þó að úti sé snjór og hálka. Í ljósi reynslunnar held ég að það sé ennþá nauðsynlegra að hlaupa úti á veturna en á sumrin, hvort sem horft er á andlegu eða líkamlegu hliðina. Þess vegna eiga allir að fá sér svona keðjur undir hlaupaskóna, já eða undir gönguskóna. Það er miklu betra að vera á keðjum í hálkunni en að detta í hálkunni.

Í kvöld hljóp ég rúma 12 km á keðjunum og var rúman klukkutíma að því. Það er venjulegur þriðjudagsskammtur. Annars skiptir vegalengdin ekki öllu máli, ég held að málið sé bara að vera á hreyfingu úti í a.m.k. hálftíma.


Rafall úr vindrafstöð

Bestu þakkir fyrir allar athugasemdirnar. Það er virkilega gaman að sjá allan þennan áhuga á þessum gömlu hlutum, og fá um leið allan þennan fróðleik. Og mikið rétt, þetta er einmitt rafall, nánar tiltekið jafnstraumsrafall - eða dýnamór - úr gamalli vindrafstöð, líklega 12V, þó að ég muni það ekki lengur. Grunar að hann hafi fyrir margt löngu tekið sinn síðasta snúning og verði varla ræstur á ný.

Umrædd vindrafstöð var ef ég hef skilið það rétt uppi á bæjarþakinu heima á árunum milli 1955 og 1960. Þegar ég man fyrst eftir mér hafði stöðin hins vegar lokið hlutverki sínu og lá í bútum úti á grjótgarði, þar sem hún liggur að hluta til enn. Reyndar minnir mig að pabbi hafi á sínum tíma nýtt prófíljárnin, sem héldu stöðinni upp, til viðhalds á einhverjum allt öðrum tækjum eða tólum. Nú er ekkert eftir nema rafallinn og það sem honum fylgir - og einhverjar leifar af fylgibúnaði, sem sést á myndinni hér fyrir neðan. Ætli þetta hafi verið vindhaninn? 

Haust08 020web

Einhvern veginn held ég að tími vindrafstöðvanna hafi verið stuttur - og að saga þeirra sé kannski ekki vel varðveitt, nema þá í minni manna eins og Jóns Aðalbjörns Bjarnasonar, sem skrifaði virkilega fróðlega athugasemd við síðustu færslu. En kannski skjátlast mér, ef til vill hafa margir skrifað þykkar bækur um þennan tíma.

Ætli tími vindrafstöðvanna hafi ekki verið nokkurs konar millistig milli olíulampans og ljósavélarinnar. Þannig var það alla vega heima. Reyndar held ég að þessi vindrafstöð hafi svo sem ekki dugað í mikið meira en að lýsa upp tvær perur. Mig minnir að ein slík pera hafi verið til einhvers staðar inni í skáp þegar ég var smástrákur. En mikil framför hefur þetta samt verið. Eins og Jón Aðalbjörn nefnir, voru þessar stöðvar tengdar við rafgeyma. Geymarnir höfðu líka lokið hlutverki sínu þegar ég man fyrst eftir mér um 1960. En ytra byrðið af þeim var enn til, þ.e.a.s. sjálfur kassinn. Hann var úr þykku gleri, ferkantaður, svo sem 15x15 cm að grunnfleti og líklega um 18 cm hár. Svona kassi var alltaf notaður undir gróft salt í eldhúsinu heima. Gæti best trúað að hann væri þar enn í notkun til sömu þarfa.

Ég býst við að vindrafstöðin á þakinu heima hafi verið tekin niður árið 1959 eða 1960. Um það leyti kom fyrsta ljósavélin. Þetta var Lister díselvél, líklega eins strokks, með afl upp á 1,25 kW ef ég man rétt. Kaffivélin hérna frammi í eldhúsi þarf 1,30 kW þegar við hellum uppá. Í þá daga var vatnið í kaffið hitað á Sóló-eldavélinni og rafmagnið nánast bara notað til ljósa. Ljósavélin var samt ansi mikil bylting á sínum tíma. Vorið 1966 var keypt 6 kW tveggja strokka Listervél, og þá var hægt að fara að nota alls konar raftæki; eldavél og hrærivél og ég veit ekki hvað og hvað.

Já, það kom sem sagt fullt af réttum svörum við getrauninni, og allir eigið þið verðlaun skilin. Þau verða samt rýr. Þakklætið verður að duga. Ég þigg líka með þökkum allar frekari upplýsingar og ábendingar, bæði um svona vindrafstöðvar almennt og um þessa tilteknu stöð. Þykist vita að systkini mín og e.t.v. fleiri muni meira eftir henni en ég.

Takk enn og aftur. Aldrei hélt ég að mynd af gömlum dýnamó myndi verða svona vinsæl. Flettingarnar hafa aldrei verið fleiri á einum degi síðan ég byrjaði að blogga snemma á síðasta ári.


Getraun frá horfinni öld

Ég fann þennan ryðgaða hlut á æskustöðvunum um daginn. Getur einhver (annar en systkini mín) giskað á hvað þetta er? Vísbending: Hluturinn er hluti af einhverju stærra og var síðast í notkun á árunum fyrir 1960.

Haust08 018web


Margur verður af aurum api

Sagt er að margur verði af aurum api -
og allir vita hvað það getur þýtt.
En ef ég lendi í óskaplegu tapi,
ætli ég verði þá maður upp á nýtt?

Tók þátt í bráðskemmtilegu hagyrðingakvöldi í Dalabúð í gær. Þar voru líka Bjargey á Hofsstöðum, Georg á Kjörseyri og Helgi á Snartarstöðum, auk Einars Georgs Einarssonar, sem stjórnaði herlegheitunum. Vísan hérna fyrir ofan er sýnishorn af afrakstrinum. (Ath.: Hér er ekki talað um bankakreppu, nema þá hugsanlega í hálfkæringi eða bundnu máli).

Meira síðar. Kannski. Happy


Nó komment

NocommentÉg hef ákveðið að blogga ekki meira um bankakreppuna, hvorki á íslensku né ensku, nema þá hugsanlega í hálfkæringi eða bundnu máli. Að baki þessari ákvörðun liggja tvær ástæður. Annars vegar er ég ekkert sérstaklega góður í ensku, alla vega ekki nógu góður til að fyrirbyggja misskilning þegar rætt er um viðkvæm mál sem varða heill þjóðarinnar um langa framtíð. Hins vegar hef ég enga fagþekkingu á hagstjórn. Ég tel heppilegt að ég og þeir aðrir sem eru háðir annarri eða báðum þessum takmörkunum haldi sig til hlés á þessum viðsjárverðum tímum, því að allt sem sagt er eða skrifað getur haft áhrif á framvindu mála, og þau ekki endilega jákvæð.
mbl.is Davíð: Varaði ítrekað við að bankar væru í hættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það byrjar með tungumálinu

Mig langar að vekja athygli á grein sem Bertel Haarder menntamála- og samstarfsráðherra Danmerkur skrifar í Jótlandspóstinn í dag. Í greininni lýsir hann kjarna norræns samstarfs og minnir á að norrænn tungumálaskilningur er hornsteinn þess. Bertel vill að þetta atriði verði tekið til rækilegrar umfjöllunar á þingi Norðurlandaráðs í Helsinki í lok þessa mánaðar, því að nú sé virkilega þörf á að styrkja þennan sameiginlega grunn. Við Bertel erum sammála um að þessu hafi ekki verið sinnt sem skyldi á síðustu árum.

Hægt er að lesa íslenska umfjöllun um grein Bertels á heimasíðu Norðurlandaráðs, og svo er auðvitað upplagt og í anda viðfangsefnisins að spreyta sig á dönsku útgáfunni á heimasíðu Jótlandspóstsins.

Ég er ekki í vafa um að góð kunnátta í norrænum málum er mikilvægur liður í að viðhalda áratugalöngu vináttusambandi við frændur okkar á Norðurlöndunum. Enginn er svo sterkur að hann þurfi ekki vini, jafnvel þegar vel árar!


Það skyldi þó aldrei vera?

Mér finnst hugmynd Brynhildar góð, enda ekki við öðru að búast af henni. Ég er reyndar ekki viss um að auðvelt sé að hrinda hugmyndinni í framkvæmd, né að námskeið dugi til að tryggja þá tungumálakunnáttu sem nauðsynleg er í viðkvæmum samskiptum milli landa. Samt finnst mér hugmyndin góð, vegna þess að hún vekur mann til umhugsunar!

Það er einkennileg og reyndar verulega óþægileg tilhugsun, að e.t.v. hafi léleg tungumálakunnátta ráðamanna valdið mestu skakkaföllum sem um getur í stjórnmálasögu Íslands síðustu árin! Þetta mætti gjarnan rannsaka „þegar rykið er sest“, þó ekki væri til annars en að reyna að læra af mistökunum.


mbl.is Vill senda ráðamenn á tungumálanámskeið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband