Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Það borgar sig að slökkva!

grænperaÍ umræðu um umhverfismál eru margar lífseigar sögusagnir („mýtur“) á kreiki. Ein þeirra er sú, að það borgi sig engan veginn að slökkva ljósin þó að maður bregði sér frá í klukkutíma eða svo, vegna þess að það þurfi svo mikið rafmagn til að kveikja þau aftur og vegna þess að ending ljósanna minnki svo mikið ef oft er kveikt á þeim. Sérstaklega er þetta sagt eiga við um sparperur af ýmsu tagi.

Þetta er sem sagt sögusögn, sem stenst ekki nánari skoðun. Það er hins vegar eflaust rétt að það borgar sig ekki að slökkva ljós sem þarf hvort sem er að kveikja aftur eftir nokkrar sekúndur eða kannski nokkrar mínútur. Spurningin er bara hversu langur tími megi líða til að það borgi sig ekki að slökkva á meðan. Ég og samstarfsfólk mitt er oft spurt um þetta, og í fyrra lögðumst við í dálitla rannsókn. Ræddum m.a. við aðila sem selur ljósabúnað í skóla og stærri byggingar. Hann taldi að ef herbergi væri yfirgefið í lengri tíma en 15 mínútur, þá borgaði sig líklega að slökkva. Og ef tíminn væri lengri en 30-60 mínútur, þá væri þetta alveg öruggt. En í svona útreikningum þarf auðvitað að taka tillit til tegund pera, tegund startara í ljósum, orkuverðs o.s.frv.

Það er erfitt að kveða niður sögusagnir. Þær komast nefnilega á kreik án þess að fyrir þeim þurfi að vera nein rök. Hins vegar þýðir ekkert að reyna að kveða þær niður án þess að vera með rökin alveg á hreinu. Þetta er sem sagt ekki alveg jafn leikur, ef svo má segja. Sögusagnir eru líka oft vinsælli en leiðréttingar.

Robin Green, eigandi vefsíðunnar Green-Energy-Efficient-Homes.com, nálgast sögusögnina um ljósin sem ekki borgar sig að slökkva með býsna skýrum og skemmtilegum hætti. Röksemdafærslu hans um þetta má lesa á slóðinni http://www.green-energy-efficient-homes.com/turn-off-lights.html. Þar tekur hann m.a. fyrir þá staðhæfingu að pera eyði jafnmikilli orku á þeirri sekúndu sem kveikt er á henni og á venjulegum 5 mínútum sem hún logar. Í lauslegri þýðingu og endursögn er röksemdafærsla Robins nokkurn veginn þessi: 

Hugsum okkur 100 watta (W) peru. Hún tekur náttúrurlega 100 W stöðugt á meðan kveikt er á henni. Það eru 0,45 amper (A) miðað við 220 volta (V) spennu. Hugsum okkur að peran klári 5 mínútna skammt af rafmagni á 1 sek. þegar kveikt er á henni. Hún þyrfti með öðrum orðum 100 W sinnum 5 mínútur sinnum 60 sekúndur, þ.e.a.s. 5x60x100 = 30.000 W þessa tilteknu sekúndu. Þetta eru 5x60x0,45 = 135 A. Þar sem öryggi í húsum eru yfirleitt ekki stærri en 10 A, þýðir þetta að þau myndu slá út í hvert sinn sem kveikt væri á þessari peru! Það stenst sem sagt engan veginn að peran eyði svona miklu rafmagni fyrstu sekúnduna.

Hvað varðar endingu ljósanna, þá er augljóst að perur sem alltaf er verið að kveikja og slökkva á endast að meðaltali skemur en aðrar perur. Hins vegar bendir Robin á, að sá fjárhagslegi sparnaður sem felst í lengri endingartíma sem næst með því að slökkva sem sjaldnast, sé aðeins brot af þeim sparnaði sem felst í minni orkunotkun þar sem ljós loga aldrei að óþörfu.

Fyrir þá sem hafa gaman af að leika sér með tölur má nefna, að á venjulegu íslensku heimili í þéttbýli kostar hvert watt af ljósarafmagni sem er í notkun allt árið eitthvað um 100 kr með fastagjaldi, dreifingu, virðisaukaskatti og öllu saman. Þannig er það alla vega heima hjá mér. Það kostar með öðrum orðum, ótrúlegt en satt, um 10.000 krónur að láta 100 W peru loga dag og nótt allt árið. En þá er ég reyndar búinn að smyrja fastagjaldinu jafnt á allar kílówattstundirnar. Í reynd lækkar gjaldið fyrir hverja kílówattstund eftir því sem notkunin eykst.

Hvað sem öðru líður er hægt að spara þónokkra peninga með því að slökkva ljós sem ekki eru í notkun. Og svo eru líka til einfaldar leiðir til að lækka rafmagnsreikninginn enn meira, líklega um svo sem 10% til viðbótar. Kannski skrifa ég eitthvað um það seinna.


Á hverju byggir þessi munur?

Um taxta veit ég varla baun.
Veit þó eitt sem gamall hippi:
Að varla þarf maður þreföld laun,
þó að maður sé með typpi.


mbl.is Kynbundinn launamunur 19,5%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýsköpun er vanmetin!

Þegar ágóði af nýsköpun er áætlaður falla menn gjarnan í svokallaða DCF-gildru. Þá eru tekjur af nýsköpunarhugmyndinni bornar saman við óbreyttar tekjur af þeirri starfsemi sem fyrir er. Reyndin er hins vegar sú, að ef menn aðhafast ekkert, þá minnka tekjurnar en haldast ekki óbreyttar. DCF-gildrunni er gjarnan lýst með eftirfarandi mynd:

DCF-gildran

Á myndinni táknar A áætlað sjóðstreymi vegna nýsköpunarinnar, B táknar áætlað sjóðstreymi sem hlýst af því að gera ekkert, en C táknar líklegra sjóðstreymi sem hlýst af þessu sama aðgerðarleysi. Hefðbundnar aðferðir til að áætla núvirt sjóðstreymi (Discounted Cash Flow (DCF)) eða núvirði (Net Present Value (NPV)) byggjast venjulega á samanburði milli A og B, en ættu þess í stað að líta á samanburðinn milli A og C.

Ágóði af nýsköpun er með öðrum orðum almennt vanmetinn í hefðbundnum viðskiptalíkönum, einfaldlega vegna þess að yfirleitt tapa menn á því að gera ekki neitt!

(Þessi samantekt er í boði Harvard Business Review og Hans Nilsson).


Vísa í morgunsárið

Dýru gjaldi geld ég flest,
sem gæfan fylgir ekki með í.
En ókeypis er brosið best,
sem bankinn tekur ekki veð í.


Út að hlaupa - fyrir heilsuna

Hljóp rúma 25 km í morgun. Það var bara notalegt, enda veðrið miklu betra en veðurspáin. Annars hef ég slegið dálítið slöku við í hlaupunum tvær síðustu vikur. Ætlunin var að hlaupa alltaf þrisvar í viku, samtals a.m.k. 40 km. Hélt því áfallalaust í 6 vikur, en upp á síðkastið hefur annríki á öðrum sviðum fengið að ná yfirhöndinni.

Mér líður betur ef ég hleyp reglulega. Það getur svo sem vel verið að það sé bara ímyndun, en það skiptir bara engu máli. Líðan manns er hvort sem er ímyndun að töluverðu leyti. Ef manni finnst manni líða vel, þá líður manni vel. Eða eins og gömul norsk kona orðaði það einu sinni: "Det er ikke hvordan man har det, men hvordan man tar det"! Smile


„Fairtrade“ bananar

Oktnóv08 012web

Þessi fallega mynd af mér var tekin í dag þegar ég kom heim úr Samkaupum í Borgarnesi með matvörur fyrir helgina. Í Samkaupum fæst jafnan töluvert af lífrænt vottuðum vörum. Þar á meðal hafa oft fengist lífrænt vottaðir bananar frá Dóminíkanska lýðveldinu. En í dag var búið að bæta um betur. Nú fengust nefnilega lífrænt vottaðir bananar frá Ekvador, sem voru réttlætismerktir í þokkabót. Réttlætismerking er það sem kallast „Fairtrade certification“ á ensku. Ég hef stundum kallað þetta siðgæðisvottun, en tala núorðið oftar um réttlætismerkingu í þessu sambandi.

Algengasta réttlætismerkið („Fairtrade“ merkið) sem notað er í heiminum í dag er svonefnt Max Havelaar merki. Það er einmitt merkið sem sést á ekvadorsku banönunum á myndinni. Þetta er óháð og áreiðanlegt merki sem vottar siðræn viðskipti með matvörur og fleiri vörur frá þróunarlöndunum. Merkið tryggir m.a. að þeir sem unnu við framleiðslu vörunnar hafi notið lágmarksréttinda hvað varðar laun og aðbúnað og að barnaþrælkun hafi ekki verið stunduð við framleiðsluna. Þar að auki felur merkið í sér staðfestingu á því að inni í verði vörunnar sé dálítið aukagjald, sem framleiðandanum er skylt að verja í félagsleg verkefni í viðkomandi landi, t.d. til skólabyggingar. Samt er verð þessarar vöru ekkert endilega miklu hærra en verð annarrar vöru til sömu nota, þar sem ekkert hefur verið skeytt um fólk og félagsleg réttindi. Ástæðan er sú, að réttlætismerktu vörurnar fara að jafnaði í gegnum mun færri milliliði en hinar vörurnar. Samtökin Fairtrade Labelling Organisations International (FLO), sem halda utan um þetta kerfi á heimsvísu, hafa nefnilega milligöngu um beina samninga við framleiðendur. Um leið fá þau yfirsýn yfir alla vörukeðjuna og geta fylgst með að hvergi sé svindlað á skilmálunum sem fylgja þessari vottun. 

Til skamms tíma hafa réttlætismerktar vörur verið fremur sjaldséðar á Íslandi, en smátt og smátt virðist úrvalið vera að aukast. Þannig er orðið tiltölulega auðvelt að finna þessar vörur í heilsubúðum, þá einkum kaffi, te og súkkulaði. Eitthvað er líka til af réttlætismerktum fatnaði. Alla vega hef ég rekist á réttlætismerkta boli í fataskápum dætra minna. Til skamms tíma var líka starfrækt sérstök verslun með réttlætismerkt klæði í miðborg Reykjavíkur, en því miður hefur mér skilist að hún sé nú hætt starfsemi.

Með því að kaupa réttlætismerktar vörur leggur maður sitt af mörkum til þróunaraðstoðar. Maður getur líka treyst því að sú aðstoð komist til skila og nýtist þar sem hún á að nýtast. Með því að kaupa þessa tilteknu banana lagði ég sem sagt örlítið af mörkum til að bæta kjör bænda og búaliðs einhvers staðar í Ekvador. Og líklega kostaði það mig lítið sem ekkert. Ég ætlaði jú að kaupa banana hvort sem var!

Kaup á réttlætismerktum vörum í stað annars varnings með alls óþekkta sögu í siðgæðislegu tilliti, er ekki bara eitthvað sem einstaklingar geta gert, heldur felst í þessu kjörið tækifæri fyrir fyrirtæki og stofnanir til að styðja við þróunarstarfið og bæta eigin ímynd um leið. Þannig finnst mér alveg sjálfsagt að hér eftir verði eingönu veitt réttlætismerkt te og réttlætismerkt kaffi á kaffistofum Alþingis. Ekki veitir víst af að bæta ímyndina og leggja eitthvað til þróunarmála. Sama ætti náttúrulega að gilda um öll ráðuneyti. Næst mætti svo taka málið upp í opinberum stofnunum, bæði á vettvangi ríkis og sveitarfélaga.

333122258Fairtrade%20by%20KBHTalandi um sveitarfélög: Um síðustu mánaðarmót afhenti fulltrúi Max Havelaar í Danmörku aðalborgarstjóra Kaupmannahafnar, Ritt Bjerregaard, formlega staðfestingu á að borgin hefði uppfyllt þau skilyrði sem þurfti til að verða fyrsti réttlætisbærinn í Danmörku. Þetta felur m.a. í sér að í ráðhúsi borgarinnar verður eingöngu boðið upp á réttlætismerkt („Fairtrade vottað“) te og kaffi. Nú þegar eru um 10% af öllu kaffi sem borgin kaupir réttlætismerkt, en þessi 10% samsvara um 8 tonnum á ári. Hægt er að lesa meira um þetta allt saman í „Orðum dagsins“ á heimasíðu Staðardagskrár 21 á Íslandi 18. nóvember sl.

Ónefnt sveitarfélag á Íslandi hefur lýst yfir ákveðnum vilja til að feta sömu leið og Kaupmannahafnarborg, og verða þar með fyrsti vottaði réttlætisbærinn á Íslandi. En eins og staðan er í dag er þetta því miður ekki framkvæmanlegt, því að til þess þarf að vera búið að setja á fót stofnun eða samtök sem sinnir þessu kerfi á Íslandi. Málið hefur verið rætt við Max Havelaar skrifstofurnar í Bretlandi og í Noregi. Þær gætu í sjálfu sér sinnt Íslandi hvað þetta varðar, en það yrði augljóslega mun dýrara og óhentugra á allan hátt en ef íslenskur aðili gæti sinnt verkinu. Þetta þarf að fela í sér eftirlit og vottun á vörum og bæjum, auk skýrsluhalds og samskipta við höfuðstöðvar FLO. Auðvitað kostar peninga að koma þessu á fót, en um leið myndi opnast mun greiðari leið en nú til að koma þessum vörum til Íslands, kynna þær og gera aðgengilegar fyrir íslenska neytendur, fyrirtæki og stofnanir, þannig að þessir aðilar geti nýtt þessa einföldu og öflugu aðferð í þróunarstarfi af fullum krafti.

Til að skýra þetta íslenska vandamál aðeins nánar, þá eru ýmsar réttlætismerktar vörur fluttar til landsins í stórum sekkjum og síðan pakkað í smærri neytendaumbúðir hérlendis. Max Havelaar merkið er þá á sekkjunum sem varan kemur í, en þar sem enginn aðili hérlendis sér um framhaldið, þá geta söluaðilarnir hér ekki fengið merkið á nýju umbúðirnar, jafnvel þó að öllum skilyrðum réttlætismerkingarinnar hafi í raun verið fullnægt. Reyndar hef ég heyrt að Te&kaffi hafi fengið erlenda stofu til að votta einhverja kaffitegund hjá sér, en allar aðrar réttlætismerktar vörur sem fást hér hafa fengið merkið áður en þær voru fluttar inn.

Eins og sést á fallegu myndinni efst í þessari færslu vildi svo skemmtilega til að ég var einmitt með Max Havelaar merki í jakkaboðungnum þegar ég keypti umrædda banana. Þetta merki var mér gefið í september þegar ég hitti fólk frá norska smábænum Sauda, sem varð einmitt fyrst norskra sveitarfélaga til að fá vottun sem réttlætisbær. Það gerðist í ágúst 2006, en síðan þá hefur orðið mikil vakning á þessu sviði í Noregi og nokkur sveitarfélög bæst í þennan hóp.

Þeir sem hafa náð að lesa alla leið hingað og þótt sem þeir yrðu einhvers vísari, mega gjarnan skrifa hugleiðingar sínar í athugasemdir hér fyrir neðan. Sömuleiðis er mér afar ljúft að svara hvers kyns spurningum um réttlætismerkingar.


Ekki kjósa í flýti

Kosningar hljóta að verða á næsta ári, hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Hins vegar tel ég óráð að kjósa í flýti, því að allar kosningar, sérstaklega þessar kosningar, þurfa nokkurn aðdraganda og vandaðan undirbúning.

Hvers vegna þurfa „sérstaklega þessar kosningar“ nokkurn aðdraganda og vandaðan undirbúning? Jú, við stöndum nefnilega á þröskuldi nýrra tíma. Framundan hlýtur að vera töluverð uppstokkun og endurnýjun, bæði hvað varðar stjórnmálaflokkana sjálfa og fólkið sem gefur kost á sér. Við þurfum að leyfa þessari uppstokkun að eiga sér stað fyrir kosningar, að svo miklu leyti sem fært er, því að annars eigum við á hættu að festa núverandi flokkaskipan og að vissu marki einnig núverandi einstaklinga í sessi. Þar með sitjum við af okkur það tækifæri sem nú býðst til nýsköpunar.

Erfitt er að fullyrða hversu langan tíma þessi uppstokkun tekur. En þegar á allt er litið hygg ég að vorið 2009 sé góður tími til kosninga. Við höfum þá alla vega nokkra mánuði til stefnu. Svo er vorið líka sá tími þegar sprotar spíra og nýtt fæðist af gömlu. 


mbl.is Undirbúa vantrauststillögu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jólakötturinn

Föl með kreppuflókahöttinn
fetum slóðina.
Og sjáum jafnvel jólaköttinn
éta þjóðina.

Var að koma af stórskemmtilegu hagyrðingakvöldi í Breiðfirðingabúð. Þar gerði ég merkilega uppgötvun: Hagyrðingar eru ekki endilega miðaldra eða gamlir karlar, heldur allt eins ungar konur. Ferskeytlan er sprelllifandi!


Utanþingsstjórn?

Kannski væri ráð að fela utanþingsstjórn að fara með stjórn landsins fram að næstu alþingiskosningum, þ.e. t.d. fram á vorið. Vissulega hefur sú lausn marga galla, og gæti af sumum talist fela í sér einhvers konar uppgjöf. En kostirnir eru líka margir.

Ég held að staðan í þjóðfélaginu sé alvarlegri en ráðamenn gera sér grein fyrir. Þar á ég ekki við hina efnahagslegu stöðu, heldur miklu frekar þá samfélagslegu. Það verður greinilegra með hverjum laugardegi sem líður, að fólkið í landinu treystir ekki núverandi valdhöfum til að stýra þjóðarskútunni í gegnum brimskafla næstu vikna og mánaða. Hversu ágætlega sem einstökum stjórnmálamönnum finnst þeir hafa staðið sig, og hversu rétt sem þeir kunna að hafa fyrir sér hvað það varðar, geta þeir naumast hunsað þennan augljósa vilja og reynt að afgreiða hann sem skrílslæti. Því fyrr sem einstakir stjórnmálamenn verða læsir á þetta ástand, þeim mun líklegra er að þeim verði treyst til áframhaldandi starfa þegar þjóðin kveður upp dóm sinn. Um leið styttist líka sá tími sem það mun taka að þjappa þjóðinni saman um þau verkefni sem framundan eru. Að óbreyttu mun klofningur og óeining ná áður óþekktum hæðum, með áður óþekktum aukaverkunum.

Aðdragandinn að skipan utanþingsstjórnar er væntanlega sá, að forsætisráðherra biðjist lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt. Það þýðir alla jafna að annað hvort er mynduð ný ríkisstjórn eða þing rofið og efnt til nýrra kosninga. Þyki ekki fært að mynda nýja þingræðislega ríkisstjórn getur forsetinn skipað utanþingsstjórn. Þetta hefur gerst einu sinni í Íslandssögunni, þ.e.a.s. í desember 1942 þegar Sveinn Björnsson, þáverandi ríkisstjóri, skipaði utanþingsstjórn undir forsæti Dr. Björns Þórðarsonar, lögmanns. Þetta var neyðarúrræði, þar sem ekki hafði tekist að mynda starfhæfa stjórn að loknum alþingiskosningum fyrr um haustið. Utanþingsstjórnin sat í tæp tvö ár, eða þar til Nýsköpunarstjórnin undir forystu Ólafs Thors tók við völdum í október 1944.

Í bók Guðna Th. Jóhannessonar, Völundarhús valdsins, kemur fram að Kristján Eldjárn, þáverandi forseti Íslands, hafi verið kominn á fremsta hlunn með að mynda utanþingsstjórn eftir að stjórn Ólafs Jóhannessonar fór frá völdum 1979. Hugmyndin var svo langt komin, að búið var að leggja fyrstu drög að ráðherralista. Ætlunin var að Jóhannes Nordal seðlabankastjóri yrði forsætisráðherra, en meðal annarra hugsanlegra ráðherra voru Ásmundur Stefánsson og Jón Sigurðsson, sem báðir hafa reyndar komið við sögu í umræðum síðustu daga, tæpum 30 árum síðar. Úr þessu varð þó ekki, þar sem á síðustu stundu tókst Alþýðuflokknum að mynda minnihlutastjórn undir forsæti Benedikts Gröndals, enda hafði Sjálfstæðisflokkurinn þá samþykkt að verja slíka stjórn falli.

Hugmyndin um utanþingsstjórn hefur ekki verið áberandi í fjölmiðlum síðustu daga, en nokkur umræða hefur þó farið fram um málið í netheimum. Utanþingsstjórn er auðvitað alls engin töfralausn. Hún er þvert á móti algjört neyðarúrræði. En kannski ríkir einmitt þess konar neyð núna, að þessi lausn sé sú skásta. Þarna gætu setið sérfræðingar með þokkalega hreint borð, sem sagt fólk sem almenningur og erlendir samstarfsaðilar gætu treyst. Um leið fengist friður; friður til að stjórna, friður til að huga að innra starfi stjórnmálaflokkanna og undirbúa kosningar og friður fyrir fólk flest til að sinna þeim málum sem því standa næst. Þegar friðurinn hefur ríkt nógu lengi yrði svo kosið til Alþingis - og eftir það tæki trúlega við töluvert breytt landslag, bæði hvað varðar stjórnmálaflokka og einstaklinga í forystuhlutverkum. Kannski myndi sagan frá 1944 endurtaka sig, þ.e.a.s. að þegar utanþingsstjórnin hefði lokið hlutverki sínu, tæki Nýsköpunarstjórn við. Nýsköpunar er þörf, þó að hún þurfi ekki að byggjast á fulltrúum sömu flokka og mynduðu samnefnda stjórn í árdaga lýðveldisins!

Til að fyrirbyggja misskilning tel ég rétt að taka það fram, svona rétt í lokin, að hvað sem öllu tali um utanþingsstjórnir líður, þá ætti Ólafur Ragnar líklega ekki að grípa þá hugmynd Kristjáns Eldjárns á lofti að setja seðlabankastjóra í stól forsætisráðherra. Wink


Viskýflaska og sportbíll

Var það ekki Jón Daníelsson sem sagði eitthvað á þá leið, að ef maður gæfi unglingum viskýflösku og sportbíl, og léti þeim síðan málið eftir, þá væri ekki von að vel færi? Hvort er það sem miður fer í foreldralausum partýum foreldrunum eða unglingunum að kenna? Voru ekki stjórnvöld og eftirlitsstofnanir í hlutverki foreldranna, en bankar og útrásarvíkingar í hlutverki unglinganna? Veldur hver á heldur!


mbl.is Ábyrgðin liggur hjá bönkunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunar-fræðingur í Borgarnesi
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband